Viðskiptaráð Íslands

Skattalegar brotalamir: afnema þarf afdráttarskatta á vaxtagreiðslur

Veruleg óvissa ríkir nú í skattamálum fyrirtækja þar sem upplýsingar um væntanlegar tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs fyrir næsta ár eru takmarkaðar. Skattabreytingar síðustu missera hafa einkennst af hringlandahætti og hafa þær jafnframt ýtt undir ósamræmi í skattlagningu hérlendis miðað við það sem gerist í samkeppnislöndum okkar.

Eitt af þeim málum sem brýnt er að skoða er afnám afdráttarskatta á vaxtagreiðslur til erlendra aðila, en skattlagningin felur í stuttu máli í sér að íslenskt fyrirtæki sem greiðir af láni sínu til erlends lánveitanda skal halda eftir og skila til ríkissjóðs ákveðnu hlutfalli af vaxtagreiðslunni. Auk þess að ná til vaxtatekna af þessu tagi nær skattlagningin jafnframt til þeirra sem myndast af bankainnstæðum, verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum og öðrum fjármálagerningum.

Aukinn fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja
Í orði hljómar þetta líkt og skattlagningin hafi ekki áhrif á innlend fyrirtæki enda ætti skatturinn að vera greiddur af tekjum hins erlenda lánveitanda. Í flestum tilvikum er staðreyndin hins vegar önnur, því í nær öllum lánasamningum á alþjóðlegum mörkuðum eru ákvæði um að ef nýjar álögur (t.d. afdráttarskattar) eru lagðir á lánveitanda, þá ber lántaki þann kostnað. Allar breytingar af þessu tagi skulu þannig vera að skaðlausu fyrir hinn erlenda lánveitanda, sem þýðir þá að fjármagnskostnaður íslenskra fyrirtækja eykst fyrir vikið. Vart er á það bætandi í því árferði sem ríkt hefur á fjármagnsmörkuðum undanfarna 18 mánuði. Þannig þrengir reglan líka möguleika íslenskra fyrirtækja til að sækja sér fjármagn, þar sem kjörin eru óhagstæð nema í þeim fáu ríkjum þar sem fyrir liggur tvísköttunarsamningur þar sem samið hefur verið um að enginn skattur skuli lagður á vaxtagreiðsluna.

Tilgangur skattlagningarinnar var góðra gjalda verður, þ.e. að skerpa á framkvæmd og skilvirkni skattheimtu og draga úr skattaundanskotum. Hins vegar var vel mögulegt að ná því markmiði með einfaldari og skilvirkari leiðum án þeirra neikvæðu hliðarverkana sem afdráttarskattur af þessu tagi hefur í för með sér. Viðskiptaráð fjallaði einnig um þetta atriði í skoðun sem birt var í júní 2009, sjá hér.

Brotalamir sem brýnt er að færa til betri vegar
Fjallað er um málið í nýrri skoðun Viðskiptaráðs, Skattalegar brotalamir - hindra atvinnuuppbyggingu, sem út kom í nýliðinni viku. Skoðunina í heild sinni má nálgast hér, en í henni er einnig er farið yfir aðrar brotalamir í skattkerfinu sem brýnt er að færa til betri vegar. Þar má nefna að breyta þarf reglum um skattskil og jöfnun yfirfæranlegs taps hvað varðar söluhagnað í tengslum við endurskipulagningu fyrirtækja. Þar kemur einnig fram að afnema þarf skilyrði um jöfnun yfirfæranlegs taps þegar um er að ræða arðstekjur frá erlendum dótturfélögum og jafnframt þarf að efla útgáfu skattyfirvalda á bindandi forúrskurðum um skattamál.

Nánar um málið hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024