Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að gæta að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs við útfærslur tillagna um kolefnismarkaði á Íslandi. Þær megi ekki leiða til þess að komið verði á enn einu flóknu og kostnaðarsömu kerfi sem auki kostnað og dragi úr skilvirkni. Lykilatriði sé að einfalda og skýra regluverk í starfsumhverfi fyrirtækja.
Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið gaf út skýrsluna Kolefnismarkaðir - Áskoranir og tækifæri í íslensku samhengi undir lok síðasta árs og óskaði í kjölfarið eftir umsögnum og ábendingum í Samráðsgátt stjórnvalda. Skýrslan hefur það að markmiði að styðja við þróun kolefnismarkaða á Íslandi og auðvelda hagaðilum að nýta þau tækifæri sem kolefnismarkaðir bjóða upp á. Í henni er jafnframt að finna ýmsar tillögur, m.a. að íslensk stjórnvöld móti stefnu um þátttöku í alþjóðlegum kolefnismörkuðum og bætt umgjörð og regluverk í viðskiptum með kolefniseiningar.
Viðskiptaráð telur skýrsluna ágætis innlegg og grundvöll þess að skýra og samræma regluverk um kolefnismarkaði. Starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja verður sífellt þyngra og flóknara, ekki síst þegar kemur að umhverfis-, loftslags- og sjálfbærnimálum. Mörg þeirra falla beint eða óbeint undir fjölda evrópskra gerða og fjöldi fyrirtækja setur sér metnaðarfull markmið og stefnu óháð lögbundnum kvöðum. Skýrslan er því að einhverju leyti tilraun stjórnvalda til að skýra starfsumhverfi fyrirtækja.
Ráðið telur að eðlilegra væri að létta á regluverkinu en það er vandkvæðum bundið í ljósi skuldbindinga á grundvelli EES- samningsins. Ætli stjórnvöld að koma á regluverki eða markaði með kolefniseiningar er því nauðsynlegt að það samrýmist öðru regluverki sem fyrir er eða liggur fyrir að verður innleitt á grundvelli EES-samningsins, eins og t.d. CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive) og CFRC (Carbon Removals and Carbon Farming Certification). Mikilvægt að útfærslur tillagnanna verði til þess að skýra viðskipti með kolefniseiningar en ekki flækja það enn frekar.
Hvað varðar einstakar tillögur í skýrslunni er ráðið fylgjandi því að kaup ríkisins á kolefniseiningum uppfylli samræmdar kröfur um gæði og kannað verði hvort hægt sé að nýta útboð til kaupa á kolefniseiningum. Slíkt ætti að stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri, tryggja samkeppni og jafnræði milli seljenda.
Ráðið styður að skilgreina eigi hugtakið kolefniseiningu í lögum en telur jafnframt tækifæri til að skýra betur kolefnishlutleysi. Í núverandi umhverfi eru helstu áskoranir fyrirtækja þær að regluverkið er óljóst, t.d. hvað sé kolefniseining, hvaða einingar má kaupa, hvaða vottanir eru teknar gildar og hvenær fyrirtæki hafa gert nóg til að draga úr losun að rétt sé að kaupa kolefniseiningar. Kostnaður fyrirtækja við að uppfylla kröfur í umhverfis-, loftslags- og sjálfbærnimálum er mikill svo eðlilega beina þau fjármunum frekar í verkefni sem falla vel að því að uppfylla skýrari og lögbundnar kvaðir.
Þá geldur ráðið varhug við því að komið verði á fót flóknu og kostnaðarsömu kerfi sem eykur kostnað og dregur úr skilvirkni. Ef regluverkið er einfalt og gæðakröfur skýrar ættu viðskipti með kolefniseiningar að vera eins og kaup og sala á hverri annarri vöru, milliliðalaus. Ráðið ítrekar mikilvægi samráðs við atvinnulífið við útfærslu og kannaðir verði kostir þess að samnýta innviði.
Meðal tillagna er að banna útflutning á alþjóðlegum kolefniseiningum (ITMOs) frá Íslandi sem hefðu neikvæð áhrif á losunarbókhald Íslands. Viðskiptaráð telur rétt að stjórnvöld stígi hér varlega til jarðar og rökstyðji betur þessa tillögu enda geti markaður með kolefniseiningar verið tekjuaflandi fyrir íslensk fyrirtæki. Réttast sé að framkvæma mat á áhrifum slíks banns, enda myndi það alla jafna draga úr eftirspurn, leiða til lægra verðs og skerða möguleika íslenskra fyrirtækja til sölu á kolefniseiningum.
Loftslagmarkmið stjórnvalda hafa veruleg áhrif á starfsskilyrði fyrirtækja og beinn eða óbeinn kostnaður vegna losunar gróðurhúsalofttegunda dregur úr möguleikum til fjárfestinga og nýsköpunar. Því eru tillögur um að skoðun skattalegrar umgjarðar rekstrar við framleiðslu og kaup á kolefniseiningum m.t.t. mögulegra ívilnana og frádráttarbærni rekstrarkostnaðar jákvæðar.
Viðskiptaráð telur mikilvægt stjórnvöld gæti að samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og eigi gott samstarf um útfærslu tillagnanna. Lykilatriði er að regluverkið sé skýrt og í samræmi við þann mikla fjölda kvaða sem nú þegar hafa verið lagðar eða liggur fyrir að leggja á íslensk fyrirtæki. Hafi fyrirtæki ekki burði til fjárfestinga og nýsköpunar mun það á endanum vinna gegn markmiðum stjórnvalda í umhverfis- og loftslagmálum.
Umsögnina í heild er hægt að nálgast hér.