Viðskiptaráð Íslands

Ójafn samkeppnisgrundvöllur á fjölmiðlamarkaði

Viðskiptaráð telur brýnt að leiðrétta skakka samkeppnisstöðu á fjölmiðlamarkaði, þar sem ríkisfjölmiðill nýtur umfangsmikilla opinberra framlaga á kostnað einkarekinna miðla. Ráðið styður tillögu um aukið valfrelsi neytenda við ráðstöfun útvarpsgjalds og telur hana skref í rétta átt til að efla samkeppni án kollvörpunar.

Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri umsögn um málið og fagnar viðleitni til að leiðrétta þá skökku samkeppnisstöðu sem ríkir á fjölmiðlamarkaði.

Ráðið er ekki fylgjandi því að neytendur séu neyddir til að greiða útvarpsgjald til að vera í áskrift að ákveðnum fjölmiðlum og vill að útvarpsgjaldið verði afnumið. En þar sem afnám útvarpsgjalds er ekki á dagskrá styður ráðið að neytendum verði veitt aukið frelsi til að ráðstafa útvarpsgjaldinu með þeim hætti sem þeir kjósa. Að mati ráðsins mætti ganga enn lengra en hér er lagt til og veita fólki frelsi til að ráðstafa öllu gjaldinu til annarra fjölmiðla ef það svo kýs.

Þörf á að leiðrétta skakka stöðu

Samkeppnisstaða á fjölmiðlamarkaði er skökk, sem hefur leitt til þess að veruleg fækkun hefur orðið meðal starfandi á fjölmiðlamarkaði. Á árunum 2008 til 2023 fækkaði starfandi hjá einkareknum miðlum um 69%. Á sama tíma hefur starfandi hjá Ríkisútvarpinu aðeins fækkað um 16%. Umfang einkarekinna miðla hefur því dregist saman, hvort sem horft er til fjölda starfandi eða í samanburði við RÚV. [1]

Á Íslandi eru umsvif ríkisfjölmiðilsins þau mestu á Norðurlöndum. Af heildartekjum fjölmiðla hefur RÚV 27% tekna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en hlutfallið er að jafnaði 10% á öðrum Norðurlöndum. Þá er RÚV eini norræni ríkismiðillinn sem fjármagnaður er með opinberum framlögum og er samtímis í virkri samkeppni við einkaaðila um auglýsingatekjur. Mikil umsvif RÚV og vera miðilsins á auglýsingamarkaði brenglar verulega samkeppnisskilyrði annarra fjölmiðla. Í krafti opinberrar meðgjafar og samkeppnisforskots er RÚV þannig aðsópsmeira á auglýsingamarkaði en ella, sem veikir stöðu einkarekinna miðla enn frekar. [2]

Tveir vinsælustu fréttamiðlar landsins fá aðeins brot af þeim opinberu framlögum sem ríkisfjölmiðilinn nýtur. Það gefur því augaleið að opinber fjárframlög haldast ekki í hendur við vinsældir fjölmiðla og val neytenda á fjölmiðlum í núverandi mynd.

Því má ætla að ef tillagan nær fram að ganga mundi hluti neytenda velja að ráðstafa hluta útvarpsgjaldsins til einkarekinna miðla. Þó mun Ríkisútvarpið halda stórum hluta tekna vegna gjaldsins áfram vegna þess að það verður hinn sjálfvaldi (e. default) valkostur. Tillagan myndi því bæta stöðu einkarekinna miðla og ýta undir aukna samkeppni á markaðnum án þess að leiða til kollvörpunar.

Viðskiptaráð styður tillöguna og vonar að hún hljóti framgang.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

---

Tilvísanir:

1 Sjá nánar í úttekt Viðskiptaráðs (mars 2025): „Afsakið hlé: umhverfi fjölmiðla á Íslandi“. Slóð: https://vi.is/skodanir/afsakid-hle

2 Viðskiptaráð (mars 2025): „Afsakið hlé: umhverfi fjölmiðla á Íslandi“. Slóð: https://vi.is/skodanir/afsakid-hle

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024