Viðskiptaráð Íslands

Jafnlaunavottun kostað milljarða án þess að skila marktækum árangri

Viðskiptaráð fagnar frumvarpi sem gerir jafnlaunavottun valkvæða og telur það mikilvægt skref í átt að einfaldara og hagkvæmara regluverki. Ráðið bendir á að skyldubundin jafnlaunavottun hafi kostað vinnustaði milljarða án þess að sýnt hafi verið fram á marktækan mun á árangri milli þeirra sem fengið hafa vottun og þeirra sem hafa það ekki. Þá telur ráðið að fyrirhuguð tilskipun ESB um launagagnsæi muni gera sérstaka íslenska vottun óþarfa.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreint mál. Ráðið fagnar frum­varpinu, sem felur í sér mikilvæga breytingu á regluverki um jafnlaunavottun og markar skref í átt að einfaldara, skilvirkara og hagkvæmara rekstrarumhverfi.

Með frumvarpinu er skylda til jafnlaunavottunar afnumin og gerð valkvæð fyrir fyrirtæki og stofnanir sem kjósa að nýta sér hana. Á síðastliðnum árum hefur launa­munur minnkað ár frá ári og setja velflestir vinnustaðir sér sín eigin markmið þegar kemur að jafnréttismálum. Þá mælist ekki marktækur munur á kynbundnum launa­mun hjá aðilum sem hafa innleitt jafnlaunastaðalinn og fengið vottun samanborið við þá sem ekki hafa gert það. [1] Er þetta athyglisvert í ljósi þess að skylda til jafnlaunavottunar hefur kostað vinnustaði fleiri milljarða í framkvæmd. [2] Framangreint frumvarp hvetur til jafnréttis á vinnumarkaði án þess að lagðar séu með því óhóflegar byrðar á atvinnulífið, sérstaklega minni og meðalstór fyrirtæki.

Viðskiptaráð vill sérstaklega benda á óinnleidda tilskipun Evrópusambandsins nr. 2023/970 um launagagnsæi, sem kveður á um nýjar og ítarlegar kröfur til gagnsæis um laun og launamun kynjanna á vinnumarkaði. Tilskipunin felur í sér skyldur sem að miklu leyti munu leysa jafnlaunavottunina af hólmi og með henni verður séríslensk krafa í núgildandi lögum um staðfestingu frá sérstökum vottunaraðila óþörf. Þess í stað verður ábyrgðin lögð á herðar fyrirtækja og upplýsingaskyldu þeirra gagnvart starfsfólki og stjórnvöldum. Með innleiðingu tilskipunarinnar skapast því forsendur til þess að fella niður skyldu til jafnlaunavottunar, enda náist markmiðin með öðrum og hagkvæmari leiðum.

Viðskiptaráð telur að frumvarpið feli í sér tímabæra einföldun á regluverki sem varðar jafnréttismál í ljósi reynslu af jafnlaunavottun undanfarin ár, þróunar á vinnumarkaði og breytinga á alþjóðlegu regluverki. Að mati ráðsins á að leitast við að einfalda reglur og fækka ónauðsynlegum kvöðum eins og hægt er.

Viðskiptaráð hvetur jafnframt til þess að skoðað verði hvort sameina megi stofnanir sem starfa á sviði réttindamála. Með því mætti ná fram aukinni skilvirkni, minnka stjórnsýslukostnað og tryggja betur heildræna nálgun í réttindamálum. Dreifing í stjórnsýslu þar sem ólíkar stofnanir bera ábyrgð á skyldum þáttum (svo sem vottun, eftirliti og skráningu) getur leitt til óþarfa tvíverknaðar og ósamræmis. Væri slík sameining enn fremur í samræmi við tillögur hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar. [3]

Viðskiptaráð hvetur til þess að frumvarpið nái fram að ganga.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísanir

1 Svar forsætisráðherra við fyrirspurn um kynbundinn launamun og jafnlaunavottun. Þingskjal 1710 — 867. Mál á 153. löggjafarþingi: Slóð: https://www.althingi.is/altext/153/s/1710.html

2 Samtök atvinnulífsins (nóvember 2024): Jafnlaunavottun - mikill kostnaður, lítill ávinningur. Slóð: https://www.sa.is/frettatengt/frettir/jafnlaunavottun-mikill-kostnadur-litill-avinningur

3 Stjórnarráðið (mars 2025): Hagræðing í ríkisrekstri. Slóð: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/FOR/Fylgiskjol-i-frett/Hagræðing%20í%20ríkisrekstri%20-%20tillögur%20hagræðingarhóps.pdf

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024