Viðskiptaráð Íslands

Sameining sýslumannsembætta skipulagsbreyting án rekstrarhagræðis

Viðskiptaráð fagnar markmiðum frumvarps um sameiningu níu sýslumannsembætta í eitt. Ráðið telur þó að frumvarpið, í núverandi mynd, tryggi ekki raunverulegt rekstrarhagræði, heldur feli fyrst og fremst í sér skipulagsbreytingu án sparnaðar. Með hliðsjón af fyrri sameiningum opinberra stofnana telur ráðið að unnt sé að ná fram verulegri hagræðingu, m.a. með fækkun stöðugilda og lokun starfsstöðva, og hvetur löggjafann til að tryggja að slík markmið náist í framkvæmd.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreint frumvarp sem felur í sér sameiningu níu sýslumannsembætta í eitt. Ráðið fagnar framlagningu frumvarpsins og markmiði þess um aukna hagræðingu og skilvirkni í opinberum rekstri.

Sameining sýslumannsembætta er í samræmi við hagræðingar­tillögur sem Viðskipta­ráð hefur lagt fram og getur, ef rétt er að henni staðið, leitt til markverðra umbóta í rekstri hins opinbera. Slík sameining er lykilþáttur í því að ná fram aukinni hagkvæmni og betri nýtingu fjármuna innan sýslumannskerfisins. Aftur á móti lýsir Viðskipta­ráð yfir efasemdum um að frumvarpið leiði til rekstrarhagræðis. Að mati ráðsins felur það einungis í sér skipulagslega sameiningu sem muni skila lítilli sem engri fjárhagslegri hagræðingu þegar upp er staðið.

Hverju ætti sameiningin að skila?

Sameining sýslumannsembætta ætti að skila 700 m. kr. hagræðingu miðað við sambærilegar stofnanasameiningar á síðustu árum (sjá mynd). Þegar lögreglu­embætti á höfuð­borgar­­svæðinu voru sameinuð árið 2007 náðist fram 17% rekstrar­hagræðing samhliða bættri þjónustu embættisins. Þegar stofnanir Skattsins voru sameinaðar í eina árið 2010 náðist fram 17% rekstrarhagræðing. [1] Að mati Viðskiptaráðs ætti sameining sýslumannsembætta að skila sömu hlutfallslegu hagræðingu og þessar tvær sameiningar, eða 17%. Það jafngildir 700 m.kr. hagræðingu á ári miðað við fjárheimildir embættanna í dag.

Að mati ráðsins eiga stjórnvöld að gera kröfu um sambærilega hagræðingu vegna sameiningarinnar. Hjá sýslumannsembættunum starfa í dag um 260 starfsmenn í 240 stöðugildum á 26 starfsstöðvum. Hagræðingunni mætti ná fram í yfirstjórn, starfsmannahaldi og með aukinni samþættingu innan hins nýja embættis til þess að markmið frumvarpsins um hagræðingu náist í reynd.

Þetta virðist ekki standa til samkvæmt ákvæði II til bráðabirgða í frumvarpinu. Þar er kveðið á um að allt starfsfólk sem verður í starfi hjá sýslumannsembættunum þegar frumvarpinu er ætlað að taka gildi muni starfa áfram hjá hinu nýja embætti. Í greinargerð með frumvarpinu um mat á áhrifum segir að gert sé ráð fyrir að útgjöld lækki vegna áhrifa breytinga í yfirstjórn og stoðþjónustu, án þess þó að nánar sé kveðið á um með hvaða hætti sú lækkun eigi að eiga sér stað.

Sóknarfæri til hagræðingar

Í gegnum tíðina hafa orðið nokkrar breytingar á fjölda og skipulagi sýslumanns­embættanna. Þann 1. janúar 2015 var sýslumannsembættum fækkað úr 24 í níu með gildistöku laga nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Stafræn þjónusta sýslumanna hefur aukist verulega á síðustu árum og hefur einstaklingum verið gert kleift að sækja ýmsa þjónustu rafrænt, þar á meðal umsóknir um meistarabréf, rekstrarleyfi og gististaðaleyfi.

Sameining sýslumannsembætta samhliða auknum sóknarfærum í áframhaldandi stafrænni þjónustu sýslumanna með betri og hagkvæmari þjónustu ætti að leiða af sér fækkun stöðugilda og lokun afgreiðslustaða. Það er eðlileg þróun sem viðskiptabankar og fjölmörg önnur fyrirtæki hafa einnig staðið fyrir á undanförnum árum. Í greinargerð með frumvarpinu segir enda að meginmarkmið þess sé bætt þjónusta við almenning og hámarksnýting fjármagns. Það kemur einnig fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lögð er áhersla á einföldun stjórn­sýslunnar og hagræðingu í rekstri.

Viðskiptaráð hvetur löggjafann til þess að endurskoða frumvarpið með það fyrir augum að tryggja að sameiningin leiði til raunverulegrar hagræðingar, sér í lagi hvað varðar fjárhagslegan sparnað líkt og í fyrri stofnanasameiningum.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísanir

1 Samráðsvettvangur um aukna hagsæld (2013). „Tillögur verkefnisstjórnar“ bls. 90. Slóð: https://www.stjornarradid.is/media/forsaetisraduneytimedia/media/samradsvettvangur/
fundargogn-samradsvettvangur-3-fundur-netid.pdf

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024