Viðskiptaráð Íslands

Opna þarf dyr háskólanna

Nú þegar er heimild til staðar í lögum til að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi hafi þeir öðlast reynslu eðahafi yfir að ráðaþekkingu og færni sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi.Viðskiptaráð tekur undir að umrædd lagaheimild sé ekki nægileg hvatning fyrir háskólana til þess að móta skýraðgangsviðmið fyrirnemendur sem lokið hafa iðn- og starfsnámi.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar breytingar á fyrirkomulagi aðgangsskilyrða að háskólum. Með frumvarpinu eru dyr háskóla opnaðar fyrir nemendur sem hafa lokið öðru námi en stúdentsprófi. Nú þegar er heimild til staðar í lögum til að innrita nemendur sem ekki hafa lokið stúdentsprófi eða öðru jafngildu prófi hafi þeir öðlast reynslu eða hafi yfir að ráða þekkingu og færni sem svarar til krafna skólans um undirbúning fyrir nám á háskólastigi. Viðskiptaráð tekur undir að umrædd lagaheimild sé ekki nægileg hvatning fyrir háskólana til þess að móta skýr aðgangsviðmið fyrir nemendur sem lokið hafa iðn- og starfsnámi. Ljóst er að slík undantekningarregla er til þess fallin að mæta afgangi, fremur en að vera opnari heimild fyrir háskólana til þess að móta sín inntökuskilyrði. Háskólum ætti enda að vera í sjálfsvald sett hvaða inntökuskilyrði þeir gera kröfu um fyrir einstaka deildir eða námsbrautir, enda best til þess fallnir.

Fjölgun iðnmenntaðra

Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að fjölga iðnmenntuðum hérlendis. Framleiðni á Íslandi er undir meðaltali Norðurlandanna, líkt og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur bent á og ítrekað í því samhengi mikilvægi þess að fleiri sæki sér starfs- og tæknimenntun svo koma megi betur til móts við þarfir samfélagsins. Þegar litið er til þess fjölda sem útskrifast úr starfs-, iðn- og tæknigreinum er hlutfall útskrifaðra mun lægra hérlendis en á Norðurlöndunum. Í þessu sambandi hefur verið vísað til þess að hér á landi sé misræmi í þeirri færni sem þörf er á í einkageiranum og þeirri færni sem þar er til staðar.

Á tímum fjórðu iðnbyltingarinnar og stöðugra tækniframfara er það óvissu háð hver störf framtíðarinnar verða. Til þess að tryggja samkeppnishæfni Íslands og svara eftirspurn einkageirans eftir tiltekinni færni og þekkingu þarf að eyða þeim hömlum sem til staðar eru fyrir þá sem kynnu annars að kjósa list- tækni- eða starfsnám til að halda áfram í háskólanám. Eins og staðan er þarf atvinnulífið á slíkri þekkingu að halda. Iðnnám er ein grunnstoða öflugs atvinnulífs og getur skortur á iðnmenntuðum einstaklingum hamlað starfsemi fjölda fyrirtækja. Að því sögðu hvetur Viðskiptaráð stjórnvöld og opinbera háskóla til enn virkara samtals við fulltrúa atvinnustarfseminnar í því skyni að þær námsgreinar sem þörf er á að styðja í þágu fjölbreyttara og öflugra atvinnulífs og samfélags verði efldar og vel kynntar framtíðarnemendum háskólanna. Í frumvarpinu eru tekin skref í átt að því að jafna stöðu bóknáms og starfsnáms á framhaldsskólastigi, svo iðnmenntaðir njóti sömu réttinda og þeir sem lokið hafa stúdentsprófi þegar kemur að innritun í háskóla. Þannig er verið að fjarlægja hindranir úr vegi þeirra sem ákveða að leggja stund á iðnnám sem er að mati Viðskiptaráðs til mikilla bóta.

Mat á áhrifum ábótavant

Líkur má leiða að því að þjóðhagslegur ábati sé af þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Samt sem áður telur Viðskiptaráð rétt að benda á að í greinargerð með frumvarpinu er ekki að finna mat á efnahagslegum áhrifum frumvarpsins. Fram kemur að ekki sé mögulegt að meta endanleg áhrif frumvarpsins á útgjöld og tekjur ríkissjóðs enda séu ekki fyrirliggjandi upplýsingar um hvort og þá hversu stór hópur muni óska eftir að komast í háskóla vegna lagabreytinganna. Mikilvægt er að mati Viðskiptaráðs að í greinargerðum frumvarpa sem til þess eru fallin að hafa áhrif á ríkissjóð sé í það minnsta gerð tilraun til að uppfylla kröfur 66. gr. l. nr. 123/2015 um opinber fjármál. Þá væri það máli sem þessu einnig til framdráttar að leggja mat á þjóðhagsleg áhrif til lengri tíma. Að því sögðu telur Viðskiptaráð að hér sé um að ræða mál sem almennt verður að telja að geti haft góð áhrif á ríkissjóð til lengri tíma og að líkindi séu til þess að af því hljótist þjóðhagslegur ábati.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024