Viðskiptaráð Íslands

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar þingsályktunartillögu um stefnu í neytendamálum til 2030 en ráðið skilaði einnig inn umsögn á fyrri stigum. Ráðið vill árétta þær athugasemdir og telur þörf á að koma eftirfarandi atriðum á framfæri.

Ráðið hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda vænkast vegna frjáls framtaks fólks og fyrirtækja með nýjum vörum, þjónustu og nýsköpun – ekki auknum ríkisútgjöldum til eftirlitsstofnana og hagsmunasamtaka. Einfalt regluverk, hagfellt rekstrarumhverfi og frjór jarðvegur fyrir verðmætasköpun eru mikilvægustu hagsmunir neytenda til langs tíma litið.

Ráðið fagnar áherslum í stefnunni á nútímavæddari löggjöf, einföldun regluverks og aukna skilvirkni en þar sem orðalag er fremur almennt og útfærslur í mörgum tilvikum ómótaðar, er erfitt að leggja mat á hvort þeim markmiðum verði náð.

Neytendalöggjöf Íslands byggir að miklu leyti á evrópsku regluverki og ætti því að vera í samræmi við löggjöf annarra ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu. Því er mikilvægt fyrir bæði neytendur og fyrirtæki að stjórnvöld gæti að gullhúðun við innleiðingu Evróputilskipana og bæti ekki við heimatilbúnum og íþyngjandi séríslenskum kröfum sem draga úr samkeppnishæfni.

Þrátt fyrir ábendingar ráðsins á fyrri stigum hefur stefnan enn ekki verið kostnaðarmetin og umfjöllun um fjármögnun er ófullnægjandi. Í greinargerð með þingsályktuninni kemur aðeins fram að mat á fjárhagslegum áhrifum þingsályktunartillögunnar eigi að fara fram eftir því sem aðgerðir mótast, og að tekið verði mið af því við gerð fjárlaga hvers árs og í uppfærslu á fjármálaáætlun.

Þetta er í beinni andstöðu við leiðbeiningar Stjórnarráðsins um að stjórnvöld skuli kostnaðarmeta stefnur og tryggja þeim fjármögnun áður en þær eru formlega samþykktar. Ráðið geldur varhug við þessari óheillaþróun að auka ríkisútgjöld með því að leggja fram ófjármagnaðar stefnur í formi þingsályktana, fá þær samþykktar á Alþingi og rökstyðji síðan auknar fjárheimildir við gerð næstu fjárlaga og fjármálaáætlunar á þeim grundvelli. Mikilvægt er að löggjafarvaldið veiti framkvæmdavaldinu aðhald í þessum málum og tryggi heilindi og gagnsæi í ályktunum sem samþykktar eru af Alþingi.

Að teknu tilliti til framangreinds er það mat ráðsins að tillagan sé ekki tæk til frekari meðferðar á Alþingi í núverandi mynd.

Tengt efni

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Hallalaus fjárlög: Níu hagræðingartillögur Viðskiptaráðs

Í fjárlögum 2025 er áformað að reka ríkissjóð með 41 ma. kr. halla, sem væri …
8. október 2024

Mikilvægt að hraða endurskoðun laga um rammaáætlun

Viðskiptaráð ítrekar þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, …
30. september 2024