Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslanaskrár, firmu, prókúruumboð, lögum um sameignarfélög og lögum um fyrirtækjaskrá (132. mál). Ráðið leggur til að frumvarpið nái fram að ganga.
Viðskiptaráð fagnar þeirri viðleitni sem felst í frumvarpi þessu í átt að einföldun ferla, bættri nýtingu kerfa og mannskaps auk bættrar þjónustu við atvinnulífið. Frumvarp þetta er til eftirbreytni enda ljóst að víðs vegar í stjórnkerfinu er unnt að ráðast í margþætta einföldun og auka þar með skilvirkni – stjórnsýslunni og notendum opinberrar þjónustu til hagsbóta.