Langflestar stofnanir á vegum ríkisins greiða starfsfólki svokallaða fasta yfirvinnu en það er ótímamæld vinna. Fyrirkomulagið er útbreitt en útfærsla þess er afar misjöfn, meira að segja milli áþekkra stofnanna. Viðskiptaráð telur að taka þurfi á fyrirkomulaginu og greiða einungis fyrir tímamælda yfirvinnu.
Níu af hverjum tíu ríkisstofnunum greiða starfsfólki svokallaða fasta yfirvinnu, þ.e. laun fyrir ótímamælda yfirvinnu (mynd 1) . 22 stofnanir greiða engum starfsmanni fasta yfirvinnu. Jafn margar stofnanir greiða 1-10% starfsfólks fasta yfirvinnu og 15 stofnanir greiða yfir 90% af starfsfólki fasta yfirvinnu. Þetta kemur fram í svari fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn Diljár Mist Einarsdóttur þingmanns. [1]
Föst yfirvinna byggir á ákvörðunum stofnana sem meta hvort starfsskyldur starfsmanna krefjist vinnuframlags umfram hefðbundinn vinnutíma og greiða þeim þá fasta yfirvinnu óháð því hvort hún sé unnin eða ekki. Þetta fyrirkomulag er algengt hjá ríkisstofnunum en 51 stofnun greiðir meira en helmingi starfsfólks fasta yfirvinnu.
Árið 2024 var föst yfirvinna að meðaltali 17,4 stundir á mánuði hjá starfsmönnum ríkisins sem fengu greidda yfirvinnu. Þetta mikla magn fastrar yfirvinnu í bland við útbreiðslu fyrirkomulagsins torveldar launasamanburð hjá ríkinu. Það á sérstaklega við í tilfelli samanburðar grunnlauna milli ríkisins og almenna vinnumarkaðarins, þar sem föst yfirvinna tíðkast ekki á þeim síðarnefnda.
Föst yfirvinna algengust í ráðuneytunum
Föst yfirvinna er algengust hjá ráðuneytum og stjórnsýslustofnunum (mynd 2). Fyrirkomulagið getur þó verið misjafnt eftir tegundum stofnana og er t.d. sjaldgæfast í heilbrigðisstofnunum, þjónustustofnunum og meðal sýslumanna.
Svör fjármála- og efnahagsráðuneytisins gefa til kynna að 29% starfsmanna stofnana sé ekki unnt að sinna þeim verkefnum sem starfslýsing þeirra gerir ráð fyrir innan hefðbundins vinnutíma. Á sama tíma er þessi vinna ekki tímamæld líkt og hefðbundin yfirvinna.
Tvö ráðuneyti greiða nær öllum fasta yfirvinnu
Í öllum ráðuneytum fær yfir 70% starfsfólks greitt fyrir fasta yfirvinnu (mynd 3). Hlutfallið er hæst í félags- og húsnæðismálaráðuneytið og fá 96% starfsmanna greitt fyrir fasta yfirvinnu. Þar á eftir kemur dómsmálaráðuneytið en þar er hlutfallið 94%. Hlutfallið er lægst í atvinnuvegaráðuneytinu, þar sem 74% fá greitt fyrir fasta yfirvinnu.
Utanríkisráðuneytið er eina ráðuneytið sem borgar starfsfólki sínu tímamælda yfirvinnu í einhverjum mæli. Tæplega 20% starfsfólks þar fá greidda tímamælda yfirvinnu, en í öðrum ráðuneytum er það hlutfall undir 2%. Þannig er nær öll yfirvinna sem greitt er fyrir í ráðuneytunum föst og ótímamæld.
Sjö stofnanir greiða yfir 100% starfsfólks yfirvinnu
Í sjö stofnunum fer samtala fastrar og tímamældar yfirvinnu yfir 100% (mynd 4). Út frá því má álykta að hluti starfsmanna þessara stofnana fái greidda bæði fasta og tímamælda yfirvinnu. Það þýðir að mögulegt sé að viðkomandi fái greitt tvöfalda yfirvinnu fyrir sama vinnuframlag þar sem önnur tegund yfirvinnunnar er ekki mæld.
