Viðskiptaráð bendir á að samkvæmt frumvarpinu virðist sem ætlunin sé að nýta eitt tól til að ná fjölda ólíkra markmiða sem kann ekki góðri lukku að stýra. Þar að auki er það mat ráðsins að frumvarpið sé mögulega til þess fallið að auka kynjabundinn launamun.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um fæðingar- og foreldraorlof. Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof og ýmsar breytingar eru lagðar til á núgildandi lögum. Þær umfangsmestu eru lenging fæðingarorlofsins í 12 mánuði, stytting tímabils til töku fæðingarorlofs og skipting þess á milli foreldra þannig að sjálfstæður réttur hvors foreldris fyrir sig verði sex mánuðir, en foreldrar geti framselt einum mánuði á milli sín sé þess óskað.
Viðskiptaráð vill koma eftirfarandi á framfæri:
Röng leið að réttu markmiði
Markmið frumvarpsins líkt og kemur fram í 2. gr. er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í greinargerð er fjallað um mikilvægi þess að auka hlut feðra hvað varðar nýtingu á sameiginlegum rétti foreldra til fæðingarorlofs þannig að meira jafnræðis gæti milli mæðra og feðra í því sambandi en nú er. Þá segir einnig að markmið laganna styðji við jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði.
Viðskiptaráð telur markmiðin góð og að lenging orlofstíma sé af hinu góða. Mikilvægt er að í sífellu sé unnið að því að jafna rétt kynjanna og tryggja að aðstæður hér séu slíkar að auðvelt sé að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Ráðið bendir á að samkvæmt frumvarpinu virðist sem ætlunin sé að nýta eitt tól til að ná fjölda ólíkra markmiða sem kann ekki góðri lukku að stýra. Þar að auki er það mat ráðsins að frumvarpið sé mögulega til þess fallið að auka kynjabundinn launamun.
Eftir að mánaðarlegar hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði voru skertar um 44% frá 2007 til 2008 dró úr nýtingu feðra á fæðingarorlofi.1 Í kjölfarið fór hlutfall feðra sem fullnýttu ekki grunnréttinn sinn (3 mánuðir) vaxandi frá 2009. Árið 2018 var hlutfall feðra sem fullnýttu grunnrétt sinn 43% en hlutfall mæðra 96%. Ef tekið er tillit til þess að umsóknir feðra í sjóðinn sem hlutfall af mæðrum var 85% nýttu 51% feðra ekki grunnrétt sinn. Í ofanálag taka einungis 13% feðra fæðingarorlof lengur en 3 mánuði. Ekki fæst séð að lenging grunnréttar foreldra sé endilega til þess fallin að auka nýtingu orlofs í mörgum tilfellum og telja má afar líklegt að fjöldi feðra sem ekki nýtir sinn grunnrétt fari vaxandi.
Líklega eru fleiri en einn áhrifaþáttur hér að verki, en við blasir að tekjur heimilisins skipta verulegu máli varðandi fæðingarorlof, þar sem tekjurnar skerðast á meðan fæðingarorlofi stendur. Ýmis kostnaður fylgir barneignum og fjárhagslegt öryggi skiptir máli á slíkum tímum. Ef horft er á tekjudreifingu þeirra sem sækja um og nýta fæðingarorlof er hún mjög ójöfn milli kynja. Það skýrist meðal annars af kynbundnum launamun og því að feður eru að jafnaði um þremur árum eldri, en á barneignaaldri vaxa tekjur fólks hvað hraðast. Hvernig dregið hefur úr nýtingu feðra samhliða skertum fæðingarorlofsgreiðslum skýrist vafalítið af sömu kröftum.
Með öðrum orðum er fjárhagslegur fórnarkostnaður feðra af fæðingarorlofi, almennt séð, umtalsvert meiri. Þess vegna er allskostar óvíst að munurinn á orlofsnýtingu foreldra minnki með lengingu grunnréttar um tvo mánuði, sérstaklega á meðan hámarksgreiðslan, sem er nálægt meðaltekjum feðra, er óbreytt. Að auki er ekki útilokað að munurinn milli orlofstöku feðra og mæðra aukist, sem aftur gæti aukið launamun kynjanna.
Lág hámarksgreiðsla eykur líkur á því að það foreldri sem hefur hærri laun nýti ekki fæðingarorlof sitt til fulls og að tekjulægra foreldrið nýti sér þá orlofsmánuði sem foreldrar eiga rétt á að skipta með sér og dreifi sínu orlofi enn frekar. Hækkun hámarksgreiðslna myndi hins vegar líklega hvetja fleiri feður til að taka lengra fæðingarorlof sem stuðlar að jafnari stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Hækkun þess hlutfalls meðaltals heildarlauna sem greitt er út (þetta hlutfall er nú 80%) gæti einnig aukið hvata foreldra til að fullnýta orlofsréttinn.
Virði fólgið í sveigjanleika
Eins og svo oft takast á ólík og gild sjónarmið þegar kemur að útfærslu fæðingarorlofs. Þarfir fjölskyldna eru misjafnar eins og þær eru margar og rétt að huga að því við útfærsluna. Ekki er horft nægilega vel til þessa í frumvarpinu enda leiðir frumvarpið til minni sveigjanleika fjölskyldna þar sem mælt fyrir um fækkun þeirra mánaða sem foreldrar geta ráðstafað sín á milli. Vissulega geta önnur sjónarmið eins og barátta gegn launamuni kynjanna vegið á móti sveigjanleikanum, en vegna ofangreinds er ekki að sjá að það eigi við hér. Ef ekki á að hækka hámarksgreiðslur umtalsvert samhliða lengingu eru því mjög sterk rök sem hníga að því að réttara sé að foreldrar hafir fjóra en ekki tvo mánuði til að ráðstafa sín á milli.
Nauðsynlegt er að brúa bil dagvistunar
Tímabilið frá því fæðingarorlofi lýkur og þar til barn fær leikskólavist er eitt brýnasta viðfangsefnið í jafnréttismálum á vinnumarkaði. Sé það bil ekki brúað er erfitt að sjá hvernig markmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof sé náð. Í úttekt BSRB frá árinu 2017 kom í ljós að íslensk börn voru að jafnaði um 20 mánaða gömul þegar þau komast inn á leikskóla.2 Vegna skorts á dagforeldrum eða öðrum sambærilegum úrræðum, komast fjölmargir foreldrar síðar til vinnu en ella sem er fjárhagslega íþyngjandi. Vegna kynbundins launamunar bitnar þetta oftar en ekki á konum. Á meðan þetta bil hefur ekki verið brúað telur Viðskiptaráð því ekki rétt að stytta það tímabil sem foreldrar hafa til þess að nýta rétt sinn til töku fæðingarorlofs úr 24 mánuðum í 18 mánuði.
Ekki er aðeins mikilvægt fyrir foreldra á vinnumarkaði að þetta bil sé brúað, heldur er hér um að ræða vandamál samfélagsins í heild þar sem fæðingartíðni hefur minnkað um 21% á aðeins 10 árum. Stjórnvöld þurfa að ráðast í að styrkja innviði, efla leikskólastigið og dagforeldraúrræði. Sú leið er ekki síður mikilvæg svo draga megi úr launamun kynjanna.
Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið verði endurmetið með tilliti til framangreindra athugasemda.