Viðskiptaráð Íslands

Regluverk lagareldis þarf að styðja við fjárfestingu og samkeppnishæfni

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um lagareldi, sem ætlað er að styrkja lagaramma greinarinnar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Ráðið fagnar markmiðum frumvarpsins um heildstæða löggjöf, skilvirkari stjórnsýslu og aukinn fyrirsjáanleika. Ráðið gerir athugasemdir við tiltekin atriði frumvarpsdraganna sem varða valdframsal, viðurlög og umfang eftirlits.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um lagareldi. Yfirlýst markmið frumvarpsdraganna er að styrkja lagaramma lagareldis og sporna gegn neikvæðum umhverfisáhrifum með því að innleiða hvata og þannig skapa traustari grundvöll fyrir verðmætasköpun.

Viðskiptaráð skilaði inn umsögn um málið á fyrri stigum og fagnaði því að stefnt væri að setningu heildstæðrar löggjafar um fiskeldi. [1] Ráðið telur það heillaskref að samræma regluverk um lagareldi í ein heildarlög, enda hefur skortur á heildstæðri og fyrirsjáanlegri lagaumgjörð reynst greininni áskorun. Viðskiptaráð fagnar því jafnframt að fyrirliggjandi frumvarpsdrög miði að skilvirkari stjórnsýslu og styrkari lagaramma, sem eru lykilforsendur fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnu­greinarinnar. Að mati ráðsins er brýnt að regluverk um útflutningsgreinar sé einfalt, skilvirkt og fyrirsjáanlegt þannig að það styðji við fjárfestingu, nýsköpun og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Þessi afstaða Viðskiptaráðs er hér ítrekuð. Þrátt fyrir það telur ráðið ástæðu til að gera eftirfarandi athugasemdir við frumvarpsdrögin.

Víðtækt valdframsal

Frumvarpsdrögin gera ráð fyrir að ráðherra verði veitt umtalsvert svigrúm við ákvarðanatöku og setningu stjórnvaldsfyrirmæla um atriði sem varða mikilvæga hagsmuni rekstrarleyfishafa. Þar sem drög að slíkum reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum liggja að meginstefnu til ekki fyrir ríkir veruleg óvissa um hvernig regluverki greinarinnar muni í reynd verða háttað, verði frumvarpið að lögum.

Viðskiptaráð telur slíkt ósamrýmanlegt markmiðum um einfalt og fyrirsjáanlegt regluverk og beinir því til ráðherra að tryggja skýrleika við lagasetninguna með því að gera drög að helstu reglugerðum aðgengileg fyrir þinglega meðferð frumvarpsins, ásamt skýrri afstöðu til annarra mikilvægra ákvarðana sem háðar eru mati ráðherra.

Sektarhámörk vegna brota hækkuð

Tekið er undir það sem fram kemur í auglýsingu með frumvarpsdrögunum í Samráðsgátt um þörf á endurskoðun á gjaldtöku í atvinnugreininni þannig að gjaldtaka í greininni miðist við afkomu og dragi ekki úr samkeppnishæfni. Núverandi gjaldtaka miðast við framleitt magn án tillits til kostnaðar eða afkomu og yrði því um grundvallarbreytingu að ræða í sanngirnisátt.

Viðskiptaráð geldur þó varhug við þeim verulega hertu viðurlögum sem frumvarpsdrögin gera ráð fyrir vegna brota á skyldum rekstrarleyfishafa. Í núgildandi lögum er kveðið á um að sektir geti numið allt að 150 milljónum króna, en í frumvarpinu er lagt til að efri mörk sektarfjárhæða verði hækkuð í 500 milljónir króna auk þess sem atriðum sem varða sektum hefur fjölgað frá gildandi lögum.

Ráðið minnir á að íslensk lagareldisfyrirtæki starfa á alþjóðlegum samkeppnis­markaði. Að mati ráðsins hafa ekki verið færð nægjanleg rök fyrir svo umfangsmikilli hækkun á hámarki sektarfjárhæða, auk þess sem íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda eiga samkvæmt meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins aldrei að ganga lengra en brýna nauðsyn ber til. Jákvætt er að kveðið sé á um heimild Matvælastofnunar til að ljúka máli með sátt í stað einhliða ákvörðunar um beitingu viðurlaga. Aftur á móti skortir nánari skýringu á því hvenær brot telst meiri háttar og því er að mati ráðsins brýnt að skýra ákvæðið betur og að rökstuðningur fyrir breytingu á hámarki sektarfjárhæða verði aukinn samhliða þinglegri meðferð málsins.