Um þriðjungur starfsmanna Hagstofa Íslands fá greidda bæði fasta yfirvinnu og tímamælda yfirvinnu. Í tilfelli Geislavarna ríkisins er hlutfall þeirra sem fá greitt fyrir bæði fasta og tímamælda yfirvinnu tæp 14%.
Föst yfirvinna misjöfn milli sambærilegra stofnana
Hjá lögregluembættunum fá þrefalt fleiri greidda fasta yfirvinnu þar sem hún er mest samanborið við þar sem hún er minnst (mynd 5). Hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum er 89% starfsfólks með fasta greidda yfirvinnu, en hlutfallið er aðeins 24% hjá lögreglunni á Vestfjörðum.
Fyrirkomulag fastrar yfirvinnu er þannig afar misjafnt jafnvel þótt að eðli stofnananna sé nokkurn vegið hið sama. Það er því mikið ósamræmi í útfærslu fyrirkomulagsins.
Ýmsir gallar á fyrirkomulaginu
Bent hefur verið á galla fyrirkomulags fastrar yfirvinnu, m.a. af lögfræðingi Læknafélags Íslands sem skrifaði í Læknablaðið:
„Almennt má segja að samningar um yfirvinnu á föstum forsendum séu óheppilegir. Þeir fela í sér óeðlilega mismunun og minnka gegnsæi og skýrleika í launaákvörðun.“ [2]
Þá er ljóst að föst yfirvinna er notuð til að hækka grunnlaun starfsmanna með óskýrum og ógagnsæjum hætti. Sem dæmi þá hafa stofnanir með mikla fasta yfirvinnu gefið þær skýringar að „stofnanasamningar starfsmanna ríkisins væru of þröngir og því yrði að brúa bilið milli raunverulegra launa og launa samkvæmt kjara- og stofnanasamningum með þessum hætti“. [3]
Föst yfirvinna hefur aukist þvert á markmið eldri kjarasamninga. Um 75% stofnana greiddu starfsfólki fyrir fasta yfirvinnu árið 2009 en hlutfallið var 90% árið 2024. Í kjarasamningum árið 2006 var stefnt að því að þessar greiðslur rynnu inn í sameiginlega launatöflu en ljóst er að það hefur mistekist. [4]
Tímabært að breyta þessu
Viðskiptaráð telur tímabært að leggja niður fyrirkomulag fastrar yfirvinnu og greiða einungis fyrir tímamælda yfirvinnu. Þannig mætti útrýma þeim göllum sem fylgja fyrirkomulaginu sem eru einkum þrír. Í fyrsta lagi er föst yfirvinna notuð sem falin launauppbót. Í öðru lagi getur hún falið í sér óeðlilega mismunum þar sem sumir vinna fyrir greiddri yfirvinnu á meðan aðrir gera það ekki. Í þriðja lagi er mikið misræmi í útfærslu fyrirkomulagsins milli stofnanna, jafnvel þeirra sem sinna sömu þjónustu. Með breyttu fyrirkomulagi mætti tryggja aukið jafnræði og gagnsæi, bæði innan stofnana og milli stofnana.
[1] Þar sem vísað er til hlutfalls starfsfólks í úttektinni er átt við hlutfall stöðugilda
[2] Læknablaðið 01. tbl. 106. árg 2020. Dögg Pálsdóttir: „Að vinna ógreidda yfirvinnu. Slóð: “ „https://www.laeknabladid.is/tolublod/2020/01/nr/7234
[3] Ríkisendurskoðun (2017). „Landspítali: Endurskoðunarskýrsla fyrir 2016“. Slóð: https://www.rikisendurskodun.is/reskjol/files/Skyrslur/2016-endurskodun-Landspitali.pdf
[4] Fréttablaðið (16. desember 2009). „Föst yfirvinna greidd án eftirlits“. Slóð: https://www.visir.is/paper/fbl/091216.pdf