Viðskiptaráð Íslands

Dýrkeypt breyting á bótum almannatrygginga

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp um breytingar á bótum almannatrygginga. Ráðinu hugnast breytingarnar ekki, þar sem að þær munu leiða til aukins kostnaðar við kerfið, sem mun helst falla til þegar hagkerfið er í niðursveiflu. Þær munu einnig leiða til þess að kjör launþega munu rýrna samanborið við þá sem reiða sig á bætur frá almannatryggingum.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind drög. Með frumvarpinu myndu greiðslur almannatrygginga fylgja launa­vísitölu, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Viðskiptaráð leggst gegn þessari breytingu. Hún myndi þyngja byrðar vinnandi fólks þegar síst skyldi, hraða varanlega útgjaldavexti hins opinbera og veikja hvata til þátttöku á vinnumarkaði.

Sjálfvirkur útgjaldavöxtur í efnahagssamdrætti

Frá aldamótum hefur launavísitala hækkað um 64% umfram vísitölu neysluverðs. Yfir það tímabil hefur vísitalan fjórum sinnum hækkað minna en almennt verðlag. Það var árin 2008 - 2010 en einnig lítillega árið 2022. Lækkun raunlauna með þessum hætti er mörgum sársaukafull en er engu að síður nauðsynlegur undanfari kröftugrar endurreisnar í kjölfar efnahagssamdráttar. Lækkun raunlauna gerir vinnuafl hlutfallslega ódýrara, eykur samkeppnis­hæfni útflutningsgreina og dregur úr atvinnu­leysi. Starfandi á vinnumarkaði fá síðan lækkunina endurheimta hraðar en ella í gegnum þann efnahagsbata sem tekur við í kjölfarið.

Nú þegar er í 62. gr. laga nr. 2007/100 kveðið á um að greiðslur almannatrygginga skuli taka mið af launaþróun en þó aldrei minna en verðlag skv. vísitölu neysluverðs. Slíkt ákvæði þýðir að sú sársaukafulla aðlögun sem lýst er hér að ofan á sér einungis stað hjá vinnandi fólki en ekki þeim sem reiða sig á verðmætasköpun fyrrgreinds hóps sér til framfærslu. Að mati ráðsins er óeðlilegt að þyngja byrðar vinnandi einstaklinga í niðursveiflu og veita þeim sjálfkrafa í auknar tilfærslur í slíku árferði.

Misræmi tvítryggingar aukið enn frekar

Áformaðar breytingar þýða að þetta misræmi verður aukið enn frekar. Hefði frumvarpið orðið að lögum um síðustu aldamót hefði fjárhæð bóta þannig hækkað um 13% umfram launavísitölu (mynd 1). Með breytingunum hefðu bætur almanna­trygginga hækkað um 85% umfram verðlag samanborið við 64% hækkun launa­vísitölu­. Þá tók launavísitöluna rúm sjö ár að ná fyrri hæðum að raunvirði í kjölfar samdráttar árið 2008. Árið 2016 var launavísitalan rétt um 4 prósentustigum hærri en árið 2008. Með nýrri tvítryggingu hefðu bótagreiðslur aftur á móti hækkað um 17% umfram verðlag á sama tímabili, eða 13 prósentustigum meira en launavísitalan.

Að mati ráðsins er áformuð tvítrygging m.t.t. bæði launavísitölu og verðlags óeðlileg að tilliti til framangreinds. Frá aldamótum hafa bætur almannatrygginga hækkað u.þ.b. tvöfalt á við vísitölu neysluverðs og umfram launa­þróun í landinu.[1] Áform um að hækka bætur enn frekar umfram laun mun veikja vinnumarkaðinn og draga úr verðmætasköpun og þar með lífskjörum til lengri tíma litið.

Hvatar til þátttöku á vinnumarkaði veiktir

Frekari hækkun bóta almannatrygginga með tengingu við vísitölu launa í stað kostnaðar­­mats kjarasamninga gerir framfærslu af bótum hlutfallslega eftirsóknar­verðari en áður. Með öðrum orðum þá er dregið úr hvata fólks til að taka þátt á vinnumarkaði samanborið við að þiggja bætur. Veikari staða vinnumarkaðarins dregur úr verðmæta­sköpun og skatttekjum sem standa undir tilfærslukerfunum. Þannig er öflugur vinnumarkaður og verðmætasköpun hans forsenda lífskjara allra í sam­félaginu - líka þeirra sem þiggja bætur.

Nú þegar er útgjaldavöxtur hins opinbera vegna örorku á Íslandi hraðastur á meðal Norðurlandanna og tíðni örorku með því mesta sem gerist. Þetta er raunin bæði í hlutfalli við mann­fjölda og einnig í hlutfalli við þá sem eru á vinnufærum aldri.[2] Að mati Viðskiptaráðs er brýnt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að sporna við þessari þróun og dragi úr fjölgun bótaþega, t.d. með innleiðingu virks endurmats á örorku. Breyting sem eykur hvata til að þiggja bætur án þess að taka á þessum vanda er óskynsamleg.

Þríþættur kostnaður fyrirhugaðra breytinga

Að öllu virtu fela breytingarnar í sér þríþættan kostnað fyrir íslenskt samfélag. Í fyrsta lagi auka þær opinber útgjöld með beinum hætti vegna hækkunar bótafjárhæða og þyngja þannig byrðar skattgreiðenda, sérstaklega á tímum þegar síst skyldi. Í öðru lagi vegna fjölgunar bótaþega, en áformaðar breytingar gera eftirsóknarverðara en áður að þiggja bætur almannatrygginga. Í þriðja lagi vegna fækkunar starfandi einstaklinga og þar með þyngri byrða þeirra sem eftir verða á vinnumarkaði.

Að mati ráðsins er erfitt að sjá hvernig ávinningur samfélagsins er hærri en fyrrgreindur kostnaður miðað við útfærslu breytinga í frumvarpinu. Núverandi laga­umgjörð almannatrygginga tryggir nú þegar hækkun bóta til jafns við almenna launa­þróun í landinu með þeirri tryggingu að hún skuli aldrei lægri vera lægri en verðlags­þróun. Að mati ráðsins væri nær lægi að fjarlægja ákvæði um verðlags­tryggingu bóta í stað þess að auka það misræmi sem tvítryggingin skapar nú þegar.

---

Tilvísanir:

1 Sjá svar félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Vilhjálmi Árnasyni um þróun bóta almannatrygginga (þingskjal 871 á 154. löggjafarþingi 2023–2024). Slóð: https://www.althingi.is/altext/pdf/154/s/0871.pdf

2 Sjá skýrslu Viðskiptaráðs (febrúar 2024). “Hið opinbera: Get ég aðstoðað?”: Slóð: https://vi.is/frettir/skyrsla-vidskiptathings-2024---hid-opinbera-get-eg-a%C3%B0stodad

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024