Alvarlegar athugasemdir við frumvarp til laga um breytingar á fjarskiptalögum

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands hvetja til þess að frumvarpið verði dregið til baka.

Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands (hér eftir samtökin) hafa tekið til umsagnar frumvarp til laga um um breytingu á lögum um fjarskipti, lögum um Fjarskiptastofu og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri (áfallaþol fjarskiptaþjónustu og fjarskiptaneta), 169. mál.

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við frumvarpið, samráðsleysi við gerð þess og þann hraða sem lagt er upp með við að koma umræddum breytingum í gegn. Leggja samtökin til að fallið verði frá frumvarpinu og að efnisatriði frumvarpsins verði tekin inn í annars vegar heildarskoðun á lagaumgjörð erlendrar fjárfestingar og rýni á fjárfestingu erlendra aðila í samfélagslega mikilvægum innviðum, sem stendur til að leggja fram, og hins vegar heildarendurskoðun á fjarskiptalögum. Nauðsynlegt er að hvers kyns lagabreytingar á sviði erlendrar fjárfestingar séu vel ígrundaðar og byggi á samráði við íslenskt atvinnulíf enda skiptir erlend fjárfesting íslenskt efnahagslíf miklu máli til framtíðar.

1. Breytingar verði teknar inn í heildarendurskoðun fjarskiptalaga

Að mati samtakanna eru þær aðgerðir sem frumvarpið boðar ótímabærar í ljósi þess að fyrirhugaður er endurflutningur frumvarps til nýrra fjarskiptalaga í janúar á nýju ári, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Með nýrri löggjöf er hægt að bregðast við því sem frumvarpinu er ætlað að bregðast við og telja samtökin eðlilegt að tekin sé afstaða til efnistaka þessa frumvarps með heildstæðum hætti og í samhengi við nýja löggjöf um fjarskipti. Þá skiptir máli að samráð sé haft við fjarskipta-, upplýsingatækni- og gagnaversiðnað í tengslum við slíkar breytingar.

Samtökin leggja jafnframt á það áherslu að það er mikilvægt að hagsmunaaðilar fái tækifæri til að kynna sér framlögð þingmál til hlítar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Asinn á þessari frumvarpsvinnu er að mati samtakanna óboðlegur, sér í lagi þegar til stendur að setja íþyngjandi lagaákvæði.

2. Nauðsynlegt að skapa samkeppnishæf skilyrði fyrir erlenda fjárfestingu

Hafa ber í huga að erlend fjárfesting getur styrkt efnahagslegar stoðir með því að veita aukin tækifæri til uppbyggingar og atvinnusköpunar. Það ætti að vera keppikefli fyrir íslensk yfirvöld að auka áhuga erlendra aðila á fjárfestingum hér á landi. Erlend fjárfesting innanlands veitir að auki mótvægi við fjárfestingarþörf innlendra aðila erlendis. Jafnframt dreifir erlend fjárfesting áhættu og eflir innlendan mannauð og getur þannig ýtt undir bæði öflugra og fjölbreyttara atvinnulíf og hagkerfi. Stjórnvöld ættu að kappkosta við að liðka fyrir fjölbreyttri erlendri fjárfestingu hér á landi. Bein erlend fjárfesting hefur síst aukist á undanförnum árum og hefur Ísland að mörgu leyti verið eftirbátur annarra ríkja með tilliti til erlendrar fjárfestingar, meðal annars í upplýsingatækni-, fjarskipta- og gagnaversiðnaði. Erlend fjárfesting sætir víðtækari hindrunum en almennt þekkist. Slíkt skal ávallt haft í huga þegar boðaðar eru breytingar á löggjöf er varða erlendar fjárfestingar en of opnar heimildir til takmörkunar á erlendri fjárfestingu geta, jafnvel einar og sér, fælt fjárfestingu frá landinu.

Það er því mikilvægt að vanda til verka þegar breytingar eru gerðar á regluverki erlendra fjárfestinga. Nú stendur til, samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar, að mæla fyrir frumvarpi til laga um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis. Með 5. gr. frumvarpsins, sem hér er til umsagnar, eru lagðar til breytingar á 12. gr. laga um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri nr. 34/1991 þannig að ráðherra er veitt heimild til að binda erlenda fjárfestingu frekari skilyrðum til að koma í veg fyrir að hún ógni öryggi landsins. Hér er því verið að horfa til þess að rýna og eftir atvikum binda skilyrðum erlenda fjárfestingu vegna þjóðaröryggis. Geta samtökin ekki séð ástæðu þess að endurskoðun á heimildum ráðherra til að rýna erlendra fjárfestingu með þessum hætti sé sérstaklega tekin fyrir í þessu frumvarpi, í ljósi þess að niðurstöður á rýni samfélagslegra mikilvægra innviða liggja ekki fyrir og stendur til að leggja fram frumvarp því tengdu á vormánuðum.

