Viðskiptaráð Íslands

Auknar ráðstöfunartekjur í heimsfaraldri

Útlit er fyrir að tekjujöfnuður hafi staðið í stað á síðasta ári en dregið hafi úr launamun kynjanna

Í morgun birti Hagstofan tölur um tekjur einstaklinga árið 2020. Þrátt fyrir djúpa efnahagslægð og atvinnuleysi án fordæma hafði sá Íslendingur sem stendur í miðju tekjudreifingarinnar 3,9% hærri ráðstöfunartekjur en árið 2019, sem þýðir um 1% kaupmáttaraukningu. Samsetning teknanna breyttist þó verulega vegna heimsfaraldursins þar sem launahækkanir, bótagreiðslur og útborgun séreignarsparnaðar vógu á móti lækkun fjármagnstekna og atvinnuleysi (mynd 1). Aðrar tekjur, sem innihalda t.d. bótagreiðslur, hafa aldrei verið jafn hátt hlutfall af tekjum landsmanna.

Annað sem kemur fram í tölum Hagstofunnar:

  • Þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar og spádóma eru litlar sem engar vísbendingar að finna um vaxandi ójöfnuð á síðasta ári. Síðustu ár hefur tekjujöfnuður heldur aukist en stóð nokkurn veginn í stað á síðasta ári.
  • Kynbundinn tekjumunur hefur ekki minnkað jafn mikið í 11 ár og hafa konur nú 85% af ráðstöfunartekjum karla en 71% af atvinnutekjum.
  • Síðustu fimm ár hefur kaupmáttur elstu aldurshópanna aukist mest (um 22% hjá 65 ára og eldri), en minnst hjá 35 til 44 ára (11%).

Engar sérstakar vísbendingar um aukinn ójöfnuð

Ólíkt því sem hefur sífellt verið haldið fram undanfarna mánuði, nú síðast af sérfræðingahópi ASÍ í síðustu viku, lítur nú út fyrir að jöfnuður hafi nokkurn veginn staðið í stað árið 2020 (mynd 2). Almennt séð virðist þróun frá lægri millitekjum og upp að háum tekjum afar svipuð – ríflega 3% hækkun tekna frá 2019 til 2020. Helstu frávikin eru við 10% tíundamörk og 99% tekjumörk. Ekki er ósennilegt að lækkun fjármagnstekna hafi þessi áhrif á efri endanum en minna framboð hlutastarfa, einkum hjá námsmönnum, hafi áhrif á neðri endanum, enda er þar um að ræða mjög lágar tekjur (166 þús.kr. á mánuði).

Vaxandi jöfnuður síðustu ár

Ef horft er yfir lengri tímabil sést að jöfnuður hefur heldur aukist á síðustu árum (mynd 3). Til að mynda hafa tekjur þeirra sem eru við efri mörk lægstu tekjutíundar aukist um 22% meira en hjá öðrum að meðaltali, en tekjur þeirra sem eru við neðri mörk efsta 1% lækkað um 8% í hlutfalli við aðra og hafa þannig aldrei verið lægri. Hér er eingöngu horft til heildartekna og því ekki ráðstöfunartekna eftir skatta. Í því samhengi hafa skattbreytingar síðustu ára, þar með talið verulegar tekjuskattsbreytingar um síðustu áramót, verið til þess fallnar að auka tekjujöfnuð.

Mesti samdráttur kynbundins launa- og tekjumunar frá 2009

Jafnt og þétt hefur dregið úr kynbundnum tekjumun síðustu ár. Árið 2020 var engin undantekning og gott betur – ekki hefur dregið svo mikið úr muninum frá árinu 2009 og hafa konur nú 85% af ráðstöfunartekjum karla en 71% af atvinnutekjum (aðallega laun). Haldi þróunin á síðasta ári áfram verður fullum kynjajöfnuði í ráðstöfunartekjum náð árið 2028 en árið 2032 í atvinnutekjum. Athuga skal að hér er ekki horft til atvinnuþátttöku, starfa, menntunar eða annarra þátta heldur óleiðrétts tekju- og launamunar eins og hann birtist í tölum úr skattframtölum landsmanna.

Áfram situr ungt fólk eftir – mesta tekjuaukningin í elstu aldurshópum

Nokkur umræða hefur skapast á síðustu árum um þá staðreynd að yngri aldurshópar hafa setið eftir í tekjuþróun síðustu áratugi. Ástæðurnar virðast fjölþættar og ekki augljósar en lengri skólaganga og að fólk er lengur að komast í ábyrgðarstöður virðast spila inn í. Nýju tölurnar sýna þessa þróun svart á hvítu og hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna 34 ára og yngri vaxið um innan við 1% á ári frá aldamótum (mynd 5).

Ungt fólk dróst séstaklega aftur úr á fyrsta áratug þessarar aldar en síðan þá hefur staðan í meginatriðum haldist svipuð. Frá 2015 hefur verið áberandi mesti vöxtur kaupmáttar ráðstöfunartekna hjá 65 ára og eldri (mynd 6). Yngstu hóparnir hafa frá 2015 haldið ágætlega velli en minnsta aukning kaupmáttar á tímabilinu var hjá 35-44 ára, eða 11%, og þarnæst hjá 45-54 ára, eða 13%.

Tengt efni

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024