Viðskiptaráð Íslands hefur gefur út ritið „Hið opinbera: Meira fyrir minna“ þar sem rýnt er í hlutverk, rekstur og störf hins opinbera. Ljóst er að minna verður til skiptanna hér á landi á næstunni og áfram munu heyrast háværar raddir um aukin útgjöld úr ríkissjóði. Svigrúm til skattahækkana er lítið og að mati Viðskiptaráðs er aukin framleiðni í rekstri hins opinbera lykilatriði svo opinber fjármál verði sjálfbær, en hið opinbera hefur dregist aftur úr í framleiðni á undanförnum árum.
Þörf er á ítarlegri og heildstæðri yfirferð á starfsemi hins opinbera svo mæta megi þeim stóru áskorunum sem framundan eru í ríkisrekstrinum. Þetta rit er innlegg Viðskiptaráðs í þá umræðu en þar má finna fjölmargar tillögur, hugmyndir og annað sem getur nýst í þeirri vinnu að auka framleiðni í rekstri hins opinbera svo fjármál hins opinbera geti áfram verið sjálfbær til framtíðar.
Ritið skiptist í fimm kafla:
1. Hið opinbera í almennu ljósi
2. Hvert er hlutverk hins opinbera?
3. Hvernig getur hið opinbera sinnt hlutverki sínu betur?
4. Sveitarfélögin
5. Fjármögnun hins opinbera
(Hægt er að smella á kaflana til að skoða þá)
Tillögur Viðskiptaráðs eru meðal annars :
- Forgangsraða þarf á útgjaldahliðinni í þágu grunnþjónustu, framfærslu og markaðsbresta en minnka umsvif á sviði samfélagsmótunar.
- Stuðla þarf að því að einkafjárfesting aukist á ný með skattalegum hvötum til einstaklinga og fyrirtækja ásamt því að bæta í hvata til nýsköpunar.
- Nýta þarf tækifæri í samvinnu einka- og opinberra aðila í auknum mæli, t.d. með samvinnuleið (PPP) um innviðaverkefni.
- Með þarfir þeirra sem sækja sér heilbrigðisþjónustu í huga á opinbert fjármagn að fylgja sjúklingum þangað sem þeir leita, en ekki að renna til stofnana sem slíkra.
- Æskilegt er að stytta grunnskólanám um eitt ár og fjölga kennsludögum ársins til að tryggja betra samræmi við nágrannalönd.
- Í stað þess að meta örorku einstaklinga þarf að meta starfsgetu einstaklinga og bæta aðstoð við þá sem eru óvirkir á vinnumarkaði.
- Horfa þarf til sameininga ríkisstofnana svo þær geti sinnt hlutverkum sínum með fullnægjandi hætti og skörun í verkefnum þeirra sé lágmörkuð.
- Draga þarf úr lögverndun og leyfisskyldu hér á landi.
- Virðisaukaskattskerfið þarf að einfalda.
- Tryggja þarf sjálfbærni sveitarfélaga með því að sameina þau svo að endingu skapist forsendur til að leggja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga niður.
Ritið er nú aðgengilegt öllum í vefútgáfu. Einnig má óska eftir prentuðu eintaki með því hafa samband við mottaka@vi.is