Viðskiptaráð Íslands

Haglíkan í skugga COVID-19

Hversu þungt verður höggið? Viðskiptaráð Íslands hefur sett fram einfalt sviðsmyndalíkan af þróun landsframleiðslu til ársins 2030

Mynd © Viðskiptaráð Íslands
Mynd © Viðskiptaráð Íslands

Efnahagsáfallið sem nú dynur yfir vegna COVID-19 er án hliðstæðu. Að mati flestra liggur fyrir að kreppan verði sú dýpsta í áratugi og jafnvel aldir, en hversu djúp og langvinn er afar óljóst. Þróunin er þess eðlis að söguleg gögn og haglíkön fanga illa slíkan atburð. Engu að síður skiptir máli að hafa sem skýrasta mynd af þróuninni og þar gegnir þróun landsframleiðslu (VLF) lykilhlutverki enda hefur hún afgerandi áhrif á atvinnustig, kaupmátt, tekjur ríkissjóðs og margt, margt fleira.

Þess vegna hefur Viðskiptaráð Íslands sett fram einfalt sviðsmyndalíkan í Grid hugbúnaðinum af þróun landsframleiðslu til ársins 2030. Nálgast má líkanið hér.

Skjáskot úr Grid

Dökk en raunsæ grunnsviðsmynd: 13% samdráttur í ár

Þegar líkanið opnast má sjá ákveðnar grunnforsendur. Frá og með 2021 byggjast þær á meðalvexti áranna 1997-2019. Árið 2020 byggir hinn bóginn á sviðsmynd sem er afar dökk en raunsæ og þýðir 13% samdrátt landsframleiðslu sem væri mesti samdrátturinn í 100 ár og nálægt því að vera mesti samdrátturinn frá upphafi mælinga í 150 ár. Verði batinn í takt við meðalhagvöxt 1997-2019 mun það taka 8 ár að ná fyrri verðmætasköpun á mann og uppsafnað tap landsframleiðslu frá 2019 nemur rekstri Landspítalans í 16 ár og framlagi ríkisins til Landspítalans í 18 ár.

Helstu upplýsingar um þróun undirliða í grunnsviðsmynd

  • Einkaneysla: Vegna samkomubanna og annarra takmarkana liggur fyrir að neyslumynstur landsmanna breytist verulega og fyrstu tölur um kortaveltu einstaklinga, 17,5% samdráttur í mars, auk hratt versnandi væntingavísitölu, benda til verulegs samdráttar. Í ofanálag er atvinnuleysi komið á ótroðnar slóðir með tilheyrandi lækkun ráðstöfunartekna heimila.
  • Samneysla: Stjórnvöld hafa tvívegis lagt fram fjáraukalög sem munu auka samneysluna svo hún verður að líkindum meiri en ella í ár. Næstu aðgerðarpakkar og aðgerðir gegn veirunni munu ráða miklu um framvindu samneyslunnar.
  • Atvinnuvegafjárfesting: Atvinnuvegafjárfesting er jafnan sveiflukenndasti liður landsframleiðslunnar og sá sem er erfiðast að spá fyrir um. Afleiðingar af og aðgerðir gegn COVID-19 gjörbreyta forsendum í rekstri fyrirtækja og leiða til þess að þau þurfa að heyja varnarstríð þar sem fjárfesting er líklega eitt helsta fórnarlambið.
  • Íbúðafjárfesting: Vísbendingar voru um minnkandi íbúðafjárfestingu í ársbyrjun en í ljósi breyttra efnahagsaðstæðna gæti hægt enn meira á.
  • Fjárfesting hins opinbera: Stjórnvöld hafa boðað myndarlega aukningu opinberrar fjárfestingar til að vega upp á móti efnahagssamdrættinum.
  • Vöruútflutningur: Fyrir liggur að samdráttur mun verða á útflutningi áls og þá verða grunnáhrif vegna flugvélaútflutnings 2019 til lækkunar. Hvað varðar sjávarafurðir og annan útflutning er erfiðara að segja til um, en ljóst er að minnkandi eftirspurn í viðskiptalöndum og erfiðar markaðsaðstæður munu hafa neikvæð áhrif.
  • Þjónustuútflutningur: Flug og ferðaþjónusta standa undir rúmum 2/3 þjónustuútflutnings og hefur því afgerandi áhrif. Hér er ekki gert ráð fyrir því að ferðaþjónustan nái sér aftur á strik á árinu, en staðan er afar óljós sem stendur. Aðrir liðir eru sveiflukenndir en tengdir upplýsingatækni og hugverkaiðnaði sem stendur hlutfallslega vel.
  • Vöruinnflutningur: Þessi liður ræðst fyrst og fremst af samspili þjóðarútgjalda (eða innlendrar eftirspurnar) og raungengi krónunnar. Hvort tveggja mun lækka og því verður að líkindum talsverður samdráttur.
  • Þjónustuinnflutningur: Hér vega ferðalög Íslendinga þungt eða um helming og þar lítur út fyrir að samdrátturinn verði í takt við útflutta ferðaþjónustu. Að öðru leyti er þetta svipuð þróun og á útfluttri þjónustu.

Tengt efni

Tilnefningarnefndir á Norðurlöndunum

Greining Viðskiptaráðs á starfsemi tilnefningarnefnda á Norðurlöndunum
3. apríl 2023

Hver er þín verðbólga?

Reiknivél Viðskiptaráðs sem gerir hverjum og einum kleift að reikna sína …
13. mars 2023