Viðskiptaráð fagnar markmiðum frumvarps um breytingar á stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki en varar við íþyngjandi skilyrðum og skorti á fyrirsjáanleika. Ráðið bendir á að íþyngjandi kröfur samkvæmt frumvarpinu geti dregið úr nýsköpun og verðmætasköpun. Þá leggur ráðið áherslu á að afgreiðslufrestir umsókna verði bindandi í framkvæmd og að mat á hæfni sé hlutlægt.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingar á lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Viðskiptaráð skilaði einnig inn umsögn um málið á fyrri stigum.
Með frumvarpinu er ætlunin að skýra framkvæmd laganna og auka skilvirkni, en um er að ræða fyrsta hluta í heildarendurskoðun á lögunum. Að mati Viðskiptaráðs er frumvarpið mikilvægt skref í þeirri heildarendurskoðun sem hafin er á stuðningskerfi við nýsköpun. Brýnt er að kerfi stuðnings við nýsköpunarfyrirtæki sé einfalt, skilvirkt og fyrirsjáanlegt svo fyrirtæki geti byggt starfsemi sína á traustum forsendum og gert langtímaáætlanir. Með endurskoðuninni gefst færi á að bæta reglur og framkvæmd laganna með hliðsjón af reynslu síðustu ára.
Koma þarf í veg fyrir óþarfa íþyngjandi kröfur
Viðskiptaráð tekur undir markmið frumvarpsins um að skýra framkvæmd og efla skilvirkni, en telur þó að við útfærslu einstakra ákvæða verði að gæta meðalhófs og forðast íþyngjandi kröfur sem geta dregið úr vilja fyrirtækja til að ráðast í rannsóknar- og þróunarverkefni. Nýsköpunar- og þróunarstarfsemi er að jafnaði margra ára lifandi ferli sem einkennist af óvissu og því er sérstaklega mikilvægt að ferli og skilyrði opinbers stuðnings séu skýr og fyrirsjáanleg, án þess að gerðar séu óraunhæfar kröfur á frumstigi verkefna.
Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við 7. gr. laganna skilyrði um að samstarfssamningur milli aðila um samstarfsverkefni skuli liggja til grundvallar og skilað samhliða umsókn. Hér er áréttað að samstarf innan nýsköpunar er oft og tíðum lifandi ferli og því verður löggjafinn að tryggja sveigjanleika og hæfilegan frest til úrbóta í umsóknarferli. Viðskiptaráð telur að krafa um fullmótaðan samstarfssamning við umsókn geti reynst óþarflega íþyngjandi í framkvæmd. Hæglega má gera ráð fyrir að í mörgum tilvikum sé staðfesting eða niðurstaða umsóknar um stuðning forsenda þess að verkefni fari yfir höfuð af stað. Því er óraunhæft að gera kröfu um að fyrirtæki og samstarfsaðilar leggi í umtalsverðan kostnað, t.a.m. lögfræðikostnað í tengslum við samningagerð, áður en fyrir liggur hvort af verkefninu verður.
Afgreiðslufrestir verði bindandi
Í 4. gr. og a-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að afgreiðslufrestur Rannís verði lengdur í þrjá mánuði, í stað tveggja. Viðskiptaráð sýnir því skilning að aukið álag geti kallað á lengri tímafresti og telur jákvætt að orðalagið „að jafnaði“ hafi verið fellt brott við vinnslu málsins. Engu að síður bendir ráðið á að breytingin ein og sér leysir ekki þann vanda sem fyrirtæki hafa mætt, þar sem tafir hafa ítrekað orðið umfram lögbundna fresti og haft veruleg áhrif á rekstur, fjármögnun og áætlanagerð fyrirtækja.
Viðskiptaráð telur að setja þurfi skýrari ramma um afleiðingar þess að afgreiðslufrestur er ekki virtur af hálfu stjórnvaldsins. Í dag lenda afleiðingar tafa nánast alfarið á umsækjendum, en ekki á stofnuninni. Nauðsynlegt er að tryggja að frestir séu bindandi í framkvæmd, að umsækjendur fái tímanlegar upplýsingar um stöðu og tafir, og að skýr ferill sé fyrir hendi þegar frestur er ekki virtur. Án slíkra úrræða getur breyting á fresti orðið til þess að festa óviðunandi stöðu í sessi, þar sem tafir eru viðvarandi en hafa engar afleiðingar í för með sér fyrir stjórnsýsluna.
Nýsköpunarfyrirtæki njóti jafnræðis
Í b-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að bætt verði við 9. gr. laganna nýju ákvæði sem heimilar tveggja ára staðfestingu verkefna þegar árlegur kostnaður er ekki umfram 125 millj. kr., en skilyrði er jafnframt að um sé að ræða „lítið fyrirtæki“ í skilningi 3. gr. laganna. Viðskiptaráð telur jákvætt að leitast sé við að einfalda ferli og draga úr umsóknarbyrði, enda er það til þess fallið að auka skilvirkni og fyrirsjáanleika. Hins vegar telur ráðið varhugavert í ljósi jafnræðissjónarmiða að takmarka þessa heimild við lítil fyrirtæki með þeim hætti að stærri nýsköpunarfyrirtæki standi utan hennar, þrátt fyrir að verkefni þeirra falli innan sama kostnaðarramma.
Viðskiptaráð hvetur því til þess að heimildin verði ekki bundin við skilgreiningu á „litlu fyrirtæki“, heldur taki frekar mið af eðli verkefnis og kostnaðarramma, óháð stærð fyrirtækis.
Hlutlægt mat á sérfræðiþekkingu
Í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að við 16. gr. laganna bætist málsliður um að ráðherra mæli nánar fyrir um mat á sérfræðimenntun, þjálfun eða reynslu starfsmanns í reglugerð. Þannig er ekki tekið af skarið um hvað teljist „nægileg þekking“ samkvæmt ákvæðinu og ráðherra falið að mæla nánar fyrir um það í reglugerð. Viðskiptaráð hvetur til þess að reglugerðarheimildin verði útfærð með skýrum, hlutlægum viðmiðum um hvaða þekking teljist nægileg en beiting ákvæðisins verði ekki háð geðþótta ráðherra.
Að virtum framangreindum athugasemdum hvetur Viðskiptaráð til þess að frumvarpið nái fram að ganga.
Umsögnina í heild má lesa hér.