Fjármála- og efnhagsráðherra hefur lagt fram frumvarp til laga um kílómetragjald sem lið í innleiðingu nýs kerfis sem á að tryggja sjálfbæra tekjuöflun af bifreiðum og felur m.a. í sér enn meiri hækkun kolefnisgjalds. Ráðið hvetur stjórnvöld til að greina betur áhrif hækkunar kolefnisgjalds á atvinnulífið og aukins fyrirsjáanleika í skattheimtu.
Frumvarp um kílómetragjald var lagt fram á 155. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lagt fram að nýju með takmörkuðum breytingum. Það er liður í innleiðingu nýs kerfis sem á að tryggja ríkissjóði sjálfbæra tekjuöflun af bifreiðum til framtíðar í því skyni að treysta forsendur fyrir fjármögnun á uppbyggingu og rekstri vegakerfisins. Fyrsta skrefið í hinu nýja kerfi var stigið 1. janúar 2024 þegar kílómetragjald var lagt á notkun rafmagns- og vetnisbíla annars vegar og tengiltvinnbíla hins vegar á vegakerfinu. Með fyrirliggjandi frumvarpi er lagt til að stíga næsta skref og leggja á kílómetragjald vegna notkunar allra ökutækja á vegakerfinu en um leið fella niður almennt og sérstakt vörugjald af eldsneyti og fella brott lög um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, og lög um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, nr. 101/2023. Þó er lögð til veruleg hækkun á kolefnisgjaldi skv. lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009.
Áhrif á atvinnulíf enn óljós
Eins og áður hefur komið fram í umsögnum Viðskiptaráðs er það mat ráðsins að það sé eðlilegt að þeir sem noti vegina greiði fyrir þau afnot og er fylgjandi því grunnsjónarmiði að gjaldtaka í vegakerfinu taki mið af notkun þess, þ.e. að þeir sem noti vegina mest greiði einnig mest. Þá styður Viðskiptaráð að kerfið sé gagnsætt, sanngjarnt og endurspegli raunverulega notkun á vegasamgöngum. Þó er nauðsynlegt að breytingarnar og áhrif þeirra séu metnar heildstætt og þær feli ekki í sér óhóflega skattlagningu.
Viðskiptaráð telur að enn skorti fullnægjandi mat á áhrifum breytinganna á fyrirtæki og atvinnulíf, t.d. í ljósi þess að möguleikar til innsköttunar falla niður við breytingarnar. Þá er ekki gerð tilraun til að meta líkleg áhrif á verð á vörur og þjónustu í ljósi aukinnar gjaldheimtu ríkisins á margar atvinnugreinar.
Gert er ráð fyrir að þær lagabreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu hafi jákvæð áhrif á tekjur ríkissjóðs og að á árinu 2025 verði tekjur af ökutækjum og eldsneyti um 1,5% af VLF. Lagt er upp með að þetta leiði til þess að vegakerfið verði fjárhagslega sjálfbært á ný og að skatttekjur af umferð og eldsneyti verði aftur um 1,7% af VLF líkt og að jafnaði á árunum 2010-2017. Viðskiptaráð geldur varhug við að miða við landsframleiðslu og telur að fremur eigi að miða við raunkostnað hins opinbera við uppbyggingu og viðhald vegakerfisins.
Veruleg hækkun kolefnisgjalds
Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, þar sem lagt er til að kolefnisgjald á kolefni af jarðefnauppruna verði hækkað um rúm 25%. Á 155. löggjafarþingi var kolefnisgjaldið hækkað um tæp 60% með lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga fyrir árið 2025. Viðskiptaráð telur að hér sé um óhóflega hækkun að ræða á skömmum tíma, sérstaklega þar sem vart hefur gefist svigrúm til þess að bregðast við fyrri hækkun gjaldsins.
Markmið kolefnisgjalds er að hvetja bæði einstaklinga og fyrirtæki til að velja vistvænni tækni og orkugjafa. Með því að skattleggja losun koldíoxíðs áforma stjórnvöld þannig að beina samfélaginu í átt að minni kolefnisútblæstri. Stjórnvöld virðast hins vegar ekki taka tillit til þess að enn eru margir helstu atvinnuvegir landsins, s.s. sjávarútvegur, ferðaþjónusta, landflutningar og landbúnaður að langmestu leyti háðir jarðefnaeldsneyti og annar valkostur ekki raunhæfur, m.a. vegna þess að framþróun umhverfisvænni valkosta hefur ekki verið nógu hröð auk ónógs framboðs af grænni orku og ófullnægjandi innviða.
Jafnan er markmið með álagningu umhverfisskatta að hafa áhrif á hegðun og fjárfestingar en fyrir margar atvinnugreinar er umhverfisvænni staðgönguvörum einfaldlega ekki til að dreifa eða þær ekki raunhæfur valkostur. Skýtur það skökku við að varðandi tilgang og markmið kolefnisgjaldsins að hækkun þess bitni á atvinnugreinum þar sem að miklu leyti er ómögulegt að verða við þeim kröfum sem eru gerðar. Nauðsynlegt er að sköpuð sé sanngjörn og ábyrg nálgun á gjaldið þar sem hagsmunir atvinnulífsins, og þar með neytenda, eru tryggðir.
Vikið frá grundvallarsjónarmiðum um skattheimtu
Rétt er að taka fram að hvort tveggja kílómetragjald og kolefnisgjald eru skattar, sem eiga samkvæmt frumvarpinu að taka miklum og reglulegum breytingum, út frá fjölmörgum breytum. Það er í andstöðu við grundvallarhugsjón þá sem liggur að góðum skattkerfum sem eiga að fela í sér skýra, einfalda, gagnsæja, skilvirka og fyrirsjáanlega skattheimtu. Þessu til viðbótar er frumvarpinu ætlað að taka gildi frá og með 1. júlí 2025, en að mati ráðsins er um víðtækar breytingar að ræða og óraunhæft að veita svo skamman tíma til aðlögunar þeim sem frumvarpið hefur áhrif á. Heppilegra væri að gildistöku verði frestað til áramóta svo eðlilegt svigrúm sé veitt og bregðast megi við þeim.
Viðskiptaráð ítrekar þá afstöðu sína að gjaldtaka af vegakerfinu taki mið af notkun og henni sé varið í uppbyggingu og rekstur vegakerfisins. Þegar kemur að kolefnisgjaldinu sé hins vegar alls óljóst hvort um sé að ræða fjármögnun vegakerfisins eða íþyngjandi og óhagkvæma neyslustýrandi skattheimtu. Sé það vilji löggjafans að hrinda í framkvæmd boðuðum breytingum, verði það gert með skýrum, sanngjörnum og fyrirsjáanlegum hætti líkt og með aðra skattheimtu.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.