Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum. Nái frumvarpið fram að ganga situr eftir sú áskorun að búa íslenskum landbúnaði samkeppnishæft umhverfi sem styður við framþróun greinarinnar en að mati ráðsins er sértæk undanþága frá almennum reglum samkeppnisréttar ekki farsæl leið að því markmiði.
Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri sjónarmiðum við ofangreint mál. Forsaga málsins er samþykkt laga nr. 30/2024 á 154. löggjafarþingi sem með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur nr. E-4202/2024 voru talin stríða gegn 44. gr. stjórnarskrárinnar og hafi af þeim sökum ekki lagagildi. Í kjölfarið ríkir réttaróvissa um heimildir framleiðendafélaga til að sameinast og eiga samstarf um framleiðslu, geymslu og dreifingu kjötvara og bíður málið meðferðar fyrir Hæstarétti. Með frumvarpi þessu er lagt til að þær breytingar sem samþykktar voru með lögum nr. 30/2024 verði felldar brott og vill ráðið koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Ráðið telur að óháð fyrirliggjandi frumvarpi sé mikilvægt að málið komi ekki í veg fyrir möguleika Hæstaréttar til að skýra betur hvaða heimildir löggjafinn hefur til breytinga á lagafrumvörpum milli umræðna svo áskilnaði 44. gr. stjórnarskrárinnar sé fullnægt. Ekki síst í ljósi þess að ríkið var ekki aðili að fyrrgreindu dómsmáli fyrir héraðsdómi og fáum lögskýringargögnum og réttarheimildum er til að dreifa.
Nái frumvarpið fram að ganga situr eftir sú áskorun að búa íslenskum landbúnaði samkeppnishæft umhverfi sem styður við framþróun greinarinnar líkt og þekkist í helstu samanburðarlöndum. Ráðið telur þó að sértæk undanþága frá almennum reglum samkeppnisréttar sé ekki farsæl leið að því markmiði. Rekstrarerfiðleikar atvinnugreinar réttlæti ekki undanþágur frá samkeppnislögum sem einmitt hafa það að markmiði að efla virka samkeppni í viðskiptum og vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins. Stjórnvöld verða þó að temja sér öguð og vönduð vinnubrögð við breytingar á lögum svo ekki sé verið að umturna rekstrarumhverfi fyrirtækja í tíma og ótíma.
Við vinnslu fyrri frumvarpa hafa ekki verið færð rök fyrir því að núverandi samkeppnislöggjöf komi í veg fyrir samstarf og hagræðingu á vettvangi framleiðendafélaga að því gefnu að uppfylltar séu kröfur um hag neytenda og ekki sé komið í veg fyrir samkeppni, sbr. 15. gr. samkeppnislaga. Því hefur ekki verið svarað hvað valdi því að framleiðendafélög treysti sér ekki í samstarf á grundvelli ákvæðisins.
Sé vilji til þess að heimila frekari sameiningar og/eða veita undanþágur frá samkeppnislögum telur ráðið nauðsynlegt að grípa til mótvægisaðgerða, eins og t.a.m. að aflétta tollum sem valda ofurskattlagningu á matvörur hér á landi. Samkvæmt núgildandi lögum eru framleiðandafélög bæði undanþegin reglum samkeppnisréttarins og vernduð frá erlendri samkeppni með ofurskattlagningu á innflutt matvæli.1
Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að tryggja jafnræði og búa atvinnulífinu starfsumhverfi þar sem sömu leikreglur gilda óháð atvinnugreinum. Sé það vilji stjórnvalda að stuðla að aukinni hagræðingu og samkeppni sé farsælast að stuðla að frelsi í viðskiptum, lágmörkun opinberra afskipta og hagfelldu skattaumhverfi.