Viðskiptaráð Íslands

Umbætur fyrir íslenskt viðskiptalíf

Um 90 manns úr breiðum hópi félaga Viðskiptaráðs sóttu vel heppnað Umbótaþing ráðsins sem fram fór á mánudag. Á þinginu komu fram fjöldi ábendinga um vandamál sem þarf að leysa og hugmyndir að úrbótum, sem þátttakendur færðu í sameiningu í fjölbreyttar tillögur að verkefnum fyrir viðskiptalífið.

Auk þess sem félögum gafst tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum um nauðsynlegar úrbætur á framfæri þá fólu þeir Viðskiptaráði margvísleg hlutverk við framkvæmd þessara verkefna. Niðurstöður þingsins munu því setja mark sitt á starf ráðsins næstu misseri og veita stjórn þess leiðsögn um helstu áherslur. Vinnuhópur stjórnar ráðsins um sjálfbærni atvinnulífs kom að skipulagi þingsins og mun í framhaldi vinna, ásamt vinnuhópi um nýsköpun og um efnahagsmál, áfram með þær tillögur og hugmyndir sem fram komu.

Tómas Már Sigurðsson, formaður ráðsins, setti þingið og ræddi um mikilvægi þess að stoðir samfélagsins stæðu saman, erfiðara væri fyrir hvern og einn að vinna sjálfstætt hver í sínu horni. Þá nefndi Tómas að markmið þingsins væru fjölþætt, en eitt þeirra væri að sýna að viðskiptalífið sé lifandi afl sem vill læra af mistökum sínum og bæta það sem aflaga fer. Að mati Tómasar þyrftu atvinnurekendur jafnframt að stuðla að því með athöfnum sínum og gjörðum að fyrirtæki ynnu sér rétt til að starfa um ókomna tíð, í því fælist sjálfbært viðskiptalíf. Auk Tómasar tók til máls Stefán Einar Stefánsson, viðskiptasiðfræðingur, sem ræddi á opinskáan hátt m.a. um að viðskiptalífið þyrfti að vera traustsins vert, jafnt í sýnd og reynd.

Hugmyndavinna félaga markar stefnuna
Þátttakendum var skipt upp á borð og byrjaði fundurinn á almennri hugmyndavinnu þar sem hver og einn skráði niður hugmyndir að aðkallandi verkefnum. Margar af þeim hugmyndum sem fram komu voru af svipuðum meiði, en búið var að skipta hugmyndavinnunni í fjóra flokka sem voru: Starfshættir, gagnsæi, samkeppni og viðskiptaumhverfi. Hvert borð vann með einn málaflokk og útbjó tillögur að framkvæmd nokkurra verkefna undir sínum málaflokki.

Mikið af áhugaverðum hugmyndum komu fram, enda endurspeglaði hópurinn vel breidd íslensks viðskiptalífs. Meðal þess sem fram kom var að stjórnarhætti fyrirtækja þyrfti að bæta og mætti það m.a. gera með einskonar gæðavottun. Þá var það nefnt að hluthafar sætu ekki allir við sama borð og myndi endurskoðun á lögum þar að lútandi aðstoða við að endurvekja traust á íslenskum hlutabréfamarkaði. Fram komu einnig hugmyndir um aukin fjölbreytileika í hópi stjórnenda fyrirtækja, hvað varðar kyn, þekkingu og reynslu, til þess að koma í veg fyrir hjarðhegðun og að jafnvel mætti koma upp eins konar hvatakerfi sem verðlaunaði gagnrýni innan fyrirtækja.

Mikið var rætt um upplýsingaskil innan þeirra hópa sem unnu með flokkinn gagnsæi. Bent var á að í flestum nágrannalöndum okkar eru fyrirtæki sem ekki skila inn ársreikningi á endanum afskráð og því rekin að fullu á ábyrgð eigenda og stjórnarmanna. Einnig var talað um betri og víðtækari upplýsingaskil til að stuðla að því ýmsir markaðsgreinendur væru með nýjar og heildstæðar upplýsingar til að greina þróun markaða hér á landi.

Bæta þarf viðskiptaumhverfið hér á landi
Samkeppnismál voru mörgum ofarlega á baugi, en m.a. komu fram tillögur að breyttu lagaumhverfi í tengslum við banka, sérstaklega varðandi heimildir banka og fjármálastofnana til þess að eiga fyrirtæki á almennum samkeppnismarkaði. Þá komu fram hugmyndir sem stuðla myndu að bættu samkeppnisumhverfi hér á landi, t.a.m. til að draga úr samþjöppun og til að nýta útflutningstækifæri, og spilaði þar einnig inn í sú skoðun að aðkoma ríkisins að samkeppnisrekstri væri orðin of mikil.

Þegar kom að umræðum um viðskiptaumhverfið voru flestir sammála um að hátt vaxtastig, gjaldeyrishöft og breytingar á skattkerfinu gerðu mörgum fyrirækjum erfitt fyrir. Þá komu einnig fram hugmyndir um enn frekari aðkomu Viðskiptaráðs og atvinnulífsins að menntamálum, t.d. í formi þess að fræða grunnskólanemendur um mikilvægi sköpunar í atvinnulífinu og með því auka kraft þess enn frekar. Einnig var það gangrýnt að viðskiptalífið væri of einsleitt og því þyrfti að setja meiri kraft í nýsköpun hér á landi, t.d. með stuðningsneti við frumkvöðla, en ekki síður með því að virkja starfandi fyrirtæki til nýsköpunar.

Í lok þingsins tók Hreggviður Jónsson, formaður vinnuhópsins um sjálfbærni atvinnulífs, til máls og þakkaði þátttakendum fyrir samstarfið og fór yfir næstu skref, en félagar verða upplýstir um framvindu verkefnisins á haustmánuðum.

Nánari upplýsingar:

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024