Átak og áhersla á einfaldara og skilvirkara regluverk var á meðal loforða síðustu ríkisstjórnar, en í stjórnarsáttmála hennar sagði: „Átak verður gert í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að stjórnsýsla sé skilvirk og réttlát.“
Þrátt fyrir að einstaka ráðuneyti hafi ráðist í slíkar aðgerðir, sem ber að fagna, hafa markvissar aðgerðir í þágu einföldunar regluverks setið á hakanum og staða Íslands í alþjóðlegum samanburði staðið í stað.
Viðskiptaráð hvetur næstu ríkisstjórn til að setja raunverulegan kraft í einföldun regluverks og framkvæma allsherjarátak. Í því samhengi telur Viðskiptaráð nauðsynlegt að tryggja að öllum frumvörpum fylgi mat á efnahagslegum áhrifum á fyrirtæki, skilgreina þarf markmið íþyngjandi lagasetningar og rökstyðja að því verði ekki náð með minna íþyngjandi leiðum. Þá er mikilvægt að ekki sé farið umfram lágmarkskröfur við innleiðingu ESB regluverks og bæta þarf almenna umgjörð í kringum leyfisveitingar og eftirlit.
Einföldun regluverks er hagsmunamál allra
Atvinnulífið þarf að búa við skýrar og skynsamlegar leikreglur til að almenningur, hið opinbera og önnur fyrirtæki séu vel varin gagnvart ólögmætri háttsemi. Öflugt eftirlit með atvinnustarfsemi er einnig mikilvægt til að framfylgja regluverkinu. Um þetta er ekki deilt en regluverk er ekki til regluverksins vegna. Regluverk þarf að vera skilvirkt.
Því mega lagaumhverfið og eftirlit ekki vera óþarflega íþyngjandi. Slíkt eykur kostnað fyrirtækja sem dregur t.d. úr svigrúmi þeirra til að greiða há laun og veikir samkeppnishæfni þeirra á alþjóðavettvangi. Veikari samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs leiðir til þess að störf verða færri en ella og starfsöryggi minna. Þegar fyrirtæki skila minni skatttekjum geta ríki og sveitarfélög síður staðið undir grunnþjónustu. Einföldun laga- og eftirlitsumhverfis atvinnulífsins er því hagsmunamál allra landsmanna og nauðsynlegur þáttur til að bæta kjör og tryggja næga atvinnu.
Ísland stendur í stað
Sé staða okkar skoðuð í alþjóðlegu samhengi eru vísbendingar um að íslenskt regluverk sé óskilvirkt. Niðurstöður úttektar IMD háskólans á samkeppnishæfni ríkja sýna að Ísland er eftirbátur Norðurlandanna þegar kemur að því að skapa regluumgjörð sem tryggir hagfellt viðskiptaumhverfi. Á kjörtímabili síðustu ríkisstjórnar hefur staða Íslands lítið breyst og Ísland fallið um eitt sæti á listanum. Lítið bendir því til að regluverk viðskiptaumhverfis á Íslandi sé að skána þrátt fyrir fyrirheit síðustu ríkisstjórnar. Við stöndum þannig í stað á meðan Svíþjóð og Danmörk, lönd sem við berum okkur oft saman við, hafa hækkað upp í 2. og 4. sæti listans.
Ef skoðað er hvað einkennir þau ríki sem hækka hvað mest á listanum milli ára, eru það ekki endilega aðgerðir sem miða að því að lágmarka umfang regluverksins, heldur hámarka skilvirkni þess með því að skapa umgjörð sem hindrar ekki þróun einkageirans og þann lífsgæðaauka sem fylgir að jafnaði í kjölfarið. Í sömu úttekt er mat stjórnenda á þeim þáttum sem eru sérstaklega aðlaðandi varðandi hagkerfið kannaðir og þar kemur Ísland iðulega verr út en Norðurlöndin í þáttum sem varða regluverk. Það gefur enn skýrari vísbendingu um að regluverk á Íslandi sé meira íþyngjandi en í grannríkjum okkar (mynd 2).
