10. október 2018
Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarp til fjárlaga. Gert er ráð fyrir að heildartekjur ríkissjóðs verði 891 milljarður króna. Bæði eru það gríðarlega háir fjármunir og spyrja má áleitinna spurninga um forgangsröðun þeirra fjármuna sem Viðskiptaráð gerir athugasemdir við í sjö liðum.
Lesa umsögn
Samkvæmt lögum og stefnu Viðskiptaráðs í yfir 101 ár er áhersla lögð á að í opinberum fjármálum sé skattheimta sem hagkvæmust, haldið sé aftur af útgjaldaaukningu, nýting fjármuna sé sem best og að einkaframtakið fái að njóta sín þar sem það á við. Misjafnt er hvort að þessum sjónarmiðum sé gert hátt undir höfði í fjárlögum og opinberum fjármálum almennt og því margvísleg tækifæri til úrbóta.
Viðskiptaráð vill sérstaklega vekja athygli á eftirtöldu:
- Lítið má út af bregða svo að tekjuforsendur bresti og því er vont að spenna útgjaldabogann jafn hátt og ráðgert er.
- Auka þarf innviðafjárfestingar meira en það verður ekki gert með beinni aukningu ríkisútgjalda. Samvinnuleið (PPP) gæti leyst það vandamál og þjóðhagslega eru aðstæður til þess nú góðar.
- Betri árangursmælingar geta skapað grundvöll fyrir hvata til hagræðingar innan stofnana. Talsverð hætta er á að aukning útgjalda geti skilað litlu nema auknum kostnaði ríkissjóðs við núverandi fyrirkomulag.
- Tækifæri til betri nýtingar fjármuna eru fólgin í sameiningum stofnana. Með því má auka stærðarhagkvæmni og þannig draga úr neikvæðum áhrifum fámennis á Íslandi.
- Köllum eftir framboðsstuðningi frekar en eftirspurnarstuðningi á húsnæðismarkaði. Bætur og annar stuðningur við eftirspurnarhliðina er til þess fallinn að hækka verð og auka sveiflur á meðan stuðningur við framboð lækkar verð.
- Setja þarf samkeppnishæfni Íslands í fyrsta sætið og þar spila opinber fjármál stórt hlutverk. Gott dæmi um tækifæri til úrbóta er lækkun bankaskatts sem hækkar fjármagnskostnað, nokkuð sem er dragbítur á samkeppnishæfni Íslands skv. alþjóðlegum mælingum.
- Nokkuð holur hljómur virðist vera í örvun nýsköpunar þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir samdrætti útgjalda til málaflokksins á meðan engar sérstakar skattalegar aðgerðir virðast miða að því að örva rannsóknir og þróun til að auka verðmætasköpun í framtíðinni.
Lesa umsögn