Viðskiptaráð Íslands

Viðskiptaráð styður hækkun hámarksaldurs heilbrigðisstarfsfólks

Umsögn um frumvarp til laga um um breytingu á lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (mál nr. 987)

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna. Íslenska þjóðin stendur frammi fyrir þeirri áskorun að brýnn skortur er á starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og fram undan eru enn stærri áskoranir með öldrun þjóðarinnar. Fæðingartíðni lækkar, meðalaldur hækkar og búast má við 128% fjölgun í aldurshópnum 70 ára og eldri á næstu 40 árum, á meðan örlítil aukning á sér stað í hinum hópunum. Óneitanlega er þessi þróun komin til af góðu enda gera framfarir í læknavísindum ásamt forvörnum og heilbrigðari lífstíl fólki kleift að lifa lengur. Ein afleiðing þess er þó sú að álag á heilbrigðiskerfið mun aukast samfara fjölgun í þessum elsta aldurshóp, sem eykur skort á heilbrigðisstarfsfólki að öðru óbreyttu.

Eðlilegt að hækka hámarksaldur í takt við hækkandi meðalaldur

Viðskiptaráð telur eðlilegt, sem hluta af viðbrögðum við þessari þróun, að hækka hámarksaldur heilbrigðisstarfsmanna. Þjóðin er að eldast hratt og meðalaldur Íslendinga hefur hækkað um fimm ár síðustu 30 ár. Fleiri búa lengur við betri heilsu en áður var og því hefur meðalævilengdin lengst um sex ár síðastliðin 40 ár. Allar líkur eru á að þessi þróun haldi áfram og spáir Hagstofa Íslands því að hlutfall lífeyrisþega á móti þeim sem eru starfandi muni að óbreyttu tvöfaldast og fara úr um 20% í 40% um miðbik aldarinnar. Það er því þjóðhagslega mikilvægt að veita fólki tækifæri til að starfa lengur.

Sú þróun sem hefur átt sér stað eykur möguleikann á aukinni þátttöku eldra fólks á vinnumarkaði. Ennfremur eru sterkar vísbendingar um jákvæð áhrif virkni á efri árum á bæði andlega og líkamlega heilsu. Mikilvægt er því að áframhaldandi atvinnuvirkni standi fólki til boða. Sveigjanleg starfslok heilbrigðisstarfsmanna stuðla einnig að því að heilbrigðiskerfið njóti sem lengst þeirrar sérþekkingar og færni sem sérfræðingar þar búa yfir.

Að því sögðu telur Viðskiptaráð mikilvægt að samhliða þessari breytingu sé fyrirkomulag uppsagnarverndar endurskoðað, því nauðsynlegt er að breyta því þunglamalega og tímafreka ferli sem áskilið er í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og tryggja meiri skilvirkni í starfsmannahaldi hins opinbera.

Vandi Landspítala og heilbrigðiskerfisins í víðara samhengi

Viðskiptaráð vill þá nýta tækifærið og koma á framfæri hversu brýnt það er að stjórnvöld og löggjafinn taki á þeim vanda sem heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir.

Þegar litið er til nágrannalanda okkar má sjá að Ísland ver tiltölulega lægri hluta vergrar landsframleiðslu í heilbrigðisútgjöld. Nauðsynlegt er þó að horfa til þess að meðalaldur íslensku þjóðarinnar er enn lægri en meðal Norðurlandaþjóðanna. Svo dæmi sé nefnt er hlutdeild einstaklinga 65 ára og eldri um 20% af mannfjölda í Svíþjóð og 19,5% í Danmörku, samanborið við rúmlega 14% hér á landi. Þar sem heilbrigðiskostnaður fer stigvaxandi með hækkandi aldri hefur þetta áhrif á útgjöldin. Ef heilbrigðisútgjöld eru leiðrétt með tilliti til aldurssamsetningar má sjá að Ísland eyðir töluvert hærra hlutfalli af VLF í heilbrigðisútgjöld, eða 9,1%, en meðaltal Norðurlandaþjóðanna að Íslandi undanskildu er 7,8%. Þá hefur ríkisstjórnin aukið árleg framlög til málaflokksins um yfir 100 milljarða frá því hún tók við árið 2017. Stóraukin framlög virðast þó ekki duga til að leysa vanda heilbrigðiskerfisins. Biðlistar lengjast og þjónustu er ábótavant, Landspítalinn hefur lýst yfir miklum vanda, og ljóst er að sá vandi mun ekki minnka með öldrun þjóðarinnar og þeim áskorunum sem henni fylgja.

Með þetta í huga er ljóst að bregðast þarf við vaxandi heilbrigðiskostnaði á næstu árum og áratugum. Ráðið vill því nýta tækifærið og koma á framfæri áherslum sínum í málaflokknum sem sjá má í viðauka við umsögn þessa.

Viðskiptaráð styður frumvarpið og að atvinnutækifæri séu tryggð fyrir þann hluta heilbrigðisstarfsmanna sem vill og er fær um að vinna lengur en lög segja nú til. Að því sögðu sér Viðskiptaráð ekki þörf á því að ákvæði frumvarpsins sé bráðabirgðaákvæði til fimm ára, og leggur því til að ákvæðið verði varanlegt. Að lokum telur ráðið mikilvægt að ítreka að grípa þarf til úrræða til að bregðast við þeirri stöðu sem komin er upp í heilbrigðiskerfinu í víðara samhengi.

Viðauki

Sjá viðauka á bls. 3-7 hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024