Þess ber að geta að nú þegar eru fyrir hendi heimildir til handa ráðherra að rýna og stöðva erlenda fjárfestingu, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Eðlilegt er að endurskoða þær heimildir, skýra og afmarka betur en líkt og varðandi aðra hluta frumvarpsins er mikilvægt að málið sé unnið með faglegum hætti og hagsmunaaðilum sé gefið tækifæri til að taka þátt í mótun á slíkri umgjörð á fyrri stigum.

Ákvæðið eins og það birtist í frumvarpinu er opið og almennt. Það er ennfremur ekki samhljóma lagaákvæðum í sambærilegum lagabálkum nágrannaríkja Íslands. Að mati samtakanna verður ákvæðið að hafa skýran ramma um hvenær ráðherra sé heimilt að binda erlenda fjárfestingu frekari skilyrðum og kveða nánar á um hvers eðlis slík skilyrði geti verið og hvernig þau skuli útfærð. Þetta er sérstaklega mikilvægt þar sem því munu fylgja refsikennd viðurlög að fara ekki að skilyrðum ráðherra. Sé ætlunin að veita ráðherra heimild til að setja reglugerð um málefnið þá er mikilvægt að kveða skýrt á um efni slíkrar reglugerðar, takmörk og umfang.

Atvinnufrelsi og eignaréttindi má eingöngu setja skorður með lögum. Með opinni og óafmarkaðri reglugerðarheimild er gengið lengra en heimilt er við framsal löggjafarvalds, að mati samtakanna.

Frumvarp til laga um rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis verður lagt fyrir Alþingi í mars nk. Þau atriði sem fyrirliggjandi frumvarpi er ætlað að taka á geta vel, og ættu, að falla undir það mál og telja samtökin því afgreiðslu málsins nú ótímabæra.

3. Stjórnvaldssektir Fjarskiptastofu

Frumvarpið felur í sér að Fjarskiptastofa geti lagt stjórnvaldssektir á fjarskiptafyrirtæki sem brjóta gegn skyldu til að afhenda Fjarskiptastofu „réttar, fullnægjandi og uppfærðar upplýsingar skv. 1. og 6. mgr.“ Umrædd stjórnvaldssekt getur numið allt að 4% af heildarveltu síðasta rekstrarárs hjá fjarskiptafyrirtækinu. Samtökin gera athugasemd við fjárhæð sektar sem miðað er við í frumvarpinu enda er engan rökstuðning að finna í greinargerð fyrir hvers vegna miðað er við allt að 4% af heildarveltu. Auk þess gera samtökin athugasemd við orðalag ákvæðisins og skýrleika þess. Vísa samtökin þar til þess að matskennt er hvað felist í „fullnægjandi upplýsingum“. Stjórnvaldssektir eru refsikennd viðurlög og því verður að gera ríkar kröfur til skýrleika slíkra ákvæða og að fyrirtæki séu meðvituð um hvað falli undir fullnægjandi upplýsingar. Þá vilja samtökin benda á að stjórnvaldssektir eru ekki hefðbundin eftirlitsúrræði heldur einungis neyðarúrræði sem koma í stað refsingar. Eðlilegra væri í þessu samhengi að leggja á dagsektir til að knýja á um þær upplýsingar sem óskað er eftir, í stað þess að grípa til stjórnvaldssekta. Að lokum leggja samtökin áherslu á að sami einstaklingur komi ekki að framkvæmd eftirlits og rannsókn mála og meti síðar hvort beita eigi stjórnsýsluviðurlögum.

Í ljósi þeirra atriða sem að framan eru rakin hvetja samtökin til þess að frumvarpið verði dregið til baka en efnistök þess tekin inn í heildarendurskoðun á annars vegar fjarskiptalögum og hins vegar rýni fjárfestinga erlendra aðila í þýðingarmiklum samfélagsinnviðum og tengdri starfsemi vegna þjóðaröryggis á komandi ári.

Tengt efni

Átján fyrirmyndarfyrirtækjum í stjórnarháttum veitt viðurkenning

Hópur fyrirtækja í fjölbreyttri starfsemi hlaut í dag verðlaun fyrir góða ...
22. ágú 2023

Fyrirmyndarfyrirtækjum veitt viðurkenning

Sextán fyrirtæki þar sem starfshættir stjórna eru vel skipulagðir og framkvæmd ...
26. ágú 2022