Hugveitan Tax Foundation hefur birt árlega útgáfu um vísitölu samkeppnishæfni skattkerfa. Ísland féll um tvö sæti á milli ára og er í 30. sæti af 36 ríkjum. Skattkerfið hefur afgerandi áhrif á samkeppnishæfni og lífskjör landsmanna. Því eru niðurstöðurnar nokkuð áhyggjuefni í ljósi núverandi stöðu.
Hugveitan Tax Foundation hefur birt árlega útgáfu um vísitölu samkeppnishæfni skattkerfa. Ísland féll um tvö sæti á milli ára og er í 30. sæti af 36 ríkjum. Sætið ákvarðast af vísitölu sem tekur tillit til fimm undirflokka til að mæla hvort skattkerfið ýti undir efnahagslegar framfarir frekar en að draga úr þeim (mynd 1). Samkeppnishæfustu löndin hafa þannig lága jaðarskatta og einfalda öflun skatttekna sem heldur undanskotum og ójafnri skattbyrði í lágmarki. Skattkerfið hefur afgerandi áhrif á samkeppnishæfni og lífskjör landsmanna. Því eru niðurstöðurnar nokkuð áhyggjuefni í ljósi núverandi stöðu.
Íslenska skattkerfið er íþyngjandi og flókið í alþjóðlegum samanburði
Sá fjöldi klukkustunda sem tekur einstaklinga og fyrirtæki að standast skil á skattgreiðslum er einn mælikvarðinn á samkeppnishæfni skattkerfa. Þeim mun meiri tími, þeim mun meiri er kostnaðurinn vegna þjónustu og ráðgjafar og tapaðra verðmæta sem hefði mátt skapa á þeim tíma. Samkvæmt vísitölunni er þessi kostnaður á Íslandi undir meðaltali OECD en þó ekki sérlega samkeppnishæfur (mynd 2). Þannig er tíminn sem tekur fyrirtæki að gera skattskil hér á landi undir meðaltali OECD og í samræmi við flest Norðurlöndin, en þó töluvert meiri en í öðrum ríkum löndum eins og Finnlandi, Lúxemborg og Sviss. Þessi munur er svo enn meiri þegar kemur að skattskilum einstaklinga.
Einföldun skattkerfisins myndi hjálpa í þessu samhengi. Til dæmis er virðisaukaskattskerfið flóknara hér en í mörgum OECD ríkjum. Þetta er sýnir hlutfall virðisaukaskattstekna af mögulegum virðisaukaskatttekjum ef öll neysla á vöru og þjónustu yrði veitt með virðisaukaskatt (VSK) (e. VAT revenue ratio). Á Íslandi er þetta hlutfall undir meðaltali OECD, sem er veikleiki enda er hlutfallið lægra eftir því sem færri greiða fullan virðisaukaskatt (mynd 3). Til að hækka hlutfallið og auka samkeppnishæfnina mætti t.d. fækka þrepum úr tveimur niður í eitt og fækka undanþágum. Þannig myndi skattheimtan verða skilvirkari á sama tíma og skattstofninn breikkar.
Tekjuskattur á fyrirtæki undir meðaltali en reglur um yfirfæranleg töp sýna veikleika
Í undirflokkunum fimm stendur Ísland best þegar kemur að skattaumhverfi fyrirtækja en tekjuskattur á fyrirtæki (20%) er undir meðaltali OECD. Ekki er þó allt sem sýnist. Tekjuskatturinn greiðist þegar skattalegur hagnaður er af rekstri fyrirtækis, þ.e. skattalegar tekjur eru umfram frádrátt. Ef aftur á móti skattalegt tap er af rekstrinum myndast skattinneign sem fyrirtækið má nýta sem frádráttarlið þegar, og ef, það skilar hagnaði í framtíðinni. Samkvæmt reglum mega fyrirtæki á Íslandi nýta eftirstöðvar rekstrartapa frá síðustu tíu árum á undan tekjuárinu sem hagnaður kemur til. Þessar reglur eru taldar vera einn af veikleikum íslenska skattkerfisins en í 20 OECD ríkjum eru engin tímamörk á hversu lengi fyrirtæki mega nýta sér uppsafnaða skattinneign. Að auki er fyrirtækjum í 13 OECD ríkjum leyft að nýta skattinneign aftur í tímann en slíkt er óheimilt hér á landi og gefur það íslenska skattkerfinu annan mínus í kladdann.
Skortur á tvísköttunarsamningum við önnur lönd er dragbítur á samkeppnishæfni
Við útreikning vísitölunnar í undirflokknum skattar á erlenda aðila er litið til skattaumhverfis erlendra fjárfesta og fyrirtækja sem hafa erlenda starfsemi. Í undirflokknum fær íslenska skattkerfið góða einkunn fyrir það að einungis einn tekjuskattur er lagður á skattalegar tekjur fyrirtækja óháð því hvar í heiminum þeim var aflað. Þannig er komið í veg fyrir að fyrirtæki með erlenda starfsemi borgi misháa skatta eftir því hvaðan tekjur þeirra koma. Hins vegar dregur úr samkeppnishæfninni að Ísland er meðal þeirra OECD landa sem hafa fæsta tvísköttunarsamninga (mynd 4), enda koma slíkir samningar í veg fyrir að fyrirtæki og hluthafar borgi skatta í tveimur löndum. Í umfjöllun Tax Foundation er fjölgun tvísköttunarsamninga því sögð lykilatriði í að auka samkeppnishæfni og laða að erlenda fjárfestingu.
Aukið svigrúm til að flýta afskriftum myndi auka samkeppnishæfni og fjárfestingu
Annað atriði sem gæti bætt samkeppnishæfni íslenska skattkerfisins varðar afskriftir fastafjármuna, sem koma til þegar fyrirtæki fjárfestir í framleiðslutækjum eða fasteignum. Kostnaði slíkrar fjárfestingar er dreift yfir áætlaðan líftíma hennar í formi afskrifta sem hafa áhrif á tekjuskatt frá ári til árs. Þó greitt sé fyrir fjárfestinguna í dag mun kostnaðurinn því ekki hafa áhrif á reksturinn að fullu fyrr en búið er að gjaldfæra allar afskriftirnar. Til að athuga hvort kostnaðurinn sem færður verður í rekstrarreikning verði jafn því sem greitt er í raun má deila núvirði afskriftanna með andvirði fjárfestingarinnar (mynd 5). Ef hlutfallið er 100% þá nær fyrirtækið að gera fulla grein fyrir fjárfestingunni í bókhaldinu, ef ekki þá greiðir það meira en kemur fram í bókum þess og skattbyrði eykst.
Í greiningu Tax Foundation eru slík hlutföll reiknuð þar sem þjóðir fá hærri einkunn eftir því sem hlutföllin eru hærri. Ísland er fyrir ofan meðaltal OECD en einkunnin myndi hækka ef fyrirtæki gætu fært þungan af afskriftum framar á líftíma fjárfestinga (mynd 5). Fyrir utan að bæta samkeppnishæfni myndi þetta auka arðsemi fjárfestingarverkefna og skapa þannig hvata til ráðast í slík verkefni. Takmarkið með þessu yrði því að auka fjárfestingargetu og að endingu verðmæta- og atvinnusköpun. Sjaldan hefur verið jafn mikil þörf á því eins og í þeirri djúpu kreppu sem hagkerfið er nú statt í.