Viðskiptaráð lýsir yfir áhyggjum af fyrirhuguðum breytingum á veiðigjaldi, sem fela í sér íþyngjandi skattlagningu á eina af meginstoðum íslensks efnahagslífs. Ísland er eina landið þar sem sérstök gjöld á sjávarútveg standa undir öllum opinberum kostnaði vegna greinarinnar. Áformin um hækkun veiðigjalds bætast ofan á aðrar íþyngjandi breytingar sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar ofangreind drög að frumvarpi sem felur í sér verulega hækkun veiðigjalda með því að breyta reiknistofni þeirra, m.a. með því að miða við hærra aflaverðmæti uppsjávartegunda og botnfisks. Þrátt fyrir að gjaldhlutfall veiðigjalds haldist óbreytt (33%) þá munu breytingar leiða til verulegrar hækkunar á skattbyrði fyrirtækja í sjávarútvegi. Ráðið vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Íslenskur sjávarútvegur stendur undir sér
Í helstu samkeppnislöndum Íslands njóta sjávarútvegsfyrirtæki ríkisstyrkja. Þá er þar ekki heldur innheimt veiðigjald. Þrátt fyrir það stenst íslenskur sjávarútvegur alþjóðlega samkeppni og gott betur en það, sem endurspeglar styrkleika íslenska fiskveiðistjórnunarkerfisins.
Aflamarkskerfi með frjálsu framsali aflaheimilda sem er við lýði hér á Íslandi hefur því gefist vel. Kerfið hefur tryggt að veiðarnar eru sjálfbærar, bæði fjárhagslega og þegar litið til nýtingu stofna. Það hefur skilað miklum tekjum til samfélagsins í heild sinni og skatttekjum til ríkissjóðs.
Skýrsla OECD um sjávarútveg sýnir að Ísland, eitt þróaðra ríkja, stendur undir þeim stuðningi sem greinin hlýtur frá hinu opinbera (mynd 1). Í skýrslunni segir að sértæk gjöld á sjávarútveginn nemi 227% af opinberum kostnaði vegna atvinnugreinarinnar yfir tímabilið. Ríki á borð við Noreg, Kanada og Nýja-Sjáland leggja meira til sjávarútvegs en þau innheimta í opinber gjöld. Á meðal OECD ríkja nam gjaldtaka 6,5% af opinberum kostnaði við sjávarútveg. [1]
Í núgildandi lögum um veiðigjald er tekið fram í 1. gr. um markmið laganna að veiðigjaldið þjóni þeim tilgangi að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu og til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar. Í greinargerð með frumvarpi til laganna eins og þeim var síðast breytt er tekið fram um upphæð veiðigjaldsins, sem þá var hækkað í 33%, að horft hafi verið til þess að veiðigjald yrði með því sanngjarnt, m.a. í ljósi áhrifa þess á mörg og ólík sjávarútvegsfyrirtæki á landinu. Tekjur ríkisins af veiðigjöldum standa nú þegar undir kostnaði við umsýslu, eftirlit og rannsóknir á fiskveiðum.
Auðlindarenta varð eftir hjá seljendum aflaheimilda
Lykilrök fyrir þeirri miklu hækkun sem nú er áformuð er að hún sé liður í því að skattleggja þá umframrentu sem verður til í greininni í ljósi þess að hún byggi á auðlindanýtingu (svokölluð auðlindarenta, e. resource rent). Erfitt er að sjá hvernig þetta fær staðist, þar sem niðurstaða flestra greiningaraðila er að mikill meirihluti aflaheimilda sem úthlutað var við setningu kvótakerfisins hafi skipt um hendur. [2]
Það þýðir að kaupendur kvótans hafa nú þegar verðmetið þá rentu sem hlýst af auðlindanýtingunni og greitt fyrir hana að fullu við kaup á kvóta á á frjálsum markaði. Sú auðlindarenta sem myndaðist við setningu aflamarkskerfisins varð þannig að bróðurparti eftir hjá þeim sem fengu kvóta úthlutað í upphafi og hafa síðan þá selt sig út úr kerfinu.
