Umsögn Viðskiptaráðs um drög að frumvarpi til laga um sóttvarnir.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar drög að frumvarpi til laga um sóttvarnir. Viðskiptaráð er almennt hlynnt því að lagaleg umgjörð um sóttvarnir verði endurskoðuð en telur nauðsynlegt að í því samhengi verði reynsla dregin af faraldri COVID-19. Því má spyrja hvort skynsamlegt sé að sú endurskoðun fari fram nú, þegar faraldurinn er enn yfirstandandi. Rétt er að slík endurskoðun fari fram í betra tómi, þegar öll kurl eru komin grafar og nauðsynlegar upplýsingar eru til reiðu svo hægt sé að meta árangur og afleiðingar sóttvarna með vísindalegum og hlutlægum hætti. Að því sögðu hefur Viðskiptaráð eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.
Ákvarðanir um sóttvarnir þurfa að vera vel ígrundaðar og byggðar á heildstæðu mati á ætluðum áhrifum þeirra og fyrri reynslu af slíkum aðgerðum. Ljóst þarf að vera hver tekur slíkar ákvarðanir, á hvaða forsendum og hvaða kröfur löggjafinn geri til rökstuðnings. Þá þarf að liggja ljóst fyrir við hvaða aðstæður er hægt að taka slíkar ákvarðanir. Í því samhengi tekur Viðskiptaráð heilshugar undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn SA um það að ekki verði lögfest ákvæði í sóttvarnalög sem gera ráðherra kleift að takmarka stjórnarskrárvarin réttindi fólks vegna vandræða stjórnvalda við að uppfylla önnur. [1]
Í 8. og 9. gr. frumvarpsins er fjallað um farsóttanefnd, sem ætlað er að skila ráðherra tillögum um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegra smitsjúkdóma skv. IV. kafla frumvarpsins. Þar að auki er nefndinni ætlað hlutverk við ákvarðanatöku ráðherra um hvað teljist samfélagslega hættulegur sjúkdómur. Að mati Viðskiptaráðs er skynsamlegt að tillögugerð sé ekki aðeins á hendi sóttvarnalæknis eins og verið hefur. Í ljósi reynslunnar af COVID-19 er nauðsynlegt að ákvarðanir og tillögur um jafn víðtækar aðgerðir og lögin heimila í tilfellum sem þessum séu teknar á breiðum grunni. Ekki síst er mikilvægt að hagsmunir atvinnurekenda, launþega og viðskiptalífs séu í heiðri hafðir við mat á afleiðingum sóttvarnaraðgerða.
Í frumvarpinu kemur fram að tillögum nefndarinnar sé ekki eingöngu ætlað að byggjast á hreinum sjónarmiðum um sóttvarnir, heldur einnig lagalegri og félagshagfræðilegri þekkingu. Erfitt er að greina með hvaða hætti eigi að ná hinni faglegu breidd, t.d. með hliðsjón af efnahagslífi og stöðu fyrirtækja. Ljóst er að ekki er trygging fyrir slíkri nálgun í ákvæðum 8. gr. um skipun nefndarinnar enda er ekki gerð krafa um menntun, hæfni eða þekkingu þeirra fjögurra sem skulu skipaðir af ráðherrum. Hinir fimm eiga sæti í krafti stöðu sinnar og í þeim hópi eru til dæmis sóttvarnalæknir og fulltrúi almannavarna sem uppfylla þörfina fyrir þekkingu á smitsjúkdómum og vörnum gegn þeim líkt og fram kemur í greinargerð um hlutverk nefndarinnar. Önnur sjónarmið eru síður tryggð, til dæmis lögfræði- og hagfræðileg sjónarmið.
Í faraldri COVID-19 hafa ákvarðanir stjórnvalda um sóttvarnaraðgerðir oft og tíðum verið illa rökstuddar og markmið með þeim verið á reiki. Skort hefur á heildarsýn og á köflum hefur fyrirsjáanleiki verið minni en mögulegt var. Mikilvægt er að þeim þætti ákvarðanatökunnar er snýr að rökstuðningi verði betur fyrir komið við heildarendurskoðun sóttvarnalaga. Að mati Viðskiptaráðs er rétt að kveða fastar að því hvað skuli koma fram í slíkum rökstuðningi og í hvaða mæli slíkur rökstuðningur eigi að vera lagalegur, læknisfræðilegur, faraldsfræðilegur o.s.frv. Hvað farsóttanefnd varðar er óljóst hvernig tillögur hennar skuli rökstuddar og í hvaða mynd þær eigi yfir höfuð að vera að formi og efni. Gagnvart einstaklingum og öðrum hagaðilum er mikilvægt að þetta liggi ljóst fyrir.
Viðskiptaráð hefur áður vikið að þörf fyrir aukna aðkomu Alþingis að ákvörðunum um sóttvarnarmál. Í 18. gr. frumvarpsins er fjallað um slíka aðkomu þingsins, en greinin varðar að mestu upplýsingagjöf ráðherra til þingsins. Þetta er skref í rétta átt, en að mati Viðskiptaráðs er þó of skammt gengið þegar litið er til þess hve íþyngjandi þær aðgerðir eru sem kveðið er á um í 28. og 30. gr. frumvarpsins auk fenginnar reynslu af beitingu slíkra aðgerða.
Líkt og fram kemur í greinargerð með frumvarpsdrögunum er málum þannig háttað í Danmörku að tilteknar sóttvarnareglur taka ekki gildi án aðkomu nefndar þingsins. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ekki hafi þótt tilefni til að ganga eins langt í að dreifa valdheimildum milli stjórnvalda og gert er í Danmörku. Meðal annars mat starfshópurinn það sem svo að með því að færa ákvarðanir til Alþingis yrði alger eðlisbreyting á forsendum ákvarðana frá því að byggjast í grunninn á faglegum sjónarmiðum yfir á vettvang stjórnmálanna.
Viðskiptaráð er þessu ósammála og telur þvert á móti brýna þörf á aðkomu þingsins að jafn veigamiklum ákvörðunum og þeim sem um ræðir í IV. kafla frumvarpsins. Að mati Viðskiptaráðs er engum blöðum um það að fletta að aðkoma Alþingis að slíkum ákvörðunum þarf að vera meiri en lagt er upp með í frumvarpinu. Slík aðkoma eykur aðhald þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu, styrkir forsendur ákvarðana um sóttvarnaraðgerðir og eykur þannig til lengri tíma traust til stjórnvalda. Þá stuðlar aðkoma þingsins enn frekar að gagnrýnni umræðu um slík inngrip stjórnvalda.
Með vel rökstuddum tillögum sérfræðinga á breiðu rófi og ákvörðun ráðherra málaflokksins með aðkomu sérfræðinga heilbrigðisráðuneytisins, verða þar að auki að teljast afar litlar líkur á því að opinberar sóttvarnartakmarkanir komist ekki í gegnum nálarauga þingsins nema ærið tilefni sé til. Því telur Viðskiptaráð einsýnt að fara eigi sömu leið hér á landi og gert er í Danmörku.
Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái ekki fram að ganga, en að öðrum kosti verði tekið tillit til þeirra athugasemda sem getur að ofan. Að lokum áskilur Viðskiptaráð sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum og er reiðubúið að skýra þessa umsögn nánar sé þess óskað.
[1] Sjá nánar hér