Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög verkefnastjórnar rammaáætlunar að flokkun tíu vindorkukosta. Ráðið ítrekar enn og aftur þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, jafnan nefnd rammaáætlun, þjóni ekki markmiðum sínum og telur fyrirliggjandi drög enn eina birtingarmynd þess hversu tímafrekt, ófyrirsjáanlegt, ógagnsætt og kostnaðarsamt ferlið er.
Viðskiptaráð tekur alla jafna ekki efnislega afstöðu til einstakra virkjunarkosta en taldi mikilvægt að koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við ráðuneytið:
Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun þarfnast gagngerrar endurskoðunar
Ráðið ítrekar enn og aftur þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, jafnan nefnd rammaáætlun, þjóni ekki markmiðum sínum. Fyrirliggjandi drög séu enn ein birtingarmynd þess hversu tímafrekt, ófyrirsjáanlegt, ógagnsætt og kostnaðarsamt ferlið er en samkvæmt þeim eru tíu vindorkuverkefni metin og öll sett í biðflokk samkvæmt 5. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011. Faghópar voru skipaðir í ársbyrjun 2022 og niðurstaðan að þremur árum liðnum er í raun að afla þurfi frekari upplýsinga um alla virkjunarkostina, meira að segja þá tvo sem áður hafði verið lagt til að setja í nýtingarflokk án nokkurs rökstuðnings hvers vegna sé verið að víkja frá fyrri flokkun þeirra.
Verkefnastjórnin virðist sjálf telja verkefni sitt vandkvæðum bundið þar sem ekki liggi fyrir framtíðar stefnumótun stjórnvalda um virkjun vindorku í landinu. Erfitt er að fallast á þessi rök. Henni ber eðli máls samkvæmt að starfa samkvæmt núgildandi lögum, hún virðist ekki líta til annarrar stefnumótun stjórnvalda í mati sínu og nú þegar hafa tvö vindorkuverkefni verið afgreidd frá Alþingi í orkunýtingarflokk, þrátt fyrir að stefnumótun stjórnvalda um vindorku hafi ekki legið fyrir.
Á sama tíma hafa lögin ekki náð að stuðla að breiðari sátt um virkjunarkosti né tryggt næga orkuöflun til að mæta þörfum atvinnulífs og samfélags. Mikilvægt er að hraða heildarendurskoðun laganna til að tryggja samkeppnishæfni við aðrar þjóðir sem vinna að því hörðum höndum að einfalda regluverk til að hraða aukinni orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum.
Skortur á efnahagslegu mati
Í 1. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun segi að markmið laganna sé meðal annars að tryggja að nýting landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti byggist á langtímasjónarmiðum og heildstæðu hagsmunamati þar sem tekið er tillit til verndargildis náttúru og menningarsögulegra minja, hagkvæmni og arðsemi ólíkra nýtingarkosta og annarra gilda sem varða þjóðarhag, svo og hagsmuna þeirra sem nýta þessi sömu gæði, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá segir í 4. mgr. 3. gr. laganna að leggja skuli mat á verndar- og orkunýtingargildi landsvæða og efnahagsleg, umhverfisleg og samfélagsleg áhrif nýtingar, þ.m.t. verndunar.
Þrátt fyrir skýr ákvæði laganna var engum faghóp falið að leggja mat á efnahagsleg áhrif nýtingar eða önnur gildi sem varða þjóðarhag og í kafla 5.3. segir orðrétt: „Ekki hefur verið reynt að áætla umfang efnahagslegs ávinnings þessara orkukosta þrátt fyrir að í vinnu faghópsins hafi komið fram mikið vægi þessa viðfangs.“ Það hlýtur að vera grundvallaratriði fyrir verkefnastjórn að mat á efnahagslegum áhrifum liggi fyrir við flokkun virkjanakosta enda gera lögin einfaldlega ráð fyrir því.
Ekki tekið tillit til orkuþarfar og orkuöryggis
Ráðið hefur, líkt og fleiri aðilar, varað við yfirvofandi raforkuskorti sem mun hafa í för með sér neikvæð áhrif á verðmætasköpun og lífskjör. Raforkuspá Landsnets 2024 til 2050 gerir ráð fyrir viðvarandi orkuskorti, vaxandi eftirspurn eftir raforku og að núverandi virkjanakostir í nýtingarflokki muni ekki duga til fullra orkuskipta. Viðvarandi orkuskortur undanfarin ár, ófullnægjandi samtenging flutningskerfisins og skerðingar á afhendingu orku hafa leitt af sér umtalsverðan kostnað fyrir samfélagið. Að ótöldum kostnaði við glötuð tækifæri og skerta samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja og lífskjör almennings.
Í vinnu verkefnastjórnar er umfjöllun um þessa þætti ófullnægjandi og eingöngu vísað til samtala við sveitastjórnarfólk, sem getur seint talist fullnægjandi greining á umræddum áhrifum og undirstrikar enn frekar ágalla við löggjöfina og vinnu verkefnastjórnarinnar.
Viðskiptaráð ítrekar því ákall til stjórnvalda að flýta heildarendurskoðun laganna og einfalda regluverk verulega til að hraða aukinni orkuvinnslu. Ráðið áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.