Viðskiptaráð Íslands

Ráðast þarf í umbætur á gölluðu kerfi

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar beiðni stýrihóps um tillögur að endurskoðun fyrirkomulags eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum. Ráðið telur löngu tímabært að ráðast í umbætur á augljóslega gölluðu kerfi með sameiningu heilbrigðisumdæma og útvistun eftirlits.

Núverandi fyrirkomulag heilbrigðiseftirlits á Íslandi er óhagkvæmt. Samræmingar­hlutverk og mótun reglna er í höndum tveggja stofnana sem heyra hvor undir mismunandi ráðuneyti. Framkvæmd eftirlitsins er síðan í höndum níu svæðisbundinna eftirlitsaðila, sem hver starfar í umboði sérstakrar heilbrigðis­nefndar. Eftirlitið dreifist þannig á ellefu opinbera aðila á tveimur stjórnsýslustigum.

Þetta leiðir til þess að ósamræmi er í eftirliti á milli heilbrigðisumdæma. Þannig reka umdæmin mismunandi gagnagrunna og gjaldskrár sem eru ekki samræmdar á milli landshluta. Staða nefndanna hvað varðar fjárráð og mannafla er ólík og þær eru því misjafnlega vel í stakk búnar að sinna skyldum sínum.

Mikill meirihluti eftirlitsskyldra aðila eru lítil og meðalstór fyrirtæki. Einföldun leyfisveitinga- og skráningarferla með stafrænum lausnum er mikilvægur þáttur í að draga úr íþyngjandi fyrirkomulag fyrir þá sem stofna og reka umrædd fyrirtæki.

Þrjár tillögur Viðskiptaráðs að bættu fyrirkomulagi

Viðskiptaráð telur að verulegra umbóta og breytinga sé þörf til að auka skilvirkni heilbrigðiseftirlits og koma þannig í veg fyrir að almannafé sé sóað. Ráðið leggur fram þrjár tillögur svo það markmið náist:

1. Eitt heilbrigðisumdæmi: Landið verði skipulagt sem eitt heilbrigðis­umdæmi með það fyrir augum að samræma þjónustu þvert á landið. Upplýsingatæknikerfi verði sameinuð sem hluti af þessari einföldun þannig að allar upplýsingar, skráningar og skýrsluhald um heilbrigðis­eftirlit hér á landi sé á einum stað.

2. Útvistun framkvæmdar eftirlits: Útvista ætti framkvæmd heilbrigðis­eftirlits til faggiltra eftirlitsstofa, en slíkt hefur áður verið gert á öðrum sviðum opinbers eftirlits með góðum árangri. Þess háttar fyrirkomulag gerir eftirlitsstofum kleift að keppa sín á milli um veitingu þjónustunnar og skapar jafnframt tækifæri til sérhæfingar. Stjórnsýsluþáttur eftir­litsins yrði áfram í höndum Matvæla­stofnunar og Umhverfis­stofnunar.

3. Áhættumiðuð nálgun: Samhliða þessum breytingum mætti innleiða áhættumiðaðari nálgun við framkvæmd eftirlitsins, þar sem fyrirtækjum sem eru í áhættuminni starfsemi og/eða hafa góða sögu af reglufylgni er umbunað með því að draga úr umfangi íþyngjandi kvaða. Þessar tillögur eru í samræmi við tillögur starfshóps um fyrirkomulag eftirlits frá 2023.

Framangreindar tillögur leysa flest þau vandamál sem fylgja fyrirkomulagi heilbrigðis­eftirlits í dag og eru í samræmi við tillögur starfshóps um fyrirkomulag eftirlits frá 2023. Útvistun á framkvæmd eftirlitsins, með stjórnsýsluþáttinn áfram í höndum viðeigandi stofnana myndi tryggja samræmt eftirlit um allt land, jafnræði milli landshluta og eitt upplýsingakerfi. Þannig væri tæknileg framkvæmd eftirlitsins í höndum einkaaðila en mótun leikreglna áfram hjá stjórnvöldum. Allt myndi þetta draga úr sóun, sem er bæði rekstraraðilum og almenningi til heilla.

Ráðið telur brýnt að störf stýrihópsins leiði af sér breytingar á fyrirkomulaginu. Frá árinu 2001 hafa verið gefnar út sex skýrslur, sem fjalla með einum eða öðrum hætti um vandkvæði við núverandi fyrirkomulag. Nægar upplýsingar og greiningar liggja fyrir um augljósa galla við framkvæmd heilbrigðiseftirlits og löngu tímabært að grípa til aðgerða.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024