Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn við breytingu á leigubílalögum. Breytingin felur í sér afturför á leigubílamarkaðnum með endurupptöku stöðvarskyldu og auknum eftirlitskröfum. Í stað þess að auka frjálsræði á markaðnum hyggjast stjórnvöld reisa enn frekari aðgangshindranir.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind frumvarpsdrög. Að mati ráðsins fela frumvarpsdrögin í sér afturför fyrir leigubifreiðaþjónustu á Íslandi. Breytingarnar munu auka aðgangshindranir, draga úr samkeppni og vinda ofan af breytingum í átt til aukins frjálsræðis sem gerðar hafa verið undanfarin ár. Meðal annars á að taka upp stöðvarskyldu rekstrarleyfishafa á ný, sem mun leiða til hærri verða og lakari þjónustu fyrir neytendur. Nær væri að stjórnvöld einblíndu á að draga úr þeim miklu aðgangshindrunum sem enn eru til staðar þegar kemur að leigubílaakstri.
Nám leigubílstjóra óeðlilega langt og dýrt
Gildandi námskeiðsfyrirkomulag fyrir leigubílstjóra er í senn of dýrt, óþarflega langt og snertir á ýmsum atriðum sem eru leigubílaakstri óviðkomandi. Til að verða fullgildur leigubílstjóri þarf einstaklingur að sitja fjögur áþekk námskeið, sem kosta 1,4 m. kr. og taka 137 klukkustundir samtals (mynd 1). Fyrir það fyrsta þarf sá sem hyggst nota eigin bifreið til leigubílaaksturs að hafa haft almenn ökuréttindi í hið minnsta þrjú ár. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hæfniviðmið réttindanna en þau heimila einstaklingum að aka bifreið í umferðinni.
Þrátt fyrir þær ítarlegu kröfur sem gerðar eru til ökumanna fólksbíla þarf sá sem hyggst verða leigubílstjóri að sitja þrjú námskeið til viðbótar. Fyrst námskeið um leigubifreiðapróf (B/far) en þar er farið yfir öryggi og færni í að stjórna ökutæki til farþegaflutninga. Næst svokallað harkaranámskeið sem heimilar viðkomandi að keyra fólksbíl í eigu rekstrarleyfishafa. Síðast er það leyfishafanámskeið sem gerir viðkomandi að fullgildum leigubílstjóra að því gefnu að hann uppfylli skilyrði atvinnuleyfis.
Kostnaður viðbótarnámskeiðanna er mikill og hugsa flestir sig sennilega tvisvar um áður en þeir leggja fyrir sér feril leigubílstjóra. Kostnaður námskeiðanna þriggja auk almennra ökuréttinda er um 850 þús. kr. Þá er áætlaður fórnarkostnaður vegna tímalengdar námskeiðanna 540 þús. kr. til viðbótar. Heildarkostnaðurinn við að gerast leigubílastjóri er þannig að lágmarki 1.390 þús. kr. [1]
Námsefni sem er leigubílaakstri óviðkomandi
Efnistök námskeiðanna eru mörg hver áþekk þeirra í námi til öflunar almennra ökuréttinda. Kröfur eru gerðar um þekkingu á öryggisatriðum í umferð og akstri ásamt framfylgd umferðarlaga og reglna. Þannig er algengt að námsefni sé endurtekið milli námskeiða. Við þessi efnistök bætast ýmis hæfniviðmið sem óljóst er hvað hafa að gera með akstur leigubifreiða, t.d. rekstur, vinnumarkaðsrétt, faglega framkomu, hreinlæti, kennslu á tölvukerfi Hreyfils, ferðamennsku og náttúruvernd. [2]
Ekki hefur verið sýnt fram á tilefni eða nauðsyn þessa hluta kennsluefnis fyrir tilvonandi leigubifreiðastjóra með vísan til brýnna almannahagsmuna. Slík skilyrði auka kostnað umsækjenda, bæði í formi tíma og peninga en sambærileg skilyrði er ekki að finna í annarri starfsemi hérlendis.
