Verðmæti fólgin í menntun og hæfni

Að mati Viðskiptaráðs er það hagur innflytjenda og samfélagsins að hæfni og færni nýtist sem best. Mat á menntun leikur þar lykilhlutverk en innflytjendur eru líklegri til að sinna störfum þar sem menntun þeirra og starfsreynsla nýtist ekki þrátt fyrir að menntunarstig þeirra sé sambærilegt við innlenda.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar Samfélag okkar allra, hvítbók í málefnum innflytjenda.

Atvinnuþátttaka er lykillinn

Hvítbókin miðar í grófum dráttum að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. Ráðið fagnar því að unnið sé að langtímastefnu í málefnum innflytjenda með mælanlegum markmiðum og með því að líta í ríkum mæli til ráðlegginga OECD. Atvinnuþátttaka eykur lífsgæði og velferð innflytjenda, sem stuðlar að aukinni hagsæld á Íslandi. Því telur ráðið jákvætt hversu mörg markmið og mælikvarðar miða að því auka atvinnuþátttöku, til dæmis að atvinnuþátttaka aðfluttra kvenna sé jöfn innlendra, atvinnuþátttaka flóttafólks sé jöfn almennri atvinnuþátttöku og hlutfall atvinnulausra innflytjenda sé í takti við almennt hlutfall þeirra.

Í hvítbókinni kemur fram að börnum af erlendum uppruna vegni verr í íslensku skólakerfi en innlendum jafnöldrum þeirra. Munurinn eykst með hækkandi aldri nemenda, sem leiðir til þess að brottfall úr námi í framhaldsskóla er hærra á meðal þeirra. Þetta hefur um leið áhrif á virkni og stöðu þeirra á vinnumarkaði. Því er þörf á að vinna að bættri menntun innflytjenda á öllum skólastigum.

Náist árangur í atvinnuþátttöku og samfélagslegri virkni innflytjenda eru líkur á að það hafi jákvæð á hrif á önnur markmið stefnunnar á borð við að draga úr fátækt þeirra, en samkvæmt hvítbókinni eru bein tengsl á milli fátæktar og stöðu þeirra á vinnumarkaði.

Verðmæti fólgin í menntun og hæfni

Það er hagur innflytjenda og samfélagsins að hæfni og færni nýtist sem best. Mat á menntun leikur þar lykilhlutverk en innflytjendur eru líklegri til að sinna störfum þar sem menntun þeirra og starfsreynsla nýtist ekki þrátt fyrir að menntunarstig þeirra sé sambærilegt við innlenda.

Markmið um að meta betur nám frá erlendum skólum og beiting raunfærnimats til að meta færni og reynslu innflytjenda eru til bóta en einnig þarf að vinna að kerfisbundnum hindrunum í umræddu mati, greina hvar helstu hindranir eru og hvaða úrbóta er þörf. Þá lagði OECD jafnframt til að komið yrði á fót menntabrú til að aðstoða innflytjendur að ljúka fullgildri menntun en ekki er að sjá tillögur þess efnis í hvítbókinni. Mikilvægt að er að mat á menntun og hæfni verði aðgengilegt, skilvirkt, gagnsætt og skýrt svo stefnan nái markmiðum sínum.

Að lokum vekur ráðið athygli á að í mörgum tilfellum er verið að setja fram mælanleg markmið án þess að núverandi staða sé þekkt. Ráðið telur mikilvægt að þegar kemur að mælikvörðum og væntri stöðu við lok gildistíma sé nauðsynlegt að núverandi staða liggi fyrir. Án hennar er engin leið að vita hvort þau markmið sem stefnt er að séu raunhæf. Æskilegra sé að fastsetja markmið mælikvarða eftir stöðutöku. Þá eru sumir mælikvarðar huglægir eins og t.d. mælikvarði A fyrir markmið 3.1. um að framboð og fjölbreytni námsleiða hafi aukist og aðgengi sé tryggt á öllu landinu.

Að öllu framansögðu styður Viðskiptaráð áframhaldandi vinnu í því skyni að auka atvinnuþátttöku innflytjenda og flóttafólks hér á landi. Ráðið áskilur sér jafnframt rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum á síðari stigum.

Virðingarfyllst,
María Guðjónsdóttir
Lögfræðingur Viðskiptaráðs

Lesa umsögn Viðskiptaráðs

Tengt efni

Skýrsla Viðskiptaþings 2024 - Hið opinbera: Get ég aðstoðað?

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024

Ný útgáfa um íslenskt efnahagslíf - 4. ársfjórðungur

Viðskiptaráð Íslands hefur birt nýja ársfjórðungslega útgáfu af The Icelandic ...
2. nóv 2023

Skýrsla Viðskiptaþings 2024

Í skýrslunni er fjallað um hið opinbera og hvernig megi bæta þjónustu þess til ...
8. feb 2024