Viðskiptaráð Íslands

Ómálefnaleg mismunun og dregið úr fjölbreytni

Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til áfengislaga (mál nr. 596)

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til áfengislaga. Í fyrsta lagi vísast til hjálagðrar umsagnar ráðsins frá 5. mars 2021. Athugasemdir í umsögninni eru ítrekaðar eftir því sem við á.

Samantekt

Í umsögn Viðskiptaráðs kemur eftirfarandi fram. Ítarlegri rökstuðning má finna í undirköflum:

  • Viðskiptaráð gerir athugasemdir við áformaða mismunun eftir tegundum og framleiðslugetu.
  • Haldbær, málefnaleg rök fyrir mismunun skortir, sem stríðir gegn jafnræðissjónarmiðum.
  • Ólíklegt er að undanþágur á grundvelli framleiðslugetu haldi þar sem sniðganga er auðveld.
  • Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til fyrri athugasemda auk þess að frameiðendum verði ekki mismunað innbyrðis.

Ómálefnaleg mismunun

Viðskiptaráð gerir athugasemd við áform um innbyrðis mismunun milli framleiðenda, í fyrsta lagi eftir tegund áfengra drykkja og í öðru lagi eftir framleiðslugetu. Hvað fyrra atriðið snertir stendur aðeins til að heimila sölu áfengs öls frá framleiðslustað, en ekki annarra tegunda. Seinna atriðið snýr að mismunun á milli stórra og smárra framleiðenda. Í báðum tilfellum skekkja áformin samkeppnisstöðu framleiðenda innbyrðis.

Hvað varðar mismunun eftir framleiðslutegund er fjöldi smárra framleiðenda, sem sumir framleiða sælkeravörur eða tegundir sem eru óhentugar til fjöldaframleiðslu, orðinn þónokkur. Þeir framleiða ekki allir áfengt öl, en dæmi um aðrar tegundir er mjöður frá Öldum og krækiberjavín frá Ognatura. Smáframleiðendur eiga oft við ofurefli að etja þegar kemur að samkeppni við stærri framleiðendur í skjóli sölu- og hillufyrirkomulags hjá ÁTVR, eins og vikið er að í greinargerð.

Dregið úr fjölbreytni

Þess má vænta að sala af framleiðslustað geti reynst framleiðendum mjög happadrjúg, ef vel tekst til. Fyrirhuguð mismunun eftir tegundum kann því að leiða til þess að framleiðendur, einkum þeir smærri, freisti þess síður að framleiða vörur sem standa hallari fæti í þeirri samkeppni, s.s. sterka áfenga drykki, mjöð, vín eða annað sem telst ekki áfengt öl. Það leiðir til minni fjölbreytni og grósku en ella.

Í því samhengi má til dæmis benda á að íslenskir framleiðendur hafa sótt í sig veðrið í framleiðslu á sterkum áfengum drykkjum. Þannig námu útflutningsverðmæti þeirra 295 m. kr., borið saman við 190 m. kr. árið 2020 (á föstu verðlagi). Líkt og á við um aðrar tegundir hafa þessir framleiðendur unnið til alþjóðlegra verðlauna fyrir framleiðslu sína og getið sér gott orð í harðri samkeppni. Þeir munu aftur á móti ekki njóta góðs af umræddu frumvarpi í óbreyttri mynd.

Stærri framleiðendur skildir eftir

Þótt Viðskiptaráð telji heillavænlegt að liðka fyrir sölu á framleiðslustað er auk framangreinds gerð athugasemd við áform um að binda slíka undanþágu einungis við smærri framleiðendur. Í umfjöllun í greinargerð um samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar er vikið að því að fyrirhuguð undanþága frá einokunarfyrirkomulagi við áfengissölu til handa smærri framleiðendum samræmist umræddum skuldbindingum. Aftur á móti skortir slíka umfjöllun m.t.t. stærri framleiðenda.

Í þessu sambandi vekur ráðið athygli á því að það eru einkum þrjú fyrirtæki hérlendis sem yrðu hlunnfarin í þessu tilliti, þ.e. Kaldi, Vífilfell og Ölgerðin. Það síðastnefnda hefur nú verið skráð til viðskipta á aðalmarkaði kauphallar, en hluthafar voru tæplega 7.000 talsins í kjölfar hlutafjárútboðs fyrr í þessum mánuði. Þeirra á meðal er starfsfólk Ölgerðarinnar.