Umfangsmikið eftirlit og kröfur um skýrslugjöf

Viðskiptaráð telur að kröfur frumvarpsdraganna um eftirlit og skýrslugjöf séu að sumu leyti úr hófi fram og til þess fallnar að skapa óskilvirkt eftirlitsumhverfi sem geti hamlað starfsemi og samkeppnishæfni rekstrarleyfishafa. Kveðið er á um mánaðarlega skýrslugjöf til Matvælastofnunar auk þess sem stofnuninni er heimilt að krefjast tíðari skýrsluskila ef tilefni er til og henni veitt opin heimild til þess að krefjast frekari upplýsinga. Þá skal rekstrarleyfishafi veita stofnuninni aðgang að upplýsingum og tækjakosti auk óhefts aðgangs til skoðunar og eftirlits.

Jafnframt vekur Viðskiptaráð athygli á nýmælum frumvarpsins um sérstakt frammistöðumat við endurnýjun rekstrarleyfa, sem geta leitt til synjunar á endurnýjun leyfis vegna alvarlegra brota, jafnvel þótt ekki hafi komið til afturköllunar á gildistíma þess. Þar sem fiskeldi byggist á langtímafjárfestingum er fyrirsjáanleiki og stöðugleiki í regluverki lykilforsenda, en óljóst, matskennt og að hluta afturvirkt frammistöðumat við lok leyfistíma eykur verulega rekstrarlega áhættu og getur dregið úr fjárfestingum þegar styttist í endurnýjun leyfa. Þá er óljóst hvaða sjálfstæðum tilgangi slíkt mat þjónar umfram þær heimildir sem þegar eru fyrir hendi til breytinga eða afturköllunar leyfa á gildistíma þeirra, auk þess sem ekki er kunnugt um sambærilegt fyrirkomulag í öðrum atvinnugreinum, sem vekur spurningar um jafnræði og fordæmisgildi.

Þótt eftirlit sé mikilvægt til að tryggja traust til greinarinnar verður það að vera í réttu hlutfalli við áhættu og meðalhóf. Í því sambandi bendir ráðið þó á að stigin hafi verið skref í rétta átt frá fyrra frumvarpi um lagareldi sem lagt var fram á Alþingi árið 2023 og hvetur til þess að áfram verði unnið að einföldun og samræmingu eftirlits.

Lagareldi hefur á skömmum tíma orðið mikilvæg stoð í íslensku efnahagslífi. Heildarframleiðsla fiskeldisafurða nam tæpum 54,8 þúsund tonnum árið 2024, sem jafngildir um 10% aukningu frá fyrra ári. Útflutningsverðmæti greinarinnar námu 53,8 milljörðum króna, þar af um 47,7 milljörðum króna vegna laxaafurða. Um 900 manns starfa nú í greininni og hefur hún vaxið hratt á síðustu árum.

Viðskiptaráð leggur áherslu á að framtíð fiskeldis á Íslandi er að miklu leyti háð því að regluverk og stjórnsýsla séu skýr og fyrirsjáanleg, þannig að fyrirtæki geti tekið upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar og rekstur. Að framangreindum athugasemdum virtum telur Viðskiptaráð frumvarpsdrögin mikilvægt skref í átt að sjálfbærri verðmætasköpun og sterkari samkeppnisstöðu atvinnugreinarinnar.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísun

1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um áform um frumvarp um lagareldi (desember 2025). Slóð: https://vi.is/umsagnir/lagareldi-umsogn2025

Tengt efni

FuelEU grafi undan samkeppnishæfni Íslands

Viðskiptaráð telur að innleiðing FuelEU Maritime reglugerðar ESB muni leggja …
13. janúar 2026

Lagaumgjörð um lagareldi styðji við áframhaldandi vöxt

Viðskiptaráð fagnar endurskoðun laga um lagareldi. Skýr og fyrirsjáanleg löggjöf …
16. desember 2025

Fyrstu kaupendum beint í dýrara húsnæði

Viðskiptaráð geldur varhug við frumvarpi til breytinga á húsnæðislögum, sem …
15. desember 2025