Viðskiptaráð Íslands

Ófjármögnuð neytendastefna

Viðskiptaráð hefur skilað umsögn um stefnu í neytendamálum til 2030. Viðskiptaráð gagnrýnir að þrátt fyrir ábendingar á fyrri stigum hafi stefnan enn ekki verið kostnaðarmetin og umfjöllun um fjármögnun sé ófullnægjandi. Ráðið geldur varhug við þeirri óheillaþróun að ríkisútgjöld séu aukin með því að leggja fram ófjármagnaðar stefnur í formi þingsályktana. Auk þess að mæla með sameiningu stofnana sem fara með neytendamál ítrekar Viðskiptaráð að hagur neytenda felist fyrst og fremst í frjálsu framtaki fólks og fyrirtækja með nýjum vörum, þjónustu og nýsköpun.

Fyrst ber að árétta að þrátt fyrir ábendingar á fyrri stigum hefur stefnan enn ekki verið kostnaðarmetin og umfjöllun um fjármögnun er ófullnægjandi. Þetta er í beinni andstöðu við leiðbeiningar Stjórnarráðsins um að stjórnvöld skuli kostnaðarmeta stefnur og tryggja þeim fjármögnun áður en þær eru formlega samþykktar. Ráðið geldur varhug við þessari óheillaþróun að auka ríkisútgjöld með því að leggja fram ófjármagnaðar stefnur í formi þingsályktana, fá þær samþykktar á Alþingi og rökstyðja svo auknar fjárheimildir við gerð næstu fjárlaga og fjármálaætlunar á þeim grundvelli. Það er löggjafans að veita framkvæmdavaldinu aðhald í þessum málum og tryggja heilindi og gagnsæi í þingsályktunum sem samþykktar eru af Alþingi.

Viðskiptaráð fagnar áherslum í stefnunni á nútímavæddari löggjöf, einföldun regluverks og aukna skilvirkni en þar sem orðalag er fremur almennt og útfærslur í mörgum tilvikum ómótaðar, er erfitt að leggja mat á hvort þeim markmiðum verði náð. Ráðið gagnrýnir aftur á móti áherslu á aukin fjárútlát til frjálsra félagasamtaka og eftirlitsstofnana. Ráðið hefur áður gagnrýnt milljarða fjárútlát stjórnvalda til frjálsra félagasamtaka, ekki síst fyrir þær sakir að meirihluti þeirra er hvorki sundurliðaður í fjárlögum né í ársskýrslum ráðherra. Slíkt er í andstöðu við lög um opinber fjármál og reglugerð um styrkveitingar ráðherra, sem m.a. er ætlað að tryggja jafnræði, hlutlægni, gagnsæi og að gætt sé að samkeppnissjónarmiðum við styrkveitingar. Það vekur upp spurningar hversu frjáls félagasamtök eru í raun sem reiða sig í miklum mæli á fjárveitingar frá hinu opinbera.

Ráðið gerir ekki athugasemdir við markmið um styrka stofnanaumgjörð á sviði neytendamála en telur hins vegar rétt að benda á að einfaldasta leiðin að því markmiði væri að sameina stofnanir á sviði neytendamála og samkeppnismála. Með því að sameina Neytendastofu, Fjarskiptastofu og Samkeppniseftirlit eins þekkist víða erlendis, mætti stuðla að betri nýtingu skattfjár, minni skörun og hagfelldari framkvæmd.

Að lokum vill ráðið ítreka enn og aftur að hagur neytenda felst fyrst og fremst í frjálsu framtaki fólks og fyrirtækja með nýjum vörum, þjónustu og nýsköpun. Skýrt regluverk, öflug samkeppni, hagfellt rekstrarumhverfi og frjór jarðvegur fyrir verðmætasköpun eru mikilvægustu hagsmunir neytenda og um leið einn af grundvallarþáttum heilbrigðs viðskiptalífs.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024