Viðskiptaráð Íslands

Vill Efling lækka laun?

Efling segir að svigrúm sé til 9,5% launahækkana í kjarasamningum, miðað við hagspá ársins. Hvað ef við skoðum svigrúmið frá gerð síðustu kjarasamninga?

Þegar opinber gögn eru notuð til að færa rök fyrir málstað fer alltaf betur á því að þau séu sett fram í réttu og eðlilegu samhengi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 25. ágúst 2022.

Efling birti nýverið grein í tímaritinu Kjarafréttir. Þar eru færð rök fyrir því að í komandi kjarasamningum eigi laun að miðast við þróun í hagkerfinu og er þar átt við hagvöxt umfram fólksfjölgun á þessu ári. Ofan á þetta eigi einnig að bæta launþegum verðlagshækkanir ársins 2022.

Efling leggur því til að við undirritun kjarasamninga í haust hækki laun sem nemur 7,5% verðbólgu samkvæmt spá Hagstofu auk spár um 2% framleiðniaukningu, samtals að meðaltali 9,5% með flatri hækkun upp á kr. 66.000,- fyrir alla tekjuhópa. Fullyrt er að svigrúm sé til þessa. Jafnframt er því haldið fram að þessar launahækkanir muni ekki hafa áhrif á verðlag.

Við skulum skoða þessar fullyrðingar hvora í sínu lagi, en byrjum á svigrúmi til launahækkana og beitum aðferðafræði Eflingar.

Stundum er neikvæður hagvöxtur

Nálgun Eflingar á viðfangsefnið er góðra gjalda verð. Það er sjálfsagt að launþegar fái sinn skerf af vexti hagkerfisins. Aftur á móti skiptast á skin og skúrir í efnahagslífi þjóðarinnar og stundum er enginn hagvöxtur eða hann jafnvel neikvæður, líkt og á árinu 2020 þegar áhrifa kórónuveirufaraldursins gætti. Þegar svo ber undir minnkar það sem er til skiptanna og taka þarf tillit til þess þegar svigrúm til launahækkana er metið.

Að sama skapi er óútskýrt hvers vegna launagreiðendur ættu einir að taka á sig verðlagshækkanir með því að tryggja launþega gegn þeim að fullu, enda takmarkar það möguleika þeirra fyrrnefndu til að halda rekstrinum réttu megin við núllið. Laun eru gjarnan einn stærsti útgjaldaliður launagreiðenda. Þeir eru auk þess í mjög misjafnri stöðu hvað varðar rekstrarumhverfi og fjárhag. Þannig gætu sumir tekið á sig launahækkanir og aðrir ekki, en kjarasamningar gilda jafnt um þá, óháð afkomu. Miklar launahækkanir geta gert rekstur fyrirtækja ósjálfbæran.

Hvað er þá til bragðs að taka?

Kemur þá einkum tvennt annað til skoðunar, annars vegar uppsagnir (aukið atvinnuleysi) eða hins vegar verðhækkanir (aukinn verðbólguþrýstingur). Þriðji valmöguleikinn er aukin skuldsetning. Það er skammgóður vermir að taka lán til að fjármagna rekstur sem er ekki lengur sjálfbær.

Þá er til þess að líta, líkt og kemur fram í Kjarafréttum, að verðlagshækkanir skýrast meðal annars af áhrifum stríðsátaka í Úkraínu og hækkunum á olíu- og matvælaverði. Íslenskir launagreiðendur stjórna hvorki né bera ábyrgð á þeim þáttum.

Nálgun Eflingar á viðfangsefnið tekur ekki tillit til neins af þessu. Hún miðar auk þess einungis við árið 2022. Skoðum þetta því í víðara samhengi, þ.e. frá byrjun 2019 og til loka þessa árs. Kjarasamningar voru síðast undirritaðir vorið 2019.

Leggur ekkert inn, tekur bara út

Árið 1986 flutti söngflokkurinn ICY lagið Gleðibankann fyrir hönd Íslands í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Það var í fyrsta sinn sem Íslendingar tóku þátt í keppninni. Í laginu er fjallað um óútleystan tékka þess sem leggur ekkert inn, heldur tekur bara út. Textabúturinn er áminning um að lífið er ekki alltaf dans á rósum; það er ekki bara hægt að taka út, heldur þarf líka að leggja inn. Meira að segja í Gleðibankanum.

Í samhengi við tillögur Eflingar, þannig að launþegar ættu að taka út sem nemur verðbólgu og auk þess alla framleiðniaukningu hagkerfisins, þarf því líka að skoða innstæðuna. Hún er svona: Kjarasamningar voru síðast undirritaðir í apríl 2019. Frá ársbyrjun 2019 og til loka ársins 2022 má vænta samtals 22% verðbólgu, 2,7% hagvaxtar og 8,1% fólksfjölgunar miðað við nýjustu spár. Framleiðni hagkerfisins samkvæmt skilgreiningu Eflingar mun því fyrirsjáanlega dragast saman um 5,4%.

Svigrúm til launahækkana yfir þetta tímabil er því 16,6%, miðað við aðferðafræði Eflingar. Laun hafa aftur á móti þegar hækkað um 24,9% frá undirritun síðustu kjarasamninga, langt umfram þróun verðlags og framleiðni.

Svigrúm til launahækkana við gerð næstu kjarasamninga ætti því að vera neikvætt um 8,3% miðað við aðferðafræði Eflingar. Fullyrðing um að tilefni sé til 9,5% launahækkana í kjarasamningum nú, með vísan til þróunar verðlags, hagvaxtar og fólksfjölgunar heldur engu vatni. Ef miða á laun við þróun þessara þátta ættu þau að lækka við gerð næstu kjarasamninga. Ætlar Efling að halda sig við þessa aðferðafræði áfram?

Hefur verð ekki áhrif á kostnað?

Eins og fyrr segir eru laun gjarnan stærsti útgjaldaliður launagreiðenda. Eftir sem áður fullyrðir Efling að launahækkanir sem elta verðlag hafi ekki áhrif til verðlagshækkana, eða eins og segir í Kjarafréttum:

„Þannig elta launahækkanir verðlagið en reka það ekki áfram, enda er verðbólgan nú af öðrum sökum en launahækkunum.“

En hvernig fær þetta staðist? Samband launa og verðbólgu er margslungið. Það er þó í öllu falli til staðar. Í það minnsta er augljóst að ef fyrirtæki stendur skyndilega frammi fyrir miklum kostnaðarhækkunum, hvort sem það er vegna launa eða annars, þarf að bregðast við því.

Hérlendis hafa launagreiðendur gjarnan gripið til verðhækkana, frekar en uppsagna eða lántöku. Það vill enda enginn aukið atvinnuleysi. Þetta er þekkt söguleg staðreynd en eftir sem áður er hinu gagnstæða nú haldið fram; að hækkun launa hafi engin áhrif á verðlag. Skoðum hvernig launahækkun hittir fyrir meðalstóran atvinnurekanda í dæmaskyni.

Til þess að koma rekstrinum í samt horf hefur Guðrún tvo valkosti; að segja upp einum starfsmanni eða hækka verð um 4%. Hún getur einnig tekið lán en það bætir ekki reksturinn.

Vitanlega geta verðhækkanir eða uppsagnir leitt til þess að tekjur fyrirtækisins minnka, til dæmis ef viðskiptavinir kjósa þá heldur að kaupa þjónustu af öðrum eða ef framleiðslugetan dregst saman.

Í öllu falli blasir við að launahækkanir hafa áhrif á kostnað launagreiðenda og þar af leiðandi einnig á verð. Fullyrðing Eflingar um að 9,5% launahækkun hafi ekki áhrif á verðlag stenst ekki skoðun.

Þetta er í þriðja sinn á skömmum tíma sem Viðskiptaráð leiðréttir rangfærslur úr Kjarafréttum Eflingar. Viðskiptaráð minnir á að eintak Eflingar af bókinni Raunvitund eftir Hans Rosling bíður þess að verða vitjað á skrifstofu ráðsins.

Elísa Arna Hilmarsdóttir, hagfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024