Viðskiptaráð Íslands

Skattaskýrsla AGS: Hvatt til einföldunar á skattkerfinu

Nýverið gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslu um íslenska skattkerfið. Skýrslan var unnin að beiðni stjórnvalda en þar eru kynntar tillögur sjóðsins um hvernig auka megi skatttekjur ríkissjóðs án verulegs skaða og neikvæðra áhrifa fyrir íslenskt efnahagslíf.

Í það heila er um að ræða vandaða og yfirgripsmikla úttekt á íslenska skattkerfinu sem hefur m.a. að geyma gagnlegan samanburð við skattkerfi nágrannalanda okkar. Í skýrslunni er almennt kynnt sú afstaða sjóðsins að ef stjórnvöld telji óhjákvæmilegt að hækka skatta skuli það gert með hóflegum breytingum sem miða að því að einfalda skattkerfið að nýju, breikka skattstofna og afnema ósamræmi við alþjóðlegar venjur.

Stöðugleiki mikilvægur
Í skýrslunni kemur skýrt fram sú afstaða sjóðsins að skattkerfið þurfi að vera stöðugt og allar breytingar sem þurfi að vinna á því séu gerðar með góðum fyrirvara og í samráði við hagsmunaaðila. Sá háttur var því miður ekki viðhafður við innleiðingu þeirra viðamiklu skattabreytinga sem tóku gildi um áramót, þar sem samráð við hagsmunaaðila var í lágmarki og breytingum var þrýst í gegn nær fyrirvara- og umræðulaust.

Af skýrslu sjóðsins má ætla að hann gefi þeim breytingum stjórnvalda ekki háa einkunn. Það má ráða af mörgum tillögum sjóðsins, einkum þær er varða tekjuskattsþrepin, virðisaukaskattsþrepin og breytingar á vörugjöldum. Þessar tillögur fela m.a. í sér að nýorðnum breytingum á skattkerfinu verði að einhverju leyti snúið við eða þeim, í það minnsta, breytt til muna.

Einfalt skattkerfi er gott skattkerfi
Í skýrslunni kemur fram að íslenska skattkerfið sé einfalt og skilvirkt. Þar munar mest um að kerfið byggir á lágum hlutföllum og breiðum skattstofnum, sem skýri mikil afköst þess til tekjuöflunar. Leggur sjóðurinn til að unnið verði að frekari einföldun kerfisins og þar með breikkun skattstofna. Í ljósi þessa má velta því upp hvort að skattkerfið fyrir breytingar síðustu áramóta hafi ekki verið þeim mun betur til þess fallið að hámarka tekjuöflunarmöguleika ríkissjóðs.

Markmið þeirra tillagna sem sjóðurinn leggur til á tekjuhliðinni er enn fremur að lágmarka neikvæð áhrif á atvinnustig og hagvöxt ásamt því, eins og áður sagði, að fjarlæga ósamræmi við alþjóðlegar venjur. Viðskiptaráð hefur áður bent á mikilvægi þess að stjórnvöld setji aukin umsvif í hagkerfinu sem forgangsmál, en þar skiptir miklu að bæta skattaumhverfi fyrirtækja. Það má m.a. gera með því að afnema reglur er varða meðferð söluhagnaðar og mótekins arðs móðurfélaga frá dótturfélögum sem og afdráttarskatta á vaxtagreiðslur til erlendra aðila. Þessar reglur ganga þvert gegn auknum umsvifum í hagkerfinu. Sjóðurinn leggur til breytingar í þá veru að laga þessar reglur að því sem gerist víðast hvar annars staðar.

Skattkerfið ekki nýtt til tekjujöfnunar
Að mati sjóðsins munu tekjumöguleikar ríkissjóðs skerðast ef skattkerfið verður of stighækkandi (e. progressive). Því ætti áherslan fyrst og fremst að vera á skilvirkar skattabreytingar til að ná inn nauðsynlegum tekjum fyrir ríkissjóð, fremur en að nota skattkerfið sem tæki til tekjujöfnunar. Hvað þetta varðar kemur fram í skýrslunni að nágrannalönd okkar ýti öðru fremur undir jöfnuð á útgjaldahlið sinni frekar en tekjuhlið og að framsækni skattkerfa þeirra sé tiltölulega lítil.

Þessu tengdu þá leggur sjóðurinn til að haldið sé í núverandi fyrirkomulag þar sem fjármagnstekjur einstaklinga eru skattlagðar lægra heldur en launatekjur. Með því er skilvirkni tekjuöflunar þessa kvika stofns hámörkuð að mati sjóðsins. Óbreytt fyrirkomulag er enn fremur í fullu samræmi við það sem tíðkast á flestum Norðurlöndunum. Yrði tekið upp samræmt skatthlutfall launatekna og fjármagnstekna einstaklinga telur sjóðurinn að það myndi skaða sparnað, fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu og í raun leiða af sér flóknar undanþágur og frádrætti sem myndi á endanum rýra skattheimtu.

Breytingar sem sjóðurinn telur mögulegt að skoða:

  • Fækka tekjuskattsþrepum úr þremur í tvö ásamt því að færa vörur sem nú eru í 7% þrepi virðisaukaskatts í 14%, en nýta ætti u.þ.b. þriðjung af tekjuauka virðisaukaskattsbreytinganna til að bæta kjör þeirra verst stöddu.
  • Hækka fasteignaskatta, en það er þó ekki talið ráðlegt fyrr en efnahagsástandið hér á landi batnar að nýju.
  • Ákveðin upphæð af tekjum einkahluta- og samlagsfélaga umfram tiltekin viðmið verði skattlögð sem launatekjur.
  • Hækka fjármagnstekjuskatt úr 18% í 20%.
  • Miða við ársreikninga, á grunni alþjóðlegra reikningsskilastaðla, við ákvörðun skattlagningar fyrirtækja.
  • Auka auðlindaskatta og hækka skatta á eldsneytisnotkun.
  • Leggja af stimpilgjöld með tímanum.

Þrátt fyrir að um einstaka tillögur sjóðsins séu eflaust uppi skiptar skoðanir þá er skýrslan þarft innlegg í annars takmarkaða umfjöllun um skattkerfið. Í skýrslunni eru margvíslegar tillögur sem einkum snúa að einföldun skattkerfisins og tæknilegum endurbótum. Þær þarf að taka til nánari skoðunar á næstu misserum og mikilvægt er að um þær verði viðhöfð málefnaleg og opin umræða.

Viðskiptaráð hefur fyrir sitt leyti skoðað og lagt fram tillögur um flesta þá þætti sem nefndir eru í skýrslu sjóðsins, m.a. í skýrslunum Útþensla hins opinbera frá árinu 2008 og Fjármál hins opinbera frá desember 2009 sem og í skoðunum ráðsins, en þær má nálgast hér.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024