Viðskiptaráð Íslands hefur sent inn umsögn til atvinnuveganefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um veiðigjöld, 568. mál. Í umsögninni kemur fram að ráðið leggur til að frumvarpið verði endurskoðað með tilliti til eftirfarandi sjónarmiða og nái ekki fram að ganga í núverandi mynd.
Ljóst er að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi hefur skipað íslenskum sjávarútvegi í fremstu röð og er því meðal grunnstoða lífskjara Íslendinga. Það er rétt að leggja áherslu á mikilvægi þess að öll þjóðin njóti arðs af auðlindum landsins. Um þetta sjónarmið ríkir almenn sátt, þó deilt sé um frekara fyrirkomulag. Arður af auðlindum verður hins vegar aðeins hámarkaður með því að búa viðkomandi atvinnugreinum hagfelld rekstrarskilyrði til lengri tíma.
Ágæt rök hafa verið færð fyrir því að skattlagning rentu sé varhugaverð og réttast væri að láta fyrirtækjunum og eigendum þeirra að ráðstafa rentunni. Aðrir telja skattlagningu rentu hagkvæma þar sem hún hefur takmörkuð áhrif á hvata í hagkerfinu.
Mikilvægt er að horfa á gjaldtökuna í samhengi við aðra þætti fiskveiðistjórnunarkerfisins. Ef vegið er að möguleikanum til hagræðingar og langtímahagkvæmni mun það skerða umfang auðlindarentunnar og draga úr getu útgerðarinnar til að standa undir gjaldtökunni.
Viðskiptaráð telur mikilvægt að hraða vinnu stjórnvalda við mótun varanlegrar lausnar í málinu þar sem jafnframt verði lögð ríkari áhersla á samráð við helstu hagsmunaaðila en verið hefur. Við skattlagningu á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki er rétt að líta til þess hvernig slíkri skattlagningu er hagað hjá öðrum ríkjum, enda eru fyrirtækin í alþjóðlegri samkeppni.
Viðskiptaráð gerir athugasemdir við einstök atriði í frumvarpinu, en þau eru:
Viðskiptaráð tekur einnig undir flest þau sjónarmið sem fram koma í umsögnum LÍÚ, SA og SF, en ber þar helst að nefna eftirfarandi atriði:
Viðskiptaráð tekur undir mikilvægi þess að þjóðin njóti arðs af auðlindum landsins. Skattlagning á útgerðarfyrirtæki má þó ekki valda fyrirtækjunum fjárhagsvandræðum eða rýra heildarverðmætasköpun fiskveiðistjórnunarkerfisins. Að mati Viðskiptaráðs er mikilvægt að vinna að framtíðarlausn á málinu í samráði við hagsmunaaðila.
Umsögn Viðskiptaráðs má í heild sinni nálgast hér.