Það stefnir í verkföll í ferðaþjónustu þrátt fyrir að sú atvinnugrein hafi átt einna stærstan þátt í fjölgun starfa og aukningu kaupmáttar síðustu misseri. Ljóst er að atvinnulífið ræður við litlar launahækkanir um þessar mundir enda launakostnaður hér á landi hár og launahlutfall það hæsta meðal þróaðra ríkja. Enda sýna gögn án nokkurs vafa að launþegar hafa almennt notið hvað mest uppsveiflunnar síðustu ár. Til dæmis hækkaði launakostnaður í smásöluverslun um þriðjung frá 2014 til 2017 á meðan hagnaður dróst saman um fimmtung.
Tölur úr rekstri ferðaþjónustunnar og hjá félögum skráðum í Kauphöll sýna svipaða þróun. Gögn úr rekstri þeirra 40 hótela og gististaða sem verkfallsaðgerðir beinast að sýna ennfremur sömu sögu. Miðað við hratt dvínandi nýtingu hótelherbergja, um 7% lækkun á höfuðborgarsvæðinu í janúar, hækkun launakostnaðar síðustu misseri og aðra þróun virðist sem rekstur þeirra hótela verði í járnum í ár miðað við bjartsýnar forsendur og sáralitlar launahækkanir. Ef nýting versnar aftur á móti áfram með minnkandi veltu og laun hækka um 6% í kjarasamningum gæti tap hótelanna samanlagt numið nærri 3 milljörðum króna. Í slíku umhverfi bresta forsendur rekstrar sem óhjákvæmilega þýðir að störf tapast nema að gengi krónunnar veikist verulega með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun.
Þó að svigrúm til launahækkana sé lítið þýðir það síður en svo að ekki sé hægt og ekki eigi að bæta kjör, sérstaklega þeirra sem eru á lægstu laununum. Til þess þarf önnur úrræði og þar ber hæst aðgerðir til að auka íbúðaframboð. Slíkt styður við lífskjör til framtíðar en leiðir ekki velmegunarkúna til slátrunar.