Umsögn Viðskiptaráðs um tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar tillögu til þingsályktunar um afnám 70 ára aldurstakmörkunar í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Almennt er Viðskiptaráð hlynnt því að fólki sé gert kleift að stunda atvinnu eins lengi og því sýnist, en gerir þó athugasemdir við tillöguna í ljósi þeirrar heildarmyndar sem við blasir á vinnumarkaði og sérstöðu opinbera geirans í því samhengi. Að mati ráðsins er nauðsynlegt að líta heildstætt á vinnumarkaðinn á Íslandi, hvort tveggja til almenna geirans og hins opinbera. Rétt er að fram fari heildarendurskoðun á málaflokknum, í stað þess að hverju sinni sé aðeins horft til einstakra þátta, hópa eða stétta á vinnumarkaði, líkt og raunin er í fyrirliggjandi tillögu. Staða opinbera geirans hefur í ýmsum skilningi áhrif á þann almenna, og öfugt, og því þarf að nálgast alla slíka umræðu úr báðum áttum. Því er gott samráð við viðskiptalífið forsenda þess að breytingar á starfsumhverfi verði til góðs þegar uppi er staðið.
Skýrar vísbendingar hafa komið fram á undanförnum árum um að hið opinbera leiði launaþróun í landinu, en frá upphafi heimsfaraldursins hafa laun hjá hinu opinbera hækkað um 18% sem er ekki í samræmi við framleiðniaukningu og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þá nam launakostnaður opinberra starfsmanna hérlendis 16% af landsframleiðslu árið 2020 samanborið við 11% meðaltal ESB ríkja meðal OECD. Einungis í Noregi er að finna lítillega hærra hlutfall. Þannig er ljóst að staða opinbera geirans og einkageirans hafa að sumu leyti verið mjög ólíkar undanfarin ár.
Viðskiptaráð staldrar sérstaklega við það sem fram kemur í lok greinargerðar með frumvarpinu um áhyggjur af því að hið opinbera tapi þekkingu til hins almenna vinnumarkaðar þar sem ekki sé að finna sambærilegar aldurstakmarkanir og þær er varða opinbera starfsmenn. Þessi orð koma flatt upp á atvinnurekendur enda hafa þeir á undanförnum árum haft áhyggjur af hinu gagnstæða; að þekking einkageirans hafi tapast til hins opinbera og að í mörgum tilfellum yfirbjóði hið opinbera fyrirtæki í launum. Þetta er vert að hafa í huga við afgreiðslu málsins.
Þessu til viðbótar hefur Viðskiptaráð bent á að atvinnurekstur hins opinbera nálgist það að vera náttúrulögmál, en í nýlegri greiningu ráðsins kom fram að stöðugildum hins opinbera í atvinnurekstri hefði fjölgað um alls 2,6% frá árinu 2016. [1]
Fullyrða má að minni sveigjanleiki sé í starfsmannahaldi hjá hinu opinbera en á almenna markaðnum, sem ætla má að komi niður á. Til dæmis er umgjörð uppsagna töluvert frábrugðin því sem gengur og gerist á almennum markaði, erfiðara er að umbuna starfsfólki sérstaklega fyrir vel unnin störf o.s.frv. Líkt og fram kemur í greinargerð eru aðstæður á almennum markaði til dæmis með þeim hætti að 70 ára reglan á ekki við. Þegar allt kemur til alls má velta því upp hvort einfaldast sé að láta sama sveigjanleika gilda um almenna starfsmenn og opinbera og færa því jafnvel fleiri atriði en 70 ára aldurstakmörk nær því sem gengur og gerist á almennum markaði. Með þeim hætti yrði sveigjanleiki í starfsmannahaldi meiri en lagt er til í þingsályktunartillögunni. Að mati Viðskiptaráðs væri það framfaraskref þótt þetta ætti jafnvel aðeins við um almenna starfsmenn og embættismenn yrðu teknir út fyrir sviga.
Viðskiptaráð leggur til að tillagan nái ekki fram að ganga nema að viðhöfðu nauðsynlegu samráði við viðskiptalífið.
[1] Sjá nánar hér