Hætt við að íslenskir neytendur beri kostnaðinn á endanum

Viðskiptaráð telur brýnt að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra miðla. Ráðið lýsir hins vegar yfir efasemdum um að menningarframlag sé best til þess fallið.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp, sem skyldar streymisveitur sem selja þjónustu hérlendis til að greiða svokallað „menningarframlag“ til ríkissjóðs.

Samkvæmt frumvarpinu hefur samkeppni við alþjóðlegar streymisveitur og samfélagsmiðla haft neikvæð áhrif á rekstrarumhverfi og samkeppnisstöðu innlendra fjölmiðla, sem komi niður á framleiðslu innlends efnis og veiki þar með stöðu íslenskrar tungu. Viðskiptaráð vill í þessu samhengi benda á að margar af þeim áskorunum sem veikja samkeppnisstöðu innlendra miðla eru heimatilbúnar. Þær felast til dæmis í séríslenskum kvöðum, meira íþyngjandi eftirliti og minni möguleikum til tekjuöflunar, t.d. hvað varðar auglýsingar.

Viðskiptaráð telur brýnt að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra miðla. Ráðið lýsir hins vegar yfir efasemdum um að menningarframlag sé best til þess fallið. Þó að vissulega fjölgi í hópi Evrópulanda sem innheimta einhverskonar menningarframlag telur ráðið farsælla að fara að fordæmi Svía. Stjórnvöld þar hafa ekki í hyggju að innheimta menningarframlag heldur hafa þau þess í stað lagt áherslu á að bæta rekstrarumhverfi innlendra miðla.

Þá verður því ekki neitað að menningarframlag getur haft neikvæð áhrif á samkeppni, sérstaklega á örmarkaði eins Íslandi. Það getur dregið úr áhuga erlendra aðila á að bjóða upp á þjónustu hér á landi og skerðingu á þjónustufrelsi um leið og hætt er við því að streymisveitur velti kostnaðinum yfir á neytendur og því verði það í raun íslenskir neytendur sem beri kostnaðinn á endanum.

Þess í stað eru margar leiðir færar til að jafna samkeppnisstöðu innlendra miðla. Með því að létta á reglubyrði og afnema kvaðir sem gilda einungis um innlenda miðla væri samkeppnisstaða þeirra bætt til muna. Það væri bæði skilvirkari og áhrifaríkari leið en að auka kvaðir, flækjustig og skattheimtu þegar kemur að sjónvarps- og kvikmyndaframleiðslu.

Nái frumvarpið fram að ganga verða allar streymisveitur sem standa skil á menningarframlagi að eiga þess kost að sækja um styrk úr úthlutunarsjóðnum í samræmi við margmiðlunartilskipun EB og að teknu tilliti til sjónarmiða um meðalhóf og bann við mismunun. Því er nauðsynlegt að ráðist verði í breytingar á núgildandi reglugerð um Kvikmyndasjóð svo streymisveitur geti sótt í sjóðinn.

Í þessu samhengi bendir ráðið á að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er talað um „greiðslu“ menningarframlags. Þar sem allar líkur eru á því að innlendar streymisveitur standi skil á sínu framlagi með beinni fjárfestingu í framleiðslu er nauðsynlegt að taka af öll tvímæli um að réttur til umsókna skapist óháð því hvort um ræði fjárframlag eða fjárfestingu í framleiðslu.

Að gefnu tilefni vill Viðskiptaráð árétta mikilvægi þess að ráðuneytið fylgi reglum ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa. Samkvæmt þeim skal kynna almenningi áform um lagasetningu og frummat á áhrifum og gefa kost á umsögnum og ábendingum. Hvorki áform né frummat hafa verið birt í samráðsgátt á fyrri stigum, sem er á skjön við þessar reglur.

Viðskiptaráð áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum.

Virðingarfyllst,
María Guðjónsdóttir
Lögfræðingur Viðskiptaráðs

Lesa umsögn Viðskiptaráðs

Tengt efni

Aukið framboð af íþyngjandi kvöðum 

„Auðvitað eiga leikreglur á markaði að vera skýrar og stuðla að jafnræði milli ...
22. maí 2024

Gullhúðun og refsigleði í nýjum markaðssetningarlögum

Þingið hefur til umfjöllunar frumvarp til nýrra markaðssetningarlaga sem er ...
5. jún 2024

Kostnaðarsöm leið að göfugu markmiði

Ný greining frá Viðskiptaráði á kostnaði íslenskra fyrirtækja vegna íþyngjandi ...
5. júl 2023