Viðskiptaráð hefur veitt umsögn um frumvarp sem felur í sér auknar kröfur um gagnsæi í eignarhaldi útgerða. Ráðið varar við því að frumvarpið skekki jafnræði atvinnugreina með íþyngjandi upplýsingaskyldu og auki rekstrarbyrði sjávarútvegsfyrirtækja. Þá telur ráðið óljóst hvort þörf sé á nýrri skilgreiningu tengdra aðila. Lagt er til að gagnsæi verði tryggt með hófsamari hætti án þess að skerða samkeppnishæfni greinarinnar.
Viðskiptaráð þakkar tækifærið til að veita umsögn um ofangreint frumvarp. Að mati ráðsins er mikilvægt að lagaumhverfi í sjávarútvegi styðji við hagkvæmni, nýsköpun og samkeppnishæfni greinarinnar. Að því sögðu hefur ráðið eftirfarandi athugasemdir og ábendingar.
Frumvarpið felur í sér auknar kröfur um gagnsæi í eignarhsaldi í sjávarútvegi og aukna upplýsingagjöf um eignarhald útgerða og tengsl þeirra á milli. Þá eru lagðar til breytingar á 13. gr. laga um stjórn fiskveiða þannig að lagaleg skilgreining á tengdum aðilum verði útvíkkað og nái til yfirráðatengsla milli lögaðila, tveggja eða fleiri í samræmi við 17. gr. samkeppnislaga. Þá muni hugtakið ná yfir afmörkuð fjölskyldutengsl milli einstaklinga, þ.e. hjón, sambúðarfólk og skyldmenni í beinan legg og fyrsta legg til hliðar.
Gæta þarf jafnræðis milli atvinnugreina
Viðskiptaráð leggur áherslu á að jafnræðis sé gætt milli atvinnugreina. Sjávarútvegur hverfist um auðlindanýtingu en það réttlætir ekki að fyrirtæki innan greinarinnar séu beitt íþyngjandi upplýsingaskyldu, gagnabyrði og opinberri birtingu upplýsinga umfram það sem tíðkast í öðrum atvinnugreinum. Slíkt getur haft skaðleg áhrif á samkeppnisstöðu og rekstrarskilyrði greinarinnar. Mikilvægt er að regluumhverfi sjávarútvegs sé mótað af jafnræðissjónarmiðum, byggist á meðalhófi og skýrum reglum, rétt eins og í öðrum atvinnugreinum.
Aukin upplýsingaskylda væri íþyngjandi
Samkvæmt frumvarpinu skal upplýsingaskyldur útgerðaraðili á þriggja mánaða fresti láta Fiskistofu í té upplýsingar um eigendakeðju sína, þ.e. einstaklinga og lögaðila sem fara beint eða óbeint með eignarhlut eða atkvæðisrétt í upplýsingaskyldum útgerðaraðila. Jafnframt skal veita upplýsingar um aðra útgerðaraðila sem upplýsingaskyldur útgerðaraðili og raunverulegir eigendur hans fara beint eða óbeint með eignarhlut eða atkvæðisrétt í. Þá er Fiskistofu falin rúm heimild til að afla gagna á grundvelli laganna. Sú aukna tíðni skýrslugjafar og umfang upplýsinga sem um ræðir getur reynst verulega íþyngjandi, sérstaklega fyrir minni og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi.
Í umræðu um gagnsæi er einnig nærtækt að líta til skráninga sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkað. Nú þegar eru þrjú stór sjávarútvegsfyrirtæki á markaði, Brim hf., Síldarvinnslan hf., og Ísfélagið hf.. Með skráningu í kauphöll, hvort sem er á aðalmarkað eða hliðarmarkaðinn First North, undirgangast fyrirtæki umtalsverðar gagnsæiskröfur, bæði við skráningu og ekki síður viðvarandi upplýsingagjöf á markaði, allt í samræmi við strangar reglur þar að lútandi.
Um fyrirtæki í sjávarútvegi ættu að mati Viðskiptaráðs ekki að gilda strangari kröfur en um fyrirtæki í atvinnurekstri almennt, þ.e. lög um hlutafélög og kvaðir samkvæmt þeim. Er það grundvallaratriði svo jafnræði náist meðal atvinnugreina að einni sé ekki íþyngt verulega umfram aðra og þannig rekstrargrundvöllur gerður örðugri en ella væri.
Í umsögn Fiskistofu um drög að frumvarpinu í samráðsgátt stjórnvalda kom einnig fram að verði frumvarpið að lögum megi gera ráð fyrir að fjölga þurfi stöðugildum hjá Fiskistofu og reikna megi með auknu álagi á stofnunina vegna utanumhalds gagna, greininga og birtinga sem krefjist aukinna fjárheimilda. Að mati Viðskiptaráðs skortir verulega á að umfang og áhrif breytinganna séu metnar í heild.
Yfirráð og tengdir aðilar
Með frumvarpinu er innleidd útvíkkuð og að mörgu leyti huglæg skilgreining á tengdum aðilum, en að mati Viðskiptaráðs er óljós þörf á nýrri skilgreiningu. Með breytingunni er ætlunin að samræma hugtakið við skilgreiningu samkeppnislaga er varðar þá sem teljast tengdir aðilar en gengur þó mun lengra í reynd.
Tilgangur laga um stjórn fiskveiða er annar en samkeppnislaga og því má draga í efa að hagkvæmt sé að láta sömu skilgreiningu gilda um tengda aðila innan samkeppnisréttar og við stjórn fiskveiða. Í ljósi þeirrar sérstöðu sem sjávarútvegur nýtur hefur hingað til verið viðurkennt að um hann skuli gilda önnur sjónarmið til þess að stuðla að sem mestum afrakstri úr hinni takmörkuðu auðlind. Á grundvelli þessara röksemda hafa flest ríki tekið þá afstöðu að samkeppnislög taki m.a. ekki til útflutnings, en rökin fyrir því eru einkum þau að slík takmörkun á gildissviði laga færi tekjur til innlendra framleiðenda, hafi jákvæð áhrif á vöruskiptajöfnuð og færi þjóðinni hagsæld.
Í norskum rétti er tekið fram að samkeppnislög standi því t.a.m. ekki í vegi að frumframleiðendur í sjávarútvegi og landbúnaði vinni saman við framleiðslu, dreifingu og markaðssetningu á afurðum til að ná sem mestum afrakstri úr hinni takmörkuðu auðlind fyrir þjóðarbúið. Lög og önnur sjónarmið en virk samkeppni geta því verið grundvöllur hagsældar þjóðfélagsins í tilteknum atvinnugreinum eins og til að mynda grundvallarmarkmið laga um stjórn fiskveiða um verndun og hagkvæma nýtingu nytjastofna.
Að mati Viðskiptaráðs er langt seilst í því að láta ákvæðið ná yfir aðila sem myndu ekki teljast tengdir samkvæmt löggjöf um aðrar atvinnugreinar. Á það einkum við um ítarlega skilgreiningu fjölskyldutengsla skv. 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins, en í 3.tl. 4. mgr. laga 13. gr. nr. 116/2006 má finna sérreglu um fjölskyldutengsl. Ekki hafa verið færð sérstök rök fyrir nauðsyn þess að skýra ákvæðið frekar eða það sé ófullnægjandi í núverandi mynd. Þá er það mat Viðskiptaráðs að ákvæðið eins og það er boðað í frumvarpinu standist hvorki atvinnufrelsisákvæði 75. gr. stjórnarskrár né 65. gr. stjórnarskrár, sem tilgreinir að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og ekki megi mismuna mönnum, m.a. á grundvelli ætternis.
Að auki telur Viðskiptaráð að sérregla um að eignarhald eins útgerðaraðila á 20% eða meira í öðrum útgerðaraðila skuli telja til viðbótar með hlutdeild þess fyrrnefnda sem jafngildir eignarhaldinu í þeim síðarnefnda gangi gegn grundvallarreglum eigna- og félagaréttar. Þá er rangt sem gengið er út frá í greinargerð með frumvarpinu að hlutdeild í útgerðarfélagi jafngildi hlut í aflahlutdeild. Hluthafar geta ekki ráðstafað hluta aflahlutdeilda útgerðarfélags í eigin þágu og aflahlutdeildum útgerðarfélaga er ekki ráðstafað í þágu hluthafa líkt og arðgreiðslum. Útgerðarfélagið er sjálfstæður lögaðili og ræður sjálft yfir öllum aflahlutdeildum og ráðstafar þeim í þágu félagsins, ekki hluthafa þess. Minnihlutaeign í útgerðarfélagi skapar engin yfirráð yfir aflahlutdeildum eða ákvarðanatöku innan þess.
Þá er tillagan er ekki sambærileg þeim reglum sem gilda um samruna samkvæmt samkeppnislögum sem miða við yfirráð og gengur jafnframt mun lengra en þær reglur. Með frumvarpinu er því verið að tengja saman aðila sem teljast ekki tengdir í neinni annarri atvinnugrein í íslensku atvinnulífi. Slík breyting mun vinna gegn grundvallarmarkmiði laga um stjórn fiskveiða um hagkvæma nýtingu og takmarka möguleika útgerðarfélaga til fjárfestinga, nýsköpunar og hagræðingar.
Viðskiptaráð telur að vel sé hægt að tryggja aukið gagnsæi í íslenskum sjávarútvegi með mun hófsamari hætti og um leið tryggja jafnræði milli atvinnugreina og skaða ekki alþjóðlega samkeppnishæfni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.
Viðskiptaráð leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.