Viðskiptaþing 2024 fer fram 8. febrúar á Hilton Reykjavík Nordica og hefst kl. 13:00.
Starfsemi hins opinbera skiptir okkur öll máli, hvernig þjónustu það veitir, hversu skilvirk þjónustan og önnur starfsemi er og hversu miklu fé er varið til hennar, en ríkið eitt veltir um það bil þriðju hverri krónu árlega sem verður til í hagkerfinu. Hvernig tekst til hefur áhrif á samkeppnishæfni atvinnulífsins og lífsgæði fólks.
Til grundvallar þinginu liggur úttekt Viðskiptaráðs á rekstri, stofnunum og þjónustu hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga, skilvirkni ferla (eða skorti á henni), reglubyrði og ýmsum fleiri atriðum. Ætlunin er að nálgast efnið á lausnamiðuðum nótum, benda á leiðir til hagræðingar, tækifæri til að bæta þjónustu og nýta tækni betur og beina um leið sjónum að möguleikum til að fela einkaaðilum verkefni.
Fjallað verður um hagnýtingu gervigreindar, við fáum að heyra hvernig er að innleiða breytingar hjá hinu opinbera og hvað vanti upp á til að við náum betri árangri í rekstri og þjónustu. Einnig vörpum við upp spurningum eins og hvort skortur á samkeppni hamli umbótum hjá hinu opinbera og hvers vegna góð áform og loforð stjórnmálamanna dagi of oft uppi.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, flytja ávörp og Garðar Björnsson Rove, helsti sérfræðingur McKinsey á sviði gervigreindar, talar um gervigreind og tækifæri í opinberum rekstri. Meðal annarra sem taka þátt eru Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri hjá Póstinum, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi Kara Connect, Björgvin Ingi Ólafsson, meðeigandi hjá Deloitte, Andri Heiðar Kristinsson, fyrrverandi leiðtogi Stafræns Íslands og Snorri Másson, ritstjóri, sem stýrir umræðum fulltrúa atvinnulífs og stjórnmála. Fundarstjórn verður í höndum Svanhildar Hólm Valsdóttur, framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs.
Verð á Viðskiptaþing 2024