Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp um breytingar á bótum almannatrygginga. Breytingin raskar jafnvægi milli bótaþega og vinnandi fólks og með því að binda bótafjárhæðir við launavísitölu í stað launaþróunar. Viðskiptaráð leggst gegn breytingunni þar sem hún felur í sér þríþættan samfélagskostnað: aukin opinber útgjöld, lakari hvata til atvinnuþátttöku og aukin skattbyrði á þá sem eftir standa á vinnumarkaði.
Umsögn um frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (aldursviðbót, launavísitala og tölfræðiupplýsingar). Mál nr. 259 á 156. löggjafarþingi.
Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum um ofangreint frumvarp. Þar er kveðið á um að greiðslur almannatrygginga fylgi launavísitölu í stað launaþróunar, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Viðskiptaráð leggst gegn breytingunni enda mun hún þyngja byrðar vinnandi fólks þegar síst skyldi, hraða varanlega útgjaldavexti hins opinbera og veikja hvata til þátttöku á vinnumarkaði. Ráðið hefur skilað inn umsögn á fyrri stigum málsins og vísar til þess eftir því sem við á. [1]
Sjálfvirkur útgjaldavöxtur í efnahagssamdrætti
Viðskiptaráð vill árétta að nú þegar er í 62. gr. laga nr. 2007/100 kveðið á um að greiðslur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun en þó aldrei minna en verðlag skv. vísitölu neysluverðs. Með frumvarpinu á hins vegar að ganga lengra. Þar segir: „mun breytingin [...] gagnast öllum sem fá greiðslur frá almannatryggingum og tryggja þeim að jafnaði meiri hækkanir en kjarasamningar kveða á um.“ Þetta þýðir að kjör vinnandi fólks, sem standa undir bótakerfinu með skattgreiðslum sínum, munu smám saman rýrna samanborið við þá sem reiða sig á vinnu þeirra sér til framfærslu.
Frá aldamótum hefur launavísitala hækkað um 64% umfram vísitölu neysluverðs. Yfir það tímabil hefur vísitalan fjórum sinnum hækkað minna en almennt verðlag. Það var árin 2008 - 2010 en einnig lítillega árið 2022. Lækkun raunlauna með þessum hætti er mörgum sársaukafull en er engu að síður nauðsynlegur undanfari kröftugrar endurreisnar í kjölfar efnahagssamdráttar. Lækkun raunlauna gerir vinnuafl hlutfallslega ódýrara, eykur samkeppnishæfni útflutningsgreina og dregur úr atvinnuleysi. Starfandi á vinnumarkaði fá síðan lækkunina endurheimta hraðar en ella í gegnum þann efnahagsbata sem tekur við í kjölfarið. Nái frumvarpið fram að ganga mun sú sársaukafulla aðlögun sem lýst er hér að ofan einungis eiga sér stað hjá vinnandi fólki en ekki þeim sem reiða sig á verðmætasköpun fyrrgreinds hóps sér til framfærslu. Að mati ráðsins er óeðlilegt að þyngja byrðar vinnandi einstaklinga í niðursveiflu og veita þeim sjálfkrafa í auknar tilfærslur í slíku árferði.
Fyrirhuguð breyting getur hækkað bótagreiðslur umfram laun
Með frumvarpinu verður þetta misræmi aukið enn frekar. Hefði fyrirhugað fyrirkomulag verið við lýði frá síðustu aldamótum hefði fjárhæð bóta hækkað um 13% umfram launavísitölu (mynd 1). Bætur almannatrygginga hefðu hækkað um 85% umfram verðlag samanborið við 64% hækkun launavísitölu. Í kjölfar samdráttar árið 2008 tók það launavísitöluna rúm sjö ár að ná fyrri hæðum að raunvirði og árið 2016 var launavísitalan rétt um 4 prósentustigum hærri en árið 2008. Með nýrri tvítryggingu hefðu bótagreiðslur aftur á móti hækkað um 17% umfram verðlag á sama tímabili, eða 13 prósentustigum meira en launavísitalan.
Að mati ráðsins er áformuð tvítrygging m.t.t. bæði launavísitölu og verðlags óeðlileg með tilliti til framangreinds. Frá aldamótum hafa bætur almannatrygginga hækkað u.þ.b. tvöfalt á við vísitölu neysluverðs og umfram launaþróun í landinu. [2] Áform um að hækka bætur enn frekar umfram laun mun veikja vinnumarkaðinn og draga úr verðmætasköpun og þar með lífskjörum til lengri tíma litið.