Viðskiptaráði er kunnugt um að a.m.k. bæði Kaldi og Ölgerðin hafa boðið gestum, þ.m.t ferðamönnum, upp á skoðunarferðir og kynningar um starfsemi sína og vöruframboð við góðan orðstír. Fjöldi gesta í slíkum kynningum á vegum Ölgerðarinnar hljóp á tugum þúsunda árlega þegar best lét. Stærri framleiðendur hafa því augljóslega talsverða hagsmuni af því að verða ekki undanskildir með þeim hætti sem áformað er.

Rökstuðning skortir og reglurnar halda ekki

Ef hlutlæg og málefnaleg rök eru fyrir því að mismuna framleiðendum, annað hvort eftir tegundum eða eftir stærð, þarf að liggja fyrir hver þau eru. Ekki er hægt að ráða af frumvarpi þessu hver þau kunna að vera, ef einhver. Viðskiptaráð telur þetta ekki samræmast jafnræðissjónarmiðum.

Þá vekur Viðskiptaráð athygli á því að það krefst ekki mikillar snilligáfu að sniðganga áformaðar undanþágur hvað framleiðslugetu snertir. Þeim sem framleiða meira en undanþáguheimildin kveður á um er hægt um vik að koma á laggirnar nýjum, smærri framleiðendum, sem geta eftir atvikum samnýtt framleiðslutæki og búnað sem fyrir er. Undanþágur sem miða við framleiðslugetu verða haldlausar með öllu nema löggjafinn ætli sér þá á móti að þrengja almenn undanþáguskilyrði, sem kemur þá niður á þeim markmiðum sem stefnt er að með frumvarpinu.

Verndarhagsmunir eiga ekki við

Löggjafanum hefur í orði kveðnu verið umhugað að takmarka aðgengi að áfengi. Aftur á móti hefur aðgengi almennt aukist, sbr. umfjöllun í fyrri umsögn Viðskiptaráðs um sama mál. Þá hafa netverslanir með áfenga drykki rutt sér til rúms undanfarið, sem hefur aukið enn á óvissu um hlutverk og stöðu einokunar ríkisins á áfengissölu. Það er tímabært að þeirri óvissu verði eytt.

Hvað varðar sölu á framleiðslustað eiga hefðbundin rök um vernd viðkvæmra hópa, s.s. barna, ekki við. Afar ósennilegt er að börn eða aðrir viðkvæmir hópar leggi leið sína sérstaklega á framleiðstustaði til þess að verða sér út um áfenga drykki. Ef svo ber undir gilda áfram almennar takmarkanir um aldur.

Tillaga Viðskiptaráðs

Með vísan til framangreinds leggur Viðskiptaráð til að 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins verði svohljóðandi:

"Veita má handhafa framleiðsluleyfis leyfi til sölu á framleiðslustað. Leyfishafa er heimilt að selja áfenga drykki úr eigin framleiðslu í smásölu á framleiðslustað."

Niðurlag

Að öllu virtu telur Viðskiptaráð ekki tilefni til þess að mismuna framleiðendum eins og áformað er. Aftur á móti fagnar ráðið því að standi til að rýmka um gildandi reglur. Skref í rétta átt er betra en ekkert.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga að teknu tilliti til fyrri athugasemda auk þess að frameiðendum verði ekki mismunað innbyrðis.

Að lokum áskilur Viðskiptaráð sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum og er reiðubúið að skýra umsagnir sínar sé þess óskað.

Tengt efni

Ný sjálfbærnitilskipun hefur áhrif á flestöll fyrirtæki

Ný tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærnireikningsskil mun hafa áhrif á …
10. september 2024

Þríþættar framfarir en alvarlegur annmarki

Ný frumvarpsdrög mennta- og barnamálaráðuneytisins um námsmat fela í sér …
3. september 2024

Sex tillögur til að auka skilvirkni leyfisveitinga

Viðskiptaráð Íslands fagnar áframhaldinu vinnu stjórnvalda við að auka …
14. ágúst 2024