Viðskiptaráð Íslands

Stofnun Menntamálastofnunar

Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis vegna frumvarps til laga um Menntamálastofnun.

Með frumvarpinu er mælt fyrir um stofnun Menntamálastofnunar, nýrrar stjórnsýslustofnunar menntamála. Nái það fram að ganga mun Menntamálastofnun leysa Námsmatsstofnun og Námsgagnastofnun af hólmi og taka við verkefnum þeirra. 

Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:

  • Menntamálaráðuneytið gerir ráð fyrir að um 50 m.kr. árleg hagræðing geti náðst með sameiningu Námsgagnastofnunar og Námsmatsstofnunar.
  • Með sameiningu stofnananna væri stuðlað að einföldun og hagræðingu í stjórnsýslu menntamála, faglegum ávinningi og hagkvæmari rekstri. Viðskiptaráð telur þó að afmarka þurfi hlutverk stofnunarinnar með skýrari hætti en gert er í 4. gr. frumvarpsins. Hætta er á að umsvif stofnunar með óljós verkefni aukist hratt og kostnaður við rekstur hennar þar með.
  • Viðskiptaráð telur að nýta megi tækifærið með stofnun nýrrar Menntamálastofnunar til að innleiða umbætur þegar kemur að útgáfu námsgagna. Núverandi fyrirkomulag kemur í veg fyrir heilbrigða samkeppni á milli ólíkra útgefenda um gerð námsgagna og kennsluefnis fyrir nemendur í skólum hérlendis.
  • Veita ætti skólum aukið svigrúm til að móta eigin námskrár og kennsluefni út frá almennum grunnviðmiðum sem lögð væru fram í aðalnámskrá. Þannig væri dregið úr miðstýringu og þeir sem næst standa nemendunum fengju svigrúm til að þróa kennsluefni með þeim hætti sem best hentar. 
  • Menntamálastofnun er í frumvarpinu heimilt að „ívilna fámennum skólum sem eru óhagstæðar rekstrareiningar.“ Viðskiptaráð fagnar þeirri hreinskilni sem felst í þessu orðalagi, en telur þó enga ástæðu til að viðhalda óhagræði í rekstri með því að veita skólum sem reknir eru með óhagkvæmum hætti sérstakar ívilnanir. Eðlilegra væri að horfa til þess hvernig mætti auka hagkvæmni í rekstri viðkomandi skóla, til að mynda með því að sameina eða samþætta rekstur þeirra öðrum skólum. 

Umsögnina má í heild sinni nálgast hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024