Hversu þungt verður höggið? Viðskiptaráð Íslands hefur sett fram einfalt sviðsmyndalíkan af þróun landsframleiðslu til ársins 2030
Efnahagsáfallið sem nú dynur yfir vegna COVID-19 er án hliðstæðu. Að mati flestra liggur fyrir að kreppan verði sú dýpsta í áratugi og jafnvel aldir, en hversu djúp og langvinn er afar óljóst. Þróunin er þess eðlis að söguleg gögn og haglíkön fanga illa slíkan atburð. Engu að síður skiptir máli að hafa sem skýrasta mynd af þróuninni og þar gegnir þróun landsframleiðslu (VLF) lykilhlutverki enda hefur hún afgerandi áhrif á atvinnustig, kaupmátt, tekjur ríkissjóðs og margt, margt fleira.
Þess vegna hefur Viðskiptaráð Íslands sett fram einfalt sviðsmyndalíkan í Grid hugbúnaðinum af þróun landsframleiðslu til ársins 2030. Nálgast má líkanið hér.
Þegar líkanið opnast má sjá ákveðnar grunnforsendur. Frá og með 2021 byggjast þær á meðalvexti áranna 1997-2019. Árið 2020 byggir hinn bóginn á sviðsmynd sem er afar dökk en raunsæ og þýðir 13% samdrátt landsframleiðslu sem væri mesti samdrátturinn í 100 ár og nálægt því að vera mesti samdrátturinn frá upphafi mælinga í 150 ár. Verði batinn í takt við meðalhagvöxt 1997-2019 mun það taka 8 ár að ná fyrri verðmætasköpun á mann og uppsafnað tap landsframleiðslu frá 2019 nemur rekstri Landspítalans í 16 ár og framlagi ríkisins til Landspítalans í 18 ár.