Viðskiptaráð Íslands

Þingsályktunartillaga um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu

Viðskiptaráð Íslands hefur sent inn umsögn til utanríkismálanefndar Alþingis vegna tillögu til þingsályktunar um að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og um eflingu samstarfs við Evrópusambandið og Evrópuríki, 340. mál. Í umsögninni kemur fram að ráðið telur ekki rétt að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á þessum tímapunkti en styður tillögu um að treysta tvíhliða samskipti og samvinnu við Evrópusambandið og Evrópuríki.

Ályktanir stjórnar Viðskiptaráðs 2012 og 2014

Í ályktun sem gefin var út í nóvember 2012 kom fram að stjórnin teldi brýnt að lúka aðildarviðræðum og að kapp yrði lagt á að ná sem bestum samningi. Helstu rökin fyrir þeirri afstöðu fólust í mikilvægi þess að halda opnum möguleika landsins í gjaldmiðilsmálum til tvíhliða upptöku evru. Ennfremur var undirstrikuð nauðsyn þess að efnahagsstefna landsins miði að því að uppfylla almenn skilyrði heilbrigðs efnahagslífs, svokölluð Maastricht skilyrði ESB. Með því móti yrðu aðrir valkostir á borð við áframhaldandi rekstur sjálfstæðrar peningastefnu og einhliða upptöku annars gjaldmiðils samhliða gerðir raunhæfari.

Í mars á þessu ári var samþykkt ályktun þess efnis að ekki væri rétt að slíta aðildarviðræðum við ESB á þessum tímapunkti líkt og lagt er til í þingsályktunartillögunni. Stjórn ráðsins taldi að færa mætti rök fyrir þeirri afstöðu að torvelt gæti reynst að halda aðildarviðræðum áfram á þessum tímapunkti í ljósi þess að hvorugur núverandi stjórnarflokka er fylgjandi ESB aðild.

Þrátt fyrir það taldi stjórn Viðskiptaráðs ekki rétt að slíta viðræðunum þar sem að með slíkri ákvörðun væri lokað á mikilvægan valkost í efnahagsmálum, einkum hvað varðar framtíðarskipan peningamála. Með hliðsjón af þeim miklu hagsmunum sem eru að veði fyrir lífskjör í landinu væri mikilvægt að skerpa betur á þeim valkostum sem í boði eru áður en jafn afdráttarlaus ákvörðun væri tekin.

Stjórnin taldi skynsamlega sáttaleið í þessu erfiða máli felast í að gera hlé á aðildarviðræðum við ESB til loka kjörtímabilsins í stað þess að slíta þeim. Það var mat stjórnar Viðskiptaráðs að sú leið myndi skapa grundvöll fyrir núverandi stjórnvöld til að vinna að uppbyggingu efnahagslífsins næstu þrjú ár í breiðari sátt við aðila vinnumarkaðarins og aðra hagsmunaaðila en ella.

Skýrari valkostir og varanleg stefna í efnahagsmálum
Skýr framtíðaráætlun í efnahagsmálum er nauðsynleg og fjallað hefur verið um mikilvægi hennar í skýrslu McKinsey & Company og í vinnu Samráðsvettvangs um aukna hagsæld á Íslandi. Ein af grunnforsendum slíkrar áætlunar er skýr og varanleg stefna í peninga- og utanríkismálum. Valkostir Íslands í þessu samhengi eru einkum tveir: Aðild að Evrópusambandinu með upptöku evru eða áframhaldandi aðild að EES-samningnum og sjálfstæð mynt.
Hagfræðistofnun og Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands hafa báðar gert úttekt á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og hvorug úttektin gefur skýr svör um hver endanleg niðurstaða hefði orðið. Á meðan ekki liggur fyrir hvað fælist í aðildarsamning Íslands að Evrópusambandinu mun þjóðin ekki geta framkvæmt heildstætt hagsmunamat og myndað sér endanlega afstöðu um hvor ofangreindra kosta eigi að mynda varanlegan grundvöll efnahagsstefnu Íslands.

Ef þingsályktunartillagan verður samþykkt og umsóknin dregin til baka færi ferlið aftur á byrjunarreit. Nýjar aðildarviðræður myndu krefjast þess að leita þyrfti aftur samþykkis allra aðildarríkjanna, kalla þyrfti saman nýja ríkjaráðstefnu og veita framkvæmdastjórninni nýtt samningsumboð. Að því loknu þyrfti að endurtaka öll fyrri skref viðræðuferlisins. Viðskiptaráð telur að mikil sóun væri fólgin í því að stíga þetta skref án þess að skýr ávinningur fyrir heildarhagsmuni þjóðarinnar sé til staðar.

Umsögn Viðskiptaráðs má í heild sinni nálgast hér

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024