Hvatar til þátttöku á vinnumarkaði veiktir
Frekari hækkun bóta almannatrygginga með tengingu við vísitölu launa í stað kostnaðarmats kjarasamninga gerir framfærslu af bótum hlutfallslega eftirsóknarverðari en áður. Með öðrum orðum þá er dregið úr hvata fólks til að taka þátt á vinnumarkaði samanborið við að þiggja bætur. Veikari staða vinnumarkaðarins dregur úr verðmætasköpun og skatttekjum sem standa undir tilfærslukerfunum. Þannig er öflugur vinnumarkaður og verðmætasköpun hans forsenda lífskjara allra í samfélaginu - líka þeirra sem þiggja bætur.
Þá sýnir sagan okkur að örorkulífeyrir hækkar nú þegar hraðar en laun. Frá árinu 1997 hefur örorkulífeyrir sjöfaldast á meðan laun skv. launavísitölu hafa sexfaldast. [3] Þá hafa örorkubætur og ellilífeyrir sexfaldast frá árinu 2000 og yfir sama tímabil hefur launavísitalan ríflega fimmfaldast. [4] Í báðum tilfellum hafa bætur hækkað um það bil 20% umfram laun. Launavísitala mælir einnig aðrar kjarabætur, t.d. styttingu vinnuvikunnar og starfsaldurshækkanir, og hækkar því hraðar en laun skv. kjarasamningum. Meðfylgjandi mynd er að finna í svara fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn um útreikning launaþróunar.
Í greinargerð með frumvarpinu segir einnig að „atvinnuleysisbætur [hafa] oftast tekið sömu hækkunum og bætur almannatrygginga.“ Þannig mun fyrirhuguð breyting ekki aðeins leiða til þess að bætur almannatrygginga hækki hraðar en laun heldur munu atvinnuleysisbætur gera það líka. Komi til þess að atvinnuleysisbætur verði hærri en lágmarkslaun eru hvatar til að taka að sér sum störf orðnir neikvæðir. Slíkt fyrirkomulag mun seint teljast sjálfbært.
Nú þegar er útgjaldavöxtur hins opinbera vegna örorku á Íslandi hraðastur á meðal Norðurlandanna og tíðni örorku með því mesta sem gerist. Þetta er raunin bæði í hlutfalli við mannfjölda og einnig í hlutfalli við þá sem eru á vinnufærum aldri. [5] Að mati Viðskiptaráðs er brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að sporna við þessari þróun og dragi úr fjölgun bótaþega, t.d. með innleiðingu virks endurmats á örorku. Breyting sem eykur hvata til að þiggja bætur án þess að taka á þessum vanda er óskynsamleg.
Þríþættur kostnaður fyrirhugaðra breytinga
Að öllu virtu fela breytingarnar í sér þríþættan kostnað fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi auka þær opinber útgjöld með beinum hætti vegna hækkunar bótafjárhæða og þyngja þannig byrðar skattgreiðenda, sérstaklega á tímum þegar síst skyldi. Í öðru lagi vegna fjölgunar bótaþega, en áformaðar breytingar gera eftirsóknarverðara en áður að þiggja bætur almannatrygginga. Í þriðja lagi vegna fækkunar starfandi einstaklinga og þar með þyngri byrða þeirra sem eftir verða á vinnumarkaði.
Að mati ráðsins er erfitt að sjá hvernig ávinningur samfélagsins er hærri en fyrrgreindur kostnaður miðað við útfærslu breytinga í frumvarpinu. Núverandi lagaumgjörð almannatrygginga tryggir nú þegar hækkun bóta til jafns við almenna launaþróun í landinu með þeirri tryggingu að hún skuli aldrei lægri vera lægri en verðlagsþróun. Að mati ráðsins væri nær lagi að fjarlægja ákvæði um verðlagstryggingu bóta í stað þess að auka það misræmi sem tvítryggingin skapar nú þegar.
Viðskiptaráð leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Sjá Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til breytinga á lögum um almannatryggingar (mars 2025). Slóð: https://vi.is/umsagnir/dyrkeypt-breyting-a-botum-almannatrygginga
2 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið (2023). „Svar við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um þróun bóta almannatrygginga.“ (þingskjal 871 á 154. löggjafarþingi 2023–2024). Slóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0871.pdf
3 Fjármála- og efnahagsráðuneytið (2023). „Svar við fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni um útreikning launaþróunar.“ (þingskjal 2193 á 154. löggjafarþingi 2023–2024). Slóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/2193.pdf
4 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið (2023). „Svar við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um þróun bóta almannatrygginga.“ (þingskjal 871 á 154. löggjafarþingi 2023–2024). Slóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0871.pdf og Hagstofa íslands (2024). „Launavísitala, ársmeðaltöl frá árinu 1989“. Slóð: https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/laun-og-tekjur/launavisitala/
5 Sjá skýrslu Viðskiptaráðs (febrúar 2024). “Hið opinbera: Get ég aðstoðað?”: Slóð: https://vi.is/frettir/skyrsla-vidskiptathings-2024---hid-opinbera-get-eg-a%C3%B0stodad