Viðskiptaráð Íslands

Áform megi ekki draga úr framboði lána

Umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingu á þinglýsingalögum o.fl. vegna rafrænna skuldaviðurkenninga, mál nr. 144/2022

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar áform um breytingu á lögum um þinglýsingar nr. 144/2022 og fleiri lögum vegna rafrænna skuldaviðurkenninga.

Samantekt

Í umsögn þessari kemur fram:

  • Áformin munu fyrirsjáanlega leiða til aukins hagræðis við lánveitingar sem falla undir gildissvið laganna og því mikilvægt að gildissviðið verði útvíkkað.
  • Lánveitendur eru lattir til þess að gefa út rafrænar skuldaviðurkenningar vegna ólíkra reglna um mótbárumissi. Lagt er til að rafrænar skuldaviðurkenningar lúti sömu reglum um mótbárumissi og veðskuldabréf gera nú.
  • Gæta þarf að því að áformin dragi ekki úr framboði lána.
  • Viðskiptaráð telur rétt að málið nái fram að ganga að teknu tilliti til athugasemda.

Í sinni einföldustu mynd miða áformin að því að auðvelda lánveitendum og neytendum að ganga frá tilteknum lánsviðskiptum með rafrænum hætti. Nánar tiltekið verði ekki lengur þörf á því að framvísa veðskuldabréfum vegna íbúðarkaupa og bílalána á pappírsformi til þinglýsingar. Þess í stað verði notast við rafrænar skuldaviðurkenningar. Með því verði hægt að afgreiða drjúgan hluta lánsviðskipta alfarið með rafrænum hætti.

Í greinargerð er einkum vísað til þess að áformin séu liður í vegferð stjórnvalda um aukna rafræna þjónustu. Viðskiptaráð fagnar því. Ráðið telur líklegt að áformin geti lækkað kostnað við lánveitingar og sparað tíma og fyrirhöfn við þinglýsingar. Lánveitendur og neytendur njóta góðs af því.

Hagræðing nái yfir öll lán

Eins og sakir standa er aðeins áformað að rafrænar skuldaviðurkenningar verði notaðar við útgáfu íbúðarlána til einstaklinga annars vegar og bílalána hins vegar. Viðskiptaráð leggur til að gildissvið laganna verði útvíkkað.

Að baki þessari tillögu liggja einkum tvenns konar rök. Í fyrsta lagi er ekki að sjá að sérstök sjónarmið eða aðstæður mæli gegn því að rafrænar skuldaviðurkenningar verði notaðar í öðrum lánsviðskiptum. Í öðru lagi telur Viðskiptaráð sjónarmið um hagræði eiga við um fleiri tegundir lána en tilgreind eru í áformunum. Lægri kostnaður og fyrirhöfn við lánveitingar hafa þýðingu fyrir atvinnulífið, eins og einstaklinga.

Þá bendir Viðskiptaráð á að ávinningur af hagræðingu kann að einhverju leyti að fara forgörðum ef lánveitendur þurfa að notast við tvíþætt verklag við lánveitingar. Annars vegar verði afgreiddar rafrænar skuldaviðurkenningar og hins vegar hefðbundið verklag með skjöl á pappír. Farsælast sé að lánveitendur geti notast við rafrænar skuldaviðurkenningar í sem ríkustum mæli.

Áformin þurfa að ná markmiðum sínum

Í áformunum er gert ráð fyrir ólíkri meðferð rafrænna skuldaviðurkenninga og hefðbundinna veðskuldabréfa þegar kemur að sk. mótbárumissi, þegar fasteignalán til neytenda eru annars vegar. Nánar tiltekið að mótbárur tapist þegar veðskuldabréf gangi kaupum og sölum, en þær geri það ekki í tilfelli rafrænna skuldaviðurkenninga.

Í sinni einföldustu mynd fælir þetta fyrirkomulag lánveitendur frá því að nota rafrænar skuldaviðurkenningar. Notkun veðskuldabréfa verður áhættuminni og þ.a.l. kunna afföll af slíku lánasafni að verða minni en í tilfelli rafrænna skuldaviðurkenninga. Auk þess er ekki útséð með hvort rafrænar skuldaviðurkenningar teljist hæfar í tryggingasöfn sértryggðra skuldabréfa, til jafns við hefðbundin veðskuldabréf.

Viðskiptaráð mælist til þess að rafrænar skuldaviðurkenningar lúti sömu reglum um mótbárumissi og veðskuldabréf gera nú.

Gætt verði að útilokandi áhrifum

Viðskiptaráð tekur undir ábendingar í fram kominni umsögn Neytendastofu varðandi möguleg útilokandi áhrif þeirra sem ekki falla undir upptalningu 1.-3. til 2. mgr. 42. gr. laga nr. 118/2016 um fasteignalán til neytenda. Óbreytt áform kynnu að leiða til þess að framboð lána til neytenda drægist saman.

Þá tekur Viðskiptaráð undir athugasemdir Samtaka fjármálafyrirtækja er snúa að frumvarpinu.

Í ljósi alls framangreinds mælist Viðskiptaráð til þess að áformin verði endurskoðuð m.t.t fyrrgreindra athugasemda.

Að lokum áskilur Viðskiptaráð sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum og er reiðubúið að skýra umsagnir sínar sé þess óskað.

Tengt efni

Hallalaus fjárlög: Níu hagræðingartillögur Viðskiptaráðs

Í fjárlögum 2025 er áformað að reka ríkissjóð með 41 ma. kr. halla, sem væri …
8. október 2024

Mikilvægt að hraða endurskoðun laga um rammaáætlun

Viðskiptaráð ítrekar þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, …
30. september 2024

Afhúðun á umhverfismati framkvæmda og áætlana

Umhverfis, orku- og loftslagsráðuneytið hefur lagt fram fyrsta frumvarpið sem …
17. september 2024