Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um tvö frumvörp er snúa að lækkun og afnámi stimpilgjalds vegna fasteignaviðskipta. Stimpilgjöld hækka viðskiptakostnað á fasteignamarkaði og niðurstöður rannsókna benda til þess að skatturinn hafi skaðlegri áhrif á velferð en aðrar tegundir skattheimtu. Aukinn viðskiptakostnaður dregur úr veltu og raskar verðmyndun á einum stærsta, ef ekki stærsta, eignamarkaði á Íslandi. Það dregur úr sveigjanleika og getu heimila til þess að bregðast við breyttum aðstæðum t.d. vegna barneigna eða atvinnu. Viðskiptaráð er því eindregið fylgjandi því að frumvörpin hljóti brautargengi.