Í skýrslu OECD frá 2020 er sérstaklega fjallað um löng og kostnaðarsöm námskeið sem umsækjendur um leigubílaréttindi þurfa að undirgangast og hvernig þau fjalli að miklu leyti um hluti ótengda öryggi eða gæði þjónustunnar. OECD hefur lagt til breytingar á núverandi kerfi til að fjarlægja óþarfa reglubyrði sem hvílir á aðilum markaðarins og tryggja aðstæður fyrir heilbrigða samkeppni. [3]
Hindranir vinna gegn þjónustuveitendum og neytendum
Á leigubílamarkaði á Íslandi eru enn miklar aðgangshindranir til staðar sem fæla þá frá sem hyggjast stunda leiguakstur í auka eða aðalstarfi. Þetta hafa aðilar á borð við OECD áður bent á. Aðgangshindranirnar hafa neikvæð áhrif á framboð leigubílaþjónustu með tvennskonar hætti. Annars vegar fælir það frá einstaklinga sem hyggjast stunda leiguakstur og dregur úr framboði. Það veikir samkeppni , takmarkar athafnafrelsi, rýrir valfrelsi neytenda og dregur úr framþróun atvinnugreinarinnar.
Aðgangshindranir gera einnig svarta starfsemi í leigubílaakstri að álitlegri kosti en ella. Það er annars vegar vegna aukins álags sem löglegir bílstjórar ná ekki að sinna, einna helst á háannatímum. Hins vegar er það vegna mikils upphafskostnaðar löglegu leiðarinnar. Núverandi fyrirkomulag kallar þannig á aukið eftirlit með að óþörfu. Draga mætti úr þeirri þörf með því að fækka aðgangshindrunum og gera þannig löglegan leigubifreiðaakstur að álitlegri kosti. Krafa um gild ökuréttindi, hreint sakavottorð og að starfsemi sé skráð hjá skattayfirvöldum ætti að duga til.
Aukin umsvif með frjálsræði á markaðnum
Árið 2023 voru stigin stór skref í átt að auknu frjálsræði á leigubílamarkaði. Jafnframt var undið ofan af áratugalöngum aðgangshindrunum á markaðnum. Þannig var t.d. stöðvarskylda afnumin og fjöldi leyfa gefinn frjáls. Viðskiptaráð studdi frumvarpið á sínum tíma en hefði viljað að stærri skref hefðu verið stigin. [4]
Með breytingunum fjölgaði leigubílaleyfum um 47% á milli áranna 2021 og 2024 (úr 653 leyfum í 962) [5] og yfir sama tímabil fjölgaði starfandi í fólksflutningum á landi 81% (úr 2.200 manns í 4.000) en ætla má að stór hluti þeirrar fjölgunar hafi verið vegna fyrrgreindra breytinga á markaðnum. [6] Þannig jókst framboð á leigubílamarkaði með auknu frjálsræði sem sýnir að aðgangsstýring stjórnvalda hafi dregið úr innkomu nýrra leigubílstjóra. Með aukinni samkeppni hefur framþróun á markaðnum aukist, ný fyrirtæki stigið inn á markaðinn og farveitur rutt sér til rúms með nýrri tækni og bættri þjónustu.
Afnema ætti stöðvaskyldu alfarið
Að mati Viðskiptaráðs gengur krafa um almenna stöðvaskyldu án undantekninga, líkt og boðað er í frumvarpinu, þvert gegn skýrum ábendingum ESA og ákvæði 31. gr. EES-samningsins. Staðfesturétturinn sem kveðið er á um í 31. gr. EES-samningsins felur meðal annars í sér rétt til ríkisborgara innan Evrópska efnahagssvæðisins til að hefja og stunda sjálfstæða atvinnustarfsemi og til að stofna og reka fyrirtæki.
Viðskiptaráð er ósammála mati ráðuneytisins að stöðvarskyldan sé réttlætanleg í skilningi 31. gr. EES samningsins enda hefur ekki verið sýnt fram á að slík skylda sé nauðsynleg til þess að tryggja eftirlit og öryggi neytenda. Að mati Viðskiptaráðs ætti að afnema stöðvaskyldu alfarið, líkt og ESA hefur bent á í erindum sínum til íslenskra stjórnvalda þar sem hún felur í sér óréttlætanlega hindrun á stofnréttinum (e. freedom of establishment) sem og tvöfalt eftirlit (e. duplication of controls).