Vikið frá reglum um samráð
Ráðið gerir jafnframt athugasemdir við þann skamma frest sem veittur er til umsagnar. Er þetta í ósamræmi við samþykktir ríkisstjórnarinnar um um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnar, nr. 791/2018 um opið samráð. Þar segir að kynna skuli almenningi áform um lagasetningu og frummat á áhrifum, sem hefur ekki verið gert. Þar segir jafnframt að drög að frumvarpi skuli kynnt almenningi og gefa kost á umsögnum og ábendingum. Gefa skuli hæfilegan frest til athugasemda, að minnsta kosti tvær til fjórar vikur. Eins skuli ráðherra rökstyðja sérstaklega í greinargerð með frumvarpi ákvörðun um að takmarka eða viðhafa ekkert samráð við almenning og hagsmunaaðila. Viðskiptaráð gagnrýnir að vikið sé frá reglum sem er ætlað að tryggja vandaða og vel undirbyggða lagasetningu, ekki síst í jafn umfangsmiklu máli og hér um ræðir.
Sótt að sjávarútvegi á mörgum sviðum
Að endingu telur Viðskiptaráð rétt að benda á að áform um hækkun veiðigjalds koma til viðbótar við aðrar íþyngjandi breytingar sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir. Í fyrsta lagi er það hækkun kolefnisgjalds. Nú liggja fyrir áform um að hækka gjaldið um 25% til viðbótar við 60% hækkun um síðustu áramót. Þetta er gert í nafni orkuskipta þótt rafknúnir togarar séu ekki á sjóndeildarhringnum. Fyrirtæki í sjávarútvegi munu því bera alla hækkunina.
Í öðru lagi er það nýjar reglur um upplýsingaskyldu, þar sem öllum aðilum í sjávarútvegi er gert að skila skýrslu um eigendakeðju sína til hins opinbera á þriggja mánaða fresti og innleidd er ný víðtæk skilgreining á tengdum aðilum, þar sem tengsl eru skilgreind víðar en á við um aðrar atvinnugreinar. Hér er um mismunum gagnvart sjávarútvegi að ræða, en jafnframt munu kvaðirnar íþyngja og draga úr hagkvæmni í greininni.
Í þriðja lagi er það loforð um að tryggja 48 daga strandveiðar. Ekki fæst séð hvernig staðið verði við það loforð öðruvísi en að færa aflaheimildir úr aflamarkskerfinu yfir í strandveiðikerfið. Sú tilfærsla mun færa verðmæti frá þeim sem hafa greitt fyrir aðgang að auðlindinni og nýta hana með hagkvæmustum hætti, til þeirra sem fengið hafa aðganginn frítt og stunda óhagkvæmari veiðar. Þessi aðgerð mun leiða til verri afkomu greinarinnar í heild sinni og þar af leiðandi minni skatttekjum af henni í ríkissjóð.
Í fjórða og síðasta lagi hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum jafnframt tilkynnt um að 10% tollur verði lagður á allan innflutning frá Íslandi til Bandaríkjanna. Þessi breyting mun gera íslenskar sjávarafurðir dýrari og þar af leiðandi draga úr eftirspurn eftir þeim, en Bandaríkin eru einn mikilvægasti útflutningsmarkaður íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja.
Að lokum vill ráðið árétta að Íslendingum hefur borið gæfa til að leggja áherslu á efnahagslega sjálfbærni í fiskveiðistjórnunarkefinu með því að veita fyrirtækjum frelsi og sveigjanleika til að auka hagkvæmni í rekstri. Ráðið hvetur stjórnvöld til þess að skapa sjávarútveginum stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi sem eflir verðmætasköpun og atvinnusköpun í landinu. Veiðigjald sem leggst með þungum hætti á eina atvinnugrein dregur úr þeim sameiginlegu verðmætum sem auðlindin getur skapað fyrir þjóðarbúið.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Skýrsla OECD um fiskveiðar (2025). Slóð: https://www.oecd.org/content/dam/oecd/en/publications/reports/2025/02/
oecd-review-of-fisheries-2025_d308ff48/560cd8fc-en.pdf
2 Sjá t.d. Daða Má Kristófersson (2010): „Greinargerð um áhrif fyrningarleiðar á afkomu og rekstur útgerðarfyrirtækja“. Slóð:
https://www.stjornarradid.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/Skyrslur/Fylgiskjal_5_Ahrif_fyrningaleidar_a_afkomu_
og_rekstur_utgfyrirtaekja_DadiMar.pdf