21. september 2016
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn til velferðarnefndar um frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar. Viðskiptaráð styður að mestu leyti breytingar frumvarpsins. Ráðið gagnrýnir þó að fjármögnun breytinganna liggi ekki fyrir og að ekki sé kveðið á um að samstarfsverkefni skuli sett af stað til þess að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats.
Lesa umsögnina í heild
Í umsögninni kemur m.a. fram:
- Viðskiptaráð fagnar því að hækka eigi lífeyristökualdur úr 67 árum í 70 ár og að auka eigi við sveigjanleika þegar það kemur að starfslokum. Jafnframt telur ráðið til bóta þær breytingar sem eiga að einfalda almannatryggingakerfið.
- Ekki er kveðið á um að sett skuli af stað samstarfsverkefni um að þróa leiðir til að innleiða starfsgetumat í stað örorkumats, líkt og gert var í frumvarpsdrögunum. Leggur ráðið til að ákvæði það sem var í furmvarpsdrögunum verði bætt við frumvarpið á ný. Að mati ráðsins hafa ekki komið fram sjónarmið sem réttlæta það að hverfa frá þessari breytingu sem væri til bóta fyrir samfélagið í heild.
- Í frumvarpinu er ekki er lögð til leið til að fjármagna þær breytingar sem kveðið er á um en áætlaður kostnaður vegna þeirra nemur um 33 ma. kr. fram til ársins 2027. Lögð er fram áætlun um að hækkun tryggingargjalds þyrfti að nema 0,45% til að þær skili ríkissjóði ekki tapi. Viðskiptaráð hvetur til þess að breytingarnar verði fjármagnaðar m.a. með niðurskurði opinberra útgjalda í stað hækkun tryggingagjalds.