Viðskiptaráð telur löngu tímabært að taka lagaumgjörð um leigubílaakstur til gagngerrar endurskoðunar og fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að ráðast í þá vinnu. Til stendur að leggja fram frumvarp að nýjum lögum um leigubíla haustið 2019.
Helstu atriðin sem ráðið kemur á framfæri í nýrri umsögn sinni og telur að hafa beri í huga við þessa vinnu eru:
Fjöldatakmarkanir á leigubílamarkaði eru óréttlætanleg skerðing á samkeppni sem kemur verst niður á tekjulágum. Þær ber að afnema með öllu.
Tækniframfarir hafa aukið neytendavernd og tryggt jafnari samningsgrundvöll og útrýmt þörfinni fyrir fjöldatakmarkanir og samræmt verðlag.
Þær kröfur sem verða gerðar til nýrra umsækjenda um leyfi til reksturs leigubíla mega ekki vera svo miklar að þær hafi takmarkandi áhrif á samkeppni.
Ódýrari leigubílar gætu létt á umferð og aukið hlut almenningssamgangna.
Í núverandi kerfi er ungt fólk, konur og útlendingar mikill minnihluti leyfishafa.
Viðskiptaráð vill skoða kosti leyfis í anda 90 daga heimagistingar fyrir akstur leigubíla.