Auknar kvaðir og skert valfrelsi bílstjóra
Í frumvarpinu eru kröfur og skyldur leyfishafa og leigubílastöðvar auknar til muna. Viðskiptaráð telur rétt að benda á að með því að íþyngja rekstraraðilum að óþörfu eykst fastur rekstrarkostnaður vegna leigubílaþjónustu. Það kemur til með að hindra innkomu nýrra aðila og jafnframt setja þrýsting á verð.
Í frumvarpinu er óskýrt hvort ætlunin sé að takmarka rétt akstursleyfishafa til að aka fyrir fleiri en eina leigubifreiðastöð. Í framkvæmd hefur það verið heimilt á grundvelli laganna sem hefur aukið sveigjanleika leyfishafa og samkeppni. Viðskiptaráð hvetur til þess að ákvæðið verði skýrt frekar og að heimild til að aka fyrir fleiri stöðvar verði áfram tryggðþrátt fyrir að almenn stöðvaskylda verði lögfest.
Tímabært að aflétta aðgangshindrunum
Viðskiptaráð leggst gegn því að ofangreint frumvarp verðilagt fram í núverandi mynd og hvetur til þess að það verði endurskoðað með það fyrir augum að takmarka ekki aðgengi nýrra aðila á markað og gæta að valfrelsi rekstrarleyfishafa. Þá telur Viðskiptaráð einboðið að hverfa þurfi frá stöðvaskyldu og taka af öll tvímæli um að hún verði ekki einskorðuð við eina stöð. Þá ætti að heimila útgáfu leigubílaleyfa til fyrirtækja og gera fyrirtækjum kleift að hafa á hendi fleiri en eitt leigubílaleyfi. Þá þarf að tryggja að gildandi löggjöf um leigubifreiðar hindri ekki nýsköpun á markaðinum.
Viðskiptaráð telur að afnema eigi allar námskröfur sem gerðar eru til handhafa leigubílaleyfa sem ekki varða öryggi farþega, ökumanna eða almennings. Það þýðir að einungis almenn ökuréttindi dugi til að keyra leigubíla í fólksbifreiðastærð. Ef þær kröfur sem hingað til hafa verið gerðar í námskeiðum eru nauðsynlegar og sannarlega virðisaukandi munu bílstjórar sem áður hafa sótt námskeiðin geta hækkað verð um sem því nemur. Neytendur geta svo kosið hvort þeir versli við leigubílstjóra með eða án slíkra réttinda enda eru það neytendur sjálfir sem eru best til þess fallnir að ákvarða hvern þeir kjósa að eiga í viðskiptum við.
Viðskiptaráð áskilur sér rétt til að koma frekari athugasemdum á framfæri á síðari stigum.
Nánar má lesa um umsögnina hér
---
Tilvísanir:
1 Tímakostnaður mv. meðaltímakaup bílstjóra skv. launarannsókn Hagstofunnar (3.890 kr./klst.). Slóð: https://hagstofa.is/talnaefni/samfelag/laun-og-tekjur/
2 OECD (2020). „OECD Competition assessment reviews: Iceland“. Slóð: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/ThKRG/competition-assessment-reviews-iceland-20201.pdf
3 OECD (2020). „OECD Competition assessment reviews: Iceland“. Slóð: https://www.stjornarradid.is/library/01--Frettatengt---myndir-og-skrar/ANR/ThKRG/competition-assessment-reviews-iceland-20201.pdf
4 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um leigubifreiðaakstur á 153. löggjafarþingi: https://www.althingi.is/altext/erindi/153/153-140.pdf
5 Alþingi (2023). Fyrirspurn um leigubifreiðaakstur. Slóð: https://www.althingi.is/altext/153/s/1215.html og Morgunblaðið (2024). „Nær 300 leigubílaleyfi í ár“. Slóð: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1874128/
6 Eurostat (2024). Starfandi í fólksflutningum á landi skv. tölum Eurostat. Slóð: https://ec.europa.eu/eurostat/databrowser/view/lfsa_egan22d__custom_15734906/default/table