Óþarflega íþyngjandi innleiðing
Innleiðing regluverks Evrópusambandsins gefur enn skýrari mynd af byrði regluverks og hvort stjórnvöld nýti möguleika á einföldun þess. Íslensk stjórnvöld innleiða reglulega regluverk ESB með meira íþyngjandi hætti en þörf er á til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar. Þetta kom fram í úttekt forsætisráðuneytisins árið 2016, og þrátt fyrir ætlan síðustu ríkisstjórnar að bæta úr þessari stöðu eru dæmi um að innleiðing EES-reglna fari enn fram með óþarflega íþyngjandi hætti og þannig með miklum áhrifum á íslenskt atvinnulíf. Við innleiðingu GDPR persónuverndar reglugerðarinnar árið 2018, með setningu laga nr. 90/2018, var t.a.m. gengið lengra en þörf var á. Í reglugerðinni er að finna ívilnandi undanþáguheimildir sem voru ekki nýttar nema að litlu leyti. Í lögunum er einnig að finna séríslenskar reglur um leyfisveitingar sem leggja viðbótarskyldu á íslensk fyrirtæki. Persónuvernd hefur ennfremur mun víðtækari valdheimildir heldur en gert var ráð fyrir í GDPR-reglugerðinni. Framangreind atriði valda því að íslensk fyrirtæki bera meiri kostnað af regluverkinu en fyrirtæki í nágrannalöndum okkar og hafa neikvæð áhrif á stöðu íslensks regluverks í alþjóðlegu samhengi.
Mikið er í húfi þegar kemur að hömlum á viðskipti
OECD framkvæmir reglulega kannanir á hversu íþyngjandi regluverk er í hinum ýmsu þjónustuviðskiptum, en sú könnun leiðir af sér vísitölu regluverks í þjónustugreinum (e. Services Trade Restrictiveness Index). Ísland á þann vafasama heiður að verma neðsta sæti listans meðal OECD ríkja, en Indónesía, Indland og Tæland koma í sætunum þar á eftir. Nauðsynlegt er að bæta úr þessari stöðu þar sem mikið er í húfi fyrir landsmenn þegar kemur að hömlum á viðskipti. Að mati OECD gætu aðgerðir sem auka skilvirkni regluverks um helming skilað sér í 15% lægri viðskiptakostnaði í þjónustu yfir landamæri innan fárra ára. Vegna þess hve miklar þessar hömlur vegna regluverks eru hérlendis gæti kostnaðurinn lækkað um 28%.
Þrátt fyrir að heildarmyndin líti ekki vel út er tilefni til að fagna góðri þróun innan stöku ráðuneyta á síðasta kjörtímabili. Þannig fór atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið t.a.m. í allsherjar úttekt á regluverki ráðuneytisins og hóf átak til einföldunar. Þá var OECD fengið til að gera úttekt á regluverki byggingariðnaðar og ferðaþjónustu og gerði stofnunin í kjölfar úttektarinnar 438 tillögur til breytinga á gildandi lögum og reglum til að auka samkeppnishæfni greinanna. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hófst handa við að innleiða fjölda þeirra tillagna, sem allar hafa jákvæð áhrif til einföldunar regluverks, en betur má ef duga skal.
Hvað þarf að gera?
Þrátt fyrir stefnu síðustu ríkisstjórnar hefur ekki tekist að framkvæma allsherjarátak í einföldun regluverks og er staða okkar tiltölulega óbreytt og döpur í alþjóðlegum samanburði. Framangreind upptalning og samanburður sýnir svart á hvítu að stjórnvöld verða að taka verkefninu af meiri alvöru og bregðast við ef þau ætla sér að skapa sem hagfelldasta umgjörð fyrir verðmætasköpun.
Gera þarf allsherjarátak í einföldun regluverks og bæta umgjörð lagasetningar til að tryggja að íslensk fyrirtæki búi ekki við óþarflega íþyngjandi regluverk sem kemur niður á verðmætasköpun og sköpun starfa í landinu. Í því samhengi telur Viðskiptaráð eftirfarandi atriði vera nauðsynleg:
Viðskiptaráð hvetur næstu ríkisstjórn til að setja raunverulegan kraft í einföldun regluverks og mótun markvissrar heildarstefnu. Slíkri stefnu þarf að fylgja eftir á næstu árum svo íslensk fyrirtæki þurfi síður að takast á við óþarflega íþyngjandi og kostnaðarsama reglubyrði sem á endanum skerðir hag og lífskjör almennings.