Viðskiptaráð Íslands

Stærsti óvissuþáttur rammáætlunar stendur óhaggaður

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um rammaáætlun sem hafði það að markmiði að tryggja skilvirka og ábyrga nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi. Ráðið telur að þó margar tillögur séu til bóta taki þær ekki á grundvandanum sem er rammaáætlunin sjálf.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur óskað eftir umsögnum um skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um rammaáætlun. Ráðið vísar til fyrri umsagna og ítrekar þá afstöðu sína að afnema eigi lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, jafnan nefnd rammaáætlun. Lögin byggja á norskri fyrirmynd sem hefur verið aflögð og sambærileg kerfi þekkjast ekki í þeim löndum sem við berum okkur jafnan saman við. Þvert á móti er áherslan í Evrópu að einfalda regluverk og greiða fyrir framleiðslu endurnýjanlegrar orku.

Eðlilegra er að lagaumhverfi orkuvinnslu verði sambærilegt við aðra atvinnustarfsemi í landinu og þá löggjöf sem gildir um framkvæmdir og mannvirkjagerð almennt. Má hér nefna t.d. lög um náttúruvernd, lög um stjórn vatnamála, lög um loftslagsmál, skipulagslög og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Til viðbótar mætti hafa þann fyrirvara að allra stærstu og flóknustu orkuframkvæmdirnar þarfnist samþykkis á Alþingi.

Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu og lagaumhverfi orkuöflunar frá því að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun voru upphaflega samþykkt. Í fyrirliggjandi skýrslu eru lagðar fram tillögur sem eru vissulega eru flestar til bóta. Sé ekki vilji til þess að afnema lögin hefur ráðið eftirfarandi athugasemdir við þær tillögur sem koma fram í efni skýrslunnar.

Viðskiptaráð telur þær tillögur sem eru framkomnar ekki taka á stórum óvissuþætti rammaáætlunar sem er aðkoma ráðherra og Alþingis. Í skýrslunni segir orðrétt: „Þær tafir sem orðið hafa á afgreiðslu tillagna verkefnisstjórnar virðast að mestu liggja hjá þeim stjórnsýsluaðilum sem síðar koma í ferlinu, ráðherra, Alþingi og mögulega sveitarstjórnum.“ Það er vandkvæðum bundið að setja lög sem leggja kvaðir á löggjafann en þar um leið kristallast vandinn við nálgun rammaáætlunar og að styðjast áfram við kerfi sem á að vera faglegt og uppfylla kröfur um vandaða stjórnsýslu en er á endanum pólitísk ákvörðun sem er hvorki hægt að kæra né endurskoða eftir hefðbundnum leiðum stjórnsýsluréttarins. Jafnvel þótt allar tillögur og úrbætur nái fram að ganga mun einn stærsti óvissuþáttur rammaáætlunar standa áfram óhaggaður.

Ráðið fagnar tillögum um skýrari markmið, skilgreiningar og hugtakanotkun í löggjöf. Skýrari kröfur til gagna og upplýsinga og málsmeðferðar í upphafi og að ferli rammaáætlunar verði í auknum mæli samfelluverkefni með einu samráðsferli verkefnastjórnar. Skýrari tímafrestum en þessu til viðbótar þarf að leita leiða til tryggja að ekki sé farið út fyrir tímafresti.

Athugasemdir við einstaka tillögur sem koma fram í viðaukum vegna breytinga á lögum og ráðið telur þörf á að bætt verði úr:

  • 8. tölul. og 9. tölul. 2. gr um áhrifa - og verndarsvæði: Ráðið telur rétt að þessi ákvæðin verði skýrð nánar. Sérstaklega hvað telst til áhrifa og hvort umfang þeirra þurfi að ná einhverjum lágmarksviðmiðum, ekki síst með vísan til mismunandi orkukosta og mismunandi skilgreininga faghópa hingað til.
  • 4. gr. um leyfi tengd orkurannsóknum og orkuvinnslu: Eins og ákvæðið stendur núna er hætta á gagnályktun. Samkvæmt núverandi reglum er ekki heimilt að veita leyfi til orkuvinnslu ef virkjunarkostur er í bið- eða verndarflokki. Ráðið telur hættu á að standi ákvæðið óbreytti sé hægt að gagnálykta að stjórnvöldum sé ekki heimilt að hefja undirbúning og vinnslu á leyfum eða öðrum lögbundnum ákvörðunum eins og umhverfismati eða skipulagsvinnu sem unnin er áður en ljóst er hvort virkjunarkostur er í nýtingu. Mikilvægt er að taka af öll tvímæli um að þetta eigi aðeins við um leyfi til orkuvinnslu.
  • 9. gr. um verkefnisstjórn: Vísast hér til athugasemda við 2. gr. um að skilgreina um hvað teljist til áhrifasvæða sé skýrt og ákveðið í upphafi. Þá megi segja varnagla um að óski Umhverfis- og Orkustofnun ekki eftir viðbótagögnum innan ákveðinn frests beri verkefnisstjórn að taka umsókn til umfjöllunar.
  • 10. gr. um ráðherra: Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að ráðherra verði settir skýrir tímafrestir vegna breytinga og umsagna ef ráðherra gerir breytingar á tillögum verkefnastjórnar.

Bein tengsl eru milli orkuframleiðslu og landsframleiðslu og lífsgæði þjóða ráðast að miklu leyti af efnahagslegri velmegun. Mikilvægt er því að stjórnvöld leiti því allra leiða til að auka skilvirkni í áframhaldandi orkuframleiðslu svo framleiðslugeta og samkeppnishæfni íslensks samfélags verði ekki skert.

Umsögnin í heild sinni má nálgast hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024