Viðskiptaráð Íslands

Gengið of langt í afskiptum hins opinbera af verslunarrekstri

Umsögn Viðskiptaráðs um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp um breytingu á lögum um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur er varðar reglur um heimildir til sölu, markaðssetningar og notkunar á nikótínvörum. Að mati ráðsins er gengið of langt í frumvarpinu í afskiptum hins opinbera af verslunarrekstri, jafnvel þótt nikótínvörur séu óhefðbundnar í sama skilningi og áfengi, vopn og aðrar hættulegar vörutegundir. Að mati ráðsins er mikilvægt að varlega sé stigið til jarðar í lagasetningu um slíkar vörur á sama tíma og þeir sem þurfa njóti eðlilegrar verndar.

Viðskiptaráð telur almennt rétt að fara vægari leiðir í löggjöf en að setja boð og bönn, sé ætlunin að hafa áhrif á hegðun fólks. Sama árangri má ná með hvötum (e. nudges) og fræðslu, en í frumvarpinu er mælt fyrir um umfangsmikla fræðslu um skaðsemi nikótíns. Þá kemur einnig fram að mikið og öflugt forvarnastarf um skaðsemi tóbaksreykinga og vitundarvakning fólks um skaðsemi tóbaks hafi „ekki síður skilað sér í því að fólk ákveði að láta af tóbaksneyslu“ heldur en nikótínvörur á borð við nikótíntyggjó og fleira sem fáanlegar eru á markaði. Að mati ráðsins er rétt að byggja fyrst og fremst á slíkri nálgun. Viðskiptaráð hefur eftirfarandi athugasemdir við frumvarpið.

Gengið er of langt með því að banna bragðefni í nikótínvörum

Í frumvarpinu er lagt til að bannaður verði innflutningur á níkótínvörum og rafrettum sem innihalda bragðefni sem höfða til barna, s.s. nammi- og ávaxtabragð. Að mati Viðskiptaráðs er með þessu gengið lengra en þörf er á með hliðsjón af því markmiði sem fram kemur í 1. gr. frumvarpsins; að tryggja að börn hvorki kaupi né noti nikótínvörur og rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur. Í raun er óþarft að grípa til frekari aðgerða en þeirra sem fram koma í 7 gr. frumvarpsins þar sem mælt er fyrir því að óheimilt verði að selja börnum níktótínvöru.

Með hliðsjón af fyrirhuguðu banni við sölu nikótínvara til barna yfir höfuð, virðist 2. mgr. 9. gr í reynd aðeins koma í veg fyrir að fullorðið fólk geti neytt umræddra vara. Hér er óþarflega langt gengið að mati Viðskiptaráðs og með sömu rökum mætti banna ýmsar vörutegundir í flokki áfengis og nikótíntyggjó, ef út í það er farið.Viðskiptaráð setur spurningamerki við það sem fram kemur í athugasemdum við 2. mgr. 9. gr. um að ekki sé gengið of langt með greininni enda sé eingöngu verið að takmarka bragðefni, en ekki banna innflutning, framleiðslu eða sölu á nikótínvörum og rafrettum. Viðskiptaráð sér ástæðu til þess að benda á að sannarlega verður óheimilt að flytja þessar vörur inn með þeim afleiðingum að þær verða ófáanlegar og úrval neytenda minnkar. Þá skal bent á að óskýrt er af lestri frumvarpsins hvaða bragðtegundir það eru sem kunna að höfða til barna. Frekari skýringa er þörf, ekki síst í ljósi þess að ráðherra er ætlað að útfæra þessa huglægu mælikvarða í reglugerð.

Í þessu sambandi má einnig nefna að mælt er fyrir fleiri aðgerðum sem lágmarka líkur á því að börn neyti nikótínvara, s.s. sýnileikabann, auglýsingabann, bann við sölu á tilteknum stöðum, fræðslustarfsemi o.s.frv. Í greinargerð er ekki fjallað um ætluð áhrif af hverri og einni þessara aðgerða eða áhrif af þeim samanlögðum. Því er alls óljóst hvort þörf er á þeim öllum og að mati Viðskiptaráðs þarf að ráða bót á þessu.

Viðskiptaráð leggst gegn því að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og er reiðubúið að skýra betur athugasemdir sínar.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024