Viðskiptaráð Íslands

Fimm skattahækkanir á móti hverri lækkun

Frá áramótum 2022 hafa verið gerðar 46 breytingar á skattkerfinu, þar af hafa verið fimm skattahækkanir fyrir hverja skattalækkun.

Frá árinu 2007 hefur verið gerð 391 breyting á skattkerfinu og skiptast breytingarnar í 293 skattahækkanir en einungis 93 lækkanir. Það þýðir að fyrir hverja skattalækkun hafa skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum.

Dregur úr skattalækkunum

Frá áramótum 2022 hafa tekið gildi 46 breytingar á skattkerfinu en einungis sjö þeirra voru til lækkunar. Það gera fimm skattahækkanir fyrir hverja skattalækkun. Það er áhyggjuefni að þrátt fyrir sambærilegan fjölda breytinga til hækkunar undanfarin tvö ár hafi lækkanir að jafnaði verið mun færri.

Ljóst er að heimsfaraldurinn hafði sitt að segja um sumar þessara skattabreytinga. Að hluta til var skattkerfið nýtt til að bregðast við þeim efnahagsáföllum sem orsökuðust af útbreiðslu farsóttarinnar og ákvörðunum stjórnvalda um takmarkanir, til dæmis með auknum endurgreiðslum og tímabundinni niðurfellingu gjalda.

3fad432d-416d-4a3d-9154-7c964ab8d339

Veigamestu breytingar á skattkerfinu frá áramótum 2022

  • Lögbundið hámarksútsvar hækkað um 0,22 prósentustig og hækkuðu flest sveitarfélög um sem því nemur
  • Tekjuskattur einstaklinga var lækkaður á móti um 0,22 prósentustig
  • Persónuafsláttur hækkaði um rúm 17%
  • Endurgreiðsla á virðisaukaskatti á vinnu iðnaðarmanna lækkaði úr 100% í 60%. Fyrir þinginu liggur frumvarp um frekari lækkun, í 35% frá og með 1. júlí 2023
  • Lækkun tryggingagjalds gekk til baka og hækkaði það um 0,25 prósentustig
  • Skattfrelsismark erfðafjárskatts var hækkað úr 1,5 m. kr. í 5. kr. árið 2021 og fylgir nú vísitölu neysluverðs
  • Áfengis og tóbaksgjöld hækka um rúm 10% að jafnaði

Hægist á takti hagfelldra skattabreytinga

Frá árinu 2007 hafa skattahækkanir á hverju ári verið fleiri en lækkanir. Þá hafa umræddar breytingar ekki einungis verið til að breyta gildandi sköttum heldur hafa nýir skattar einnig verið kynntir til leiks og einhverjir eldri skattar verið afnumdir. Á árunum 2009-2013 voru alls tólf nýir skattar lagðir á en af þeim var aðeins einn til lækkunar, eða frítekjumark fjármagnstekjuskatts.

2b77fb97-9eee-4aad-8f52-f186205b02dc

Viðskiptaráð hefur hvatt stjórnvöld til að vinda ofan óhagfelldri þróun skattkerfisins og skapa þannig forsendur til aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara. Aðeins tæplega helmingur þessara sértæku skatta hefur verið afnuminn, þá helst á árunum 2014-2016 en síðan þá hefur enginn þeirra verið afnuminn. [1]

Mýmörg tækifæri eru til að tryggja aukna skilvirkni í tekjuöflun ríkissjóðs og stuðla að aukinni samkeppnishæfni hagkerfisins. Sem dæmi má nefna hækkun eða lengingu frádráttarheimildar fyrir tekjur erlendra sérfræðinga, afnám bankaskatta og fjársýsluskatta á heildarlaun fjármálafyrirtækja, og skatt á heitt vatn.

Talsverðar hækkanir á öllu tímabilinu

Frá árinu 2007 hefur Viðskiptaráð reglulega tekið saman yfirlit yfir breytingar á sköttum. Þar má ekki bara sjá að skattabreytingar hafa verið margar heldur einnig að breytingarnar hafa þá tilhneigingu að vera til hækkunar. [2] Þegar á heildina er litið má meðal annars sjá eftirfarandi breytingar frá árinu 2007:

  • Fjármagnstekjuskattur hefur hækkað um 120%
  • Persónuafsláttur hefur hækkað um 85%
  • Erfðafjárskattur hefur tvöfaldast
  • Gjöld á vindlinga og annað tóbak hafa hækkað um 160 – 300% en gjöld á neftóbak hafa hækkað um 1.100%
  • Kolefnisgjöld á bensín, gas- og dísilolíu og brennsluolíu hafa u.þ.b. fjórfaldast
  • Bankaskattur hefur hækkað um rúm 250%
  • Gjald í framkvæmdasjóð aldraðra hefur hækkað um 91%

Samantekt Viðskiptaráðs á skattabreytingum 2007-2023 má finna hér.

[1] Gistináttagjald var afnumið tímabundið.

[2] Athugið að krónutölugjöld eru á nafnvirði.

Tengt